Wednesday, September 16, 2009

Baba nar? Hvar er pabbi?

Kjartan kom í örheimsókn til okkar í síðustu viku og  síðan hefur Eyja spurt mikið um baba. Hún bendir út um gluggann vongóð um að hann birtist aftur. Hún er orðin góð af fyrsta haustkvefinu og vill fara á róló daglega. Við prófuðum mömmumorgun, afsakið foreldramorgun í dag og það var vel heppnað, þrjár stelpur á svipuðum aldri og vinalegar mömmur.

Hér voru æfingar á blokkflautuna og trompettinn í kvöld,  ég rifja upp nóturnar með strákunum. Er þó ekki búin að dusta rykið af klarinettinu enn. Stirnir las sinn daglega skammt og skrifaði upp orð eftir lesturinn sem ég valdi. Hann skrifaði “heimsókn” rétt í fyrstu tilraun, ég var alveg hissa. Hugi átti að skila tveimur sögum á mánudaginn en var í vanda á mánudagsmorgun, var bara búinn að klára aðra söguna og ekki byrjaður á hinni. Hann bar sig illa og vildi ekki fara í skólann en dreif sig svo upp og skrifaði sögu á tíu mínútum, hann vinnur greinilega vel undir álagi.

Stirnir er búinn að eignast nýjan vin í bekknum sínum en segist vilja kynnast honum betur áður en hann býður honum heim. Hugi kom með vinkonu heim í dag, sýndi henni herbergið sitt , bauð upp á ristað brauð og fylgdi henni síðan heim.  Hann hugsar oft til Hadley vinkonu sem nú er í Bandaríkjunum og hann skrifar henni tölvupóst. Nú síðast sagði hann henni að hann ætlaði í go-kart en það verður ekki strax því það vantar nokkra sentimetra í að hann fái að keyra.

Nokkrar myndir af Eyju sem leikur helst með bíla og lestir þessa dagana. Hún nýtur þess að gamla dótið bræðranna var dregið upp úr geymslunni.

Hér eru þær vinkonur Eyja og Andrea við bílastæðahúsið:

_MG_2067

_MG_2070

Sposkar með bílana.

_MG_2076

Koss í miðjum leik.

_MG_2081

_MG_2088

Ein af Eyju á fullri ferð og náðist varla í fókus.

Dalla

Monday, September 07, 2009

Hversdagsleiki

Nú er þriðja skólavikan að byrja og að komast mynd á dagskrá vikunnar hjá börnunum. Hugi byrjaði í trompetttímum á fimmtudaginn, fyrsta verkefnið var að ná hljóði úr lúðrinum og það gekk vel hjá honum. Hann fer tvisvar í viku í tíma, strax eftir skóla, í húsi á skólalóðinni, einstaklega þægilegt. Hann er líka búinn að fara á sinn fyrsta skátafund og honum fannst gaman. Hann bíður spenntur eftir því að fá merki og klút.

Stirnir er byrjaður í fimleikum og fer tvisvar í viku í Gróttu. Friðrik Kári er þar líka svo við mömmurnar ætlum að skipuleggja sætaferðir, jafnvel með þriðja vininum og þá verður bara keyrsluskylda þriðju hverja viku. Stirni finnst gaman í fimleikunum, sagði einn morguninn að hann gæti ekki beðið átta klukkutíma eftir því að fara þangað. Hann fylgist vel með tímanum því hann lýsti því yfir að skólinn á Íslandi væri betri vegna þess að hann væri í 5 klukkutíma en í Kína væri hann í 7 klukkutíma. Hann byrjar líka í forskóla tónlistarskóla í vikunni, lærir þar á blokkflautu. Kennslan fer fram í skólanum eftir skólatíma og þegar hann kemst inn á frístundaheimilið verður það mjög hentugt.

Það hefur tekið smá tíma hjá mér að finna út úr tímasetningum og skráningum fyrir krakkana. Mér finnst samt hlutirnir vera nokkuð einfaldir þegar maður er búinn að læra hvernig Rafræn Reykjavík virkar. Hérna eru tómstundinar í hverfinu okkar og umferðin er ekki brjáluð seinni part dags eins og í Sjanghæ.

Eyja verður heima með mér og Lí, hún er ekki skráð  á neitt námskeið. Við förum á róló og höfum hitt Andreu  þar sem er aðeins eldri en hún. Hér í hverfinu eru margar kisur og nóg að gera við að fylgjast með þeim á göngutúrum. Hún bætir við sig orðum og í morgun benti hún á blóm og sagði hua sem er blóm á kínversku. Hún sækir skóna sína þegar það er fararsnið á mér eða bræðrunum og verður sár ef hún fær ekki að fara með út. Hún virðist líka vera reglusöm, gengur frá skónum sínum á rétta staðinn og biður um nýja bleiu þegar hún er búin að kúka, setur upp svip, smellir í góm og bendir á bossann.

Í síðustu viku var hún skoðuð og þar kom allt vel út. Læknarnir í Kína hafa lengi haft áhyggjur af því að hún sé höfuðstór og viljað skoða það betur. En læknirinn hér sagði að hún virtist samsvara sér vel og fannst höfuðið eðlilegt að stærð. Hún þroskast eðlilega en hefur ekki bætt á sig í þyngd síðustu mánuði. Ég hef nú engar áhyggjur, hún hreyfir sig allan daginn og borðar mjög vel.

Lí finnst íslenskir krakkar vera heppnir, þeir hafa svo mikinn tíma til að leika sér. Við finnum það að hér er minni heimavinna en í Kína, þar tók heimavinnan stundum 30 til 45 mínútur. Það er nú lítið miðað við kínversk börn sem þurfa að læra heima í þrjá til fjóra klukkutíma. Þar fá börnin kannski 20 mínútur á dag til að leika sér, heimavinnan og æfingar á hljóðfæri eru mikilvægari en leikur.

Í Kína sefur fólk yfirleitt á hörðum dýnum eða jafnvel á viðarplötu með bambusmottu undir sér. Lí kvartaði yfir bakverk um helgina og í gær tók hún dýnuna úr rúminu og lagði þunna tjalddýnu á þverspýturnar og svaf þannig í nótt. Bakið var betra í morgun sagði hún.

Um helgina var líf og fjör hjá okkur. Boggi og Örn Kínavinir gistu hjá bræðrunum á föstudagskvöld. Á föstudaginn komu nokkrir  vinir í heimsókn og á tímabili voru átta strákar í feluleik í húsinu. Lí bakaði pizzu og Bubba fannst kínverska pizzan einstaklega góð. Við Hekla fengum kínverskan mat a la Lí, svínakjöt og kálrétt. Á laugardaginn fór ég með fimm stráka í bíó á myndina Upp, þeir tóku sig vel út með þrívíddargleraugu.

Í gær var það svo sund með Bubba í Neslauginni og sýningin Söngvaseiður um kvöldið. Hugi sagði að þetta væri gott leikrit, hann klæddi sig upp í jakkaföt og var glæsilegur. Stirnir var líka hrifinn þó hann væri kannski í yngsta lagi, hann  hélt athyglinni allan tímann. Við vorum svo flott á því og splæstum í leigubíl heim eftir sýninguna. Við vorum alveg agndofa yfir þessari glæsikerru, aðeins flottara en dósirnar í Sjanghæ.

_MG_2010

Krakkar í náttfötum frýnast í tölvuna.

_MG_2019

Kínversk veisla með afa Emil, ömmu Helenu, Gunnu, Ágústi, Eyrúnu og Halldóru. Við Lí fórum í fjórar búðir til að kaupa inn, komumst að því að lítið kínverskt er að finna í Asíubúðunum, aðallega tælenskt eða japanskt. En þetta tókst að lokum og Lí bar fram fjóra rétti, svínakjöt, kjúkling, lax og rækjur. Með matnum var drukkinn Tiger bjór.

_MG_2023

Eyja og Gunna föðursystir.

_MG_2024

Emil, Hugi og Lí.

_MG_2032

Síðustu helgi heimsóttum við Heklu, Magnús, Bogga, Örn og Ástu í húsið þeirra á Íslandi. Þar hófst fjöldamorð á geitungum sem Boggi stýrði.

_MG_2036

Örn og Eyja leika á leikvellinum bakvið hús.

_MG_2047

Gott að fá far með gögö.

_MG_2052

Ásta brosir á milli þess sem hún smakkar á mölinni.

_MG_2057

Lí og Eyja á göngu í hafnfirskri sveitasælu.

_MG_2062

Stirnir les heima daglega og litla systir nýtur góðs af því.

_MG_2064

Dalla

Thursday, August 27, 2009

Skólastrákar

Fyrsta skólavikan á Íslandi fer vel af stað. Skólasetning var á mánudag og Hugi hitti gömlu bekkjarfélagana og kennara aftur. Hann er alltaf svo innilegur og faðmaði Ingunni kennara að sér enda var hann mjög ánægður með að fá hana aftur.

Stirnir hitti kennara og samnemendur líka, í bekknum eru 17 krakkar, svipað margir og í bekknum hans í fyrra í Kína. Hann var ekkert svo feiminn og stendur sig vel. Hann sagði eftir fyrsta skóladaginn að íslensku nöfnin væru erfið og löng, hann mundi ekki  nöfnin á bekkjarfélögunum. Í Vesturbæjarskóla er góður andi og vel tekið á móti okkur en við erum ekki alveg ókunnug svosem, Hugi var í fyrsta bekk í skólanum. Við förum snemma af  stað á morgnana og fáum okkur hafragraut áður en kennsla byrjar, notalegt að hittast yfir grautnum og spjalla við aðra foreldra og börn.

Stirnir er búinn snemma á daginn og ég sæki hann gangandi, við erum bíllaus ennþá. Hann sagði mér á heimleiðinni í dag að einn strákur hefði sagt f-orð við hann en það eru dónalegu orðin kölluð í skólanum í Kína og mjög hart tekið á því ef þau heyrast.  En það sagði strákur við hann að hann væri kúkur. Hann virtist nú ekki taka því illa en ég býst við að hann eigi eftir að heyra fleiri f-orð á Íslandi. Þeir eru að spá í orðaforða krakkanna hérna, báðir bræðurnir, hlusta eftir hvað krakkarnir segja oft, eins og “víst” og “jábbs” segir einn vinur.

Hugi ákvað að labba sjálfur heim á öðrum degi. Hann og Bubbi labba saman og í dag birtust tveir vinir líka með. Hugi sagði þegar hann var að sofna áðan að í þessum skóla gæti maður bara boðið vinum með sér heim því það væri enginn skólabíll. Hann er alsæll með frelsið að geta labbað heim og boðið heim eins og fínn maður. Það kom sér vel að ég stóð við vöfflubakstur því von var á ömmu og afa frá Frakklandi og ömmu og afa í Mosó. Síðdegis kom upp sú hugmynd frá Bubba að fara í Nauthólsvík og ég fór inn á straeto.is og fann leiðina þangað og við rukum af stað, strákarnir þrír, ég og Eyja. Þar var frábært veður og strákarnir skelltu sér í pottana og sjóinn og við Eyja lékum okkur í sandinum. Ég sá að það var mikill straumur fólks að fá sér sjóbað, get ekki sagt að það heilli mig að stinga mér í kaldan sjó. Ég kann vel við að taka strætó nema fyrir utan aulahúmor bílstjórans sem svaraði þegar ég spurði hvort hann stoppaði við Ráðhúsið, að hann kæmist nú ekki þangað inn.

Ég er að finna út úr tómstundastarfi fyrir strákana í vetur. Hugi ætlar að læra á trompett og í nóvember byrja æfingar í lúðrasveitinni. Hann langar helst til að læra steppdans en það virðist ekki vera hægt að læra hann á Íslandi. Stirnir er óskrifað blað en ég þarf að finna eitthvað skemmtilegt fyrir hann.

Lí er ánægð á Íslandi. Hún hefur hringt í foreldra sína, tengdaforeldra og systur sem trúa því varla að hún sé að hringja alla leið frá Íslandi. Hún talar við dóttur sína og eiginmann í gegnum msn. Allir spyrja hvort henni sé ekki kalt og eiginmaðurinn var hissa að sjá að hún væri bara í bol þegar hún talaði við hann í gegnum tölvuna. Systirin spurði hvort það fengjust nokkuð hrísgrjón á Íslandi. Lí spjarar sig vel, fer í Bónus reglulega og spáir í verð og gæði. Við elduðum plokkfisk í gær og þorsk á mánudaginn og henni finnst fiskurinn góður. Í Sjanghæ er iðulega fiskur úr ám til sölu og hann er fullur af smáum beinum. Við löbbum um auðar göturnar á morgnana og þegar við sáum leigubíl fyrir utan hús fannst henni sérstakt að hér þyrfti að hringja á leigubíl, í Sjanghæ eru leigubílar sífellt á ferðinni og maður rekur bara út putta og húkkar sér far. Hún dáist líka að því hvað börnin eru sjálfstæð hérna, segir að þau geti ekki gengið sjálf í og úr skóla fyrr en á menntaskólaaldri í Sjanghæ. Tuttugu og fimm ára frændi hennar getur ekki tekið leigubíl sjálfur þegar hann heimsækir hana til borgarinnar.

Eyja blómstrar á Íslandi og vill helst alltaf vera úti að leika. Hún er alltaf jafn kát  og snýr okkur Lí um fingur sér.  Mér hefur fundist hún fara sér hægt í talið en líklega er hún að byrja að tala kínversku á undan íslenskunni. Hún stóð um daginn við stól á einum fæti og sneri honum í hringi og sagði tuan, tuan, tuan. Ég hélt  að hún væri nú bara að bulla en þá sagði Lí að hún væri að segja snúa á kínversku. Þegar Stirnir borðaði seríos í dag sagði hún þegar hún sá hann, gögö chi, gögö chi sem þýðir stóri bróðir borðar.

_MG_1983

Hér er sjarmörinn í sólargeislunum síðdegis.

_MG_1987

Lí og Eyja á leið í göngutúr.

_MG_1988

Emil, Helene, Ragga og Jói, afar og ömmur eftir vöfflukaffi.

Dalla

Sunday, August 23, 2009

Kínafarar á Íslandi

Ég hef verið að hugleiða hvort ég ætti að halda áfram að blogga. Mér hefur borist ein áskorun um framhald og þá flétta inn frásögn af upplifun kínverskrar alþýðukonu, Lí, af Íslandi. Hún fylgdi okkur til Íslands og ætlar að dvelja hjá okkur í þrjá mánuði. Hún er hluti af fjölskyldunni, alveg einstök kona og við erum heppin að hafa kynnst henni.

Ég ætla að vera með krakkana á Íslandi um óákveðinn tíma en Kjartan er floginn aftur til Kína vegna vinnunnar. Þó við séum ekki í Kína eins og er verðum við alltaf Kínafarar eins og yfirskrift bloggsins segir. Þannig að ég leyfi mér að halda áfram með bloggið.

Við skoðuðum París áður en við flugum heim til Íslands. Tíminn var stuttur, aðeins einn dagur og við vildum sjá sem mest. Strákarnir muna ekki mikið eftir síðustu heimsókn til Parísar sem var fyrir fimm árum og Lí var að koma þangað í fyrsta skipti. Hún sagði okkur að hún væri heppin að fá að heimsækja borgina því það væri draumur allra kínverja að skoða annaðhvort London eða París.
Við tókum metro að Eiffelturninum og sáum að biðraðirnar að lyftunum voru langar. Feðgarnir og Lí ákváðu að labba upp og við Eyja settumst í grasið og fylgdumst með dúfunum á meðan. Það var nokkuð af þeim dregið eftir uppgönguna upp á aðra hæð svo næst á dagskrá var sigling á Signu. Við fórum út við Hotel de Ville, fengum okkur snarl og skoðuðum Notre Dame. Þar var messu að ljúka og tvær konur sungu fallega. Það var sérstakt fyrir Lí sem kom þarna inn í kirkju í annað skipti að vera viðstödd messu í þessari fallegu kirkju.

Í París er skemmtilegt mannlíf og ég var ein augu að fylgjast með fólkinu í borginni. Mér fannst mannlífið svo fjölbreytilegt, allar gerðir af fólki. Eftir á finnst mér eins og ég hafi verið svo vön kínverjum að mér fannst allir hálfskrýtnir. Í Kína eru ekki svona ólíkar týpur fólks finnst mér, kallarnir eru með sína stöðluðu ríkisklippingu og ekki sérstaklega hugmyndaríkir í klæðaburði. Það er helst þegar þeir bera magann á heitum dögum eða ganga um á nærbuxunum einum fata sem maður rekur upp stór augu. Konurnar eru líka frekar tíðindalitlar í klæðaburði, ungu konurnar eru oft með sítt og fallegt hár en klippa sig svo stutt við eða eftir barneignir.

Við gengum að Lúxemborgargarðinum, settumst þar niður og fylgdumst með öndum á tjörn. Kjartan rifjaði upp þegar hann týndist í garðinum, líklega um fimm ára gamall. Hann fór of langt frá mömmu sinni þegar hann elti dúfu. Löggan tók hann að sér og fór með hann á lögreglustöð þar sem hann var óhuggandi þangað til mamma birtist til að sækja hann.
Við fengum okkur drykk á Café de Flore og tókum lestina heim á hótel. Þá vorum við dauðþreytt, búin að labba allan daginn en fótaferðartími var snemma því flugið fór klukkan átta að morgni. Við vorum líklega einu Íslendingarnir í vélinni fyrir utan áhöfnina, meirihlutinn frakkar í útivistarfatnaði tilbúnir að skoða Ísland.
Við sáum yfir Ísland í aðfluginu og Lí myndaði jökla og ský út um gluggann. Í Keflavík voru amma og afi mætt í móttökunefnd en fengu enga farþega í bílinn, bara töskur. Ferðalangarnir tóku rútuna í bæinn og við löbbuðum heim í græna húsið frá BSÍ, veðrið var fallegt og gott.
Í græna húsinu hlupu strákarnir milli herbergja og rifjuðu upp hver ætti hvaða herbergi. Þeir vildu strax sækja kassa niður í geymslu og rífa upp það sem þar hafði beðið í rúm þrjú ár. Þeir glöddust mikið yfir gamla dótinu sínu, fannst það ekkert of smábarnalegt. Amma eldaði kálböggla handa okkur í hádegismat að pöntun Huga. Magga birtist með afmælisköku handa undirritaðri og Hildur og synir færðu okkur grjónagraut. Um kvöldið fengum við kjötsúpu hjá ömmu C en eftir kjötsúpuát lognuðust bræðurnir út af í sófanum hjá henni.
Næstu daga fluttum við bækur og annað upp úr geymslunni og þar var Lí betri en enginn, hún dreif okkur áfram. Ýmislegt hefur þó ekki fundist enn, eins og brauðristin og sængurnar. Ég spyr mig hvort ég hafi hent þessu í stressinu fyrir brottför til Kína. En óskaplega er gott að að vera kominn heim í húsið okkar gamla, góða.
Bræðurnir hlaupa út til vina sinna í Garðastrætinu og amma C býr lika nálægt, alveg í hlaupafjarlægð. Eyja var svolítið vælin fyrstu dagana enda allir uppteknir og margir nýir staðir á stuttum tíma. Hún hefur tekið þroskastökk og borðar með gaffli eins og herforingi og drekkur úr glasi nær slysalaust.
Lí er hrifin af Íslandi, henni finnst allt svo hreint og fínt miðað við Sjanghæ. Loftið svo ferskt og henni finnst ekki vera kalt á Íslandi. Við öll erum að venjast því að ganga um auðar götur borgarinnar, hérna finnst okkur vera lítil umferð bíla og við erum steinhissa þegar bílar stöðva fyrir okkur þegar við bíðum á gangbraut. Líka finnst okkur skrýtið hvað allt opnar seint hérna, það er ekki hægt að útrétta neitt fyrr en á hádegi. Í Sjanghæ færist líf yfir borgina fyrir klukkan sjö á morgnana og allar búðir opna milli átta og níu.
Við fórum út úr bænum eina nótt. Við fórum til Stokkseyrar og feðgarnir gengu í gegnum Draugasetrið hræðilega. Við Stirnir gerðum tilraun í fyrra en hann gafst þá upp í fyrsta herbergi vegna hræðslu. Ég heyrði tennurnar glamra uppi í honum. Nú tókst þeim að skoða allt en voru skelkaðir á eftir, Stirnir sagðist aldrei ætla í Draugasafn aftur.
Við borðuðum humarsúpu og fórum í sund á Selfossi. Lí var í nýjum sundfötum, ég benti henni á að hún þyrfti að hafa með sér sundföt til Íslands. Henni fannst kalt að koma út á bakkann eftir sturtuna en hitastigið í lauginni kom henni þægilega á óvart. Hún fór nokkrar salibunur í rennibrautinni með strákunum og skemmti sér vel.
Við gistum á Þingvöllum og gengum niður að vatninu. Það fannst henni stórt og útsýni mikið. Við skoðuðum Geysissvæðið daginn eftir og það fannst henni merkilegt. Við heyrðum kínversku þar.

Bræðurnir fóru á skátanámskeið í síðustu viku og eru ákveðnir í því að verða skátar. Þeim var svo boðið í sumarbústað um helgina og fylgdust með fótboltamóti í Borgarnesi þar sem Bubbi vinur komst í þriðja sæti með sínu liði. Hann Bubbi kennir bræðrunum nýjasta talsmátann en það á víst að segja "au" sem þýðir flott.
Við stelpurnar fylgdumst með hlaupurum leggja í hann í gærmorgun og ætluðum svo að kíkja í Kolaportið. Þá opnaði þar ekki fyrr en ellefu svo ég benti Lí á Bæjarins bestu og sagði henni að þar væri alltaf röð í hádeginu. Það fannst henni ótrúlegt, að það væri vinsælt að borða mat framreiddan í þessum litla skúr. Eftir hádegi gengum við aftur framhjá pylsunum og þá var röðin um hundrað metrar og það þótti Lí fyndið.

Við skoðuðum Stjórnarráðið og heimsóttum kínverskt heimili Unnar Kínafararstjóra. Létum mynda okkur í búningum í Ljósmyndasafninu, keyptum flatkökur í Kolaportinu, hittum Ingu Björk sölukonu á Skólavörðustígnum og fleiri góða vini í bænum. Um kvöldið fórum við Magga á tónleikana á Ingólfstorgi og ég heyrði í Hjaltalín spila "Þú komst við hjartað í mér". Mjög íslensk upplifun að vera í troðfullum miðbæ fram á nótt. Lí líkti mannfjöldanum við stöðugt streymi fólks á Nanjing lú sem er stærsta verslunargata Sjanghæ.

Verkefni vikunnar er að koma drengjunum af stað í Vesturbæjarskóla, þeir hlakka mikið til. Reyndar sagði Hugi áðan að sumarið hefði verið svo stutt, en er það ekki alltaf of stutt?

Dalla

Saturday, August 08, 2009

Við flugum seint að kvöldi frá Kína til Parísar, í fyrsta skipti sem við fljúgum að nóttu til, þetta tólf tíma langa flug. Stirnir sofnaði fljótlega eftir flugtak og rumskaði ekki fyrr en sjö tímum síðar. Við hin sváfum líka nokkuð vel sem stytti flugið verulega. Yfir Rússlandi er oft ókyrrð í lofti þegar við fljúgum yfir Úralfjöllin og Lí fannst hristingurinn óþægilegur. Annars sagði hún að það væri eins og að sitja inni í stofu að vera í flugvél. Þetta var í fyrsta skipti sem hún fór í flugvél og í fyrsta skipti sem hún ferðast frá Kína.

Við lentum snemma morguns í París og fengum okkur tvo litla bílaleigubíla því okkur tókst ekki að leigja nógu stóran bíl handa sex manna fjölskyldu og farangri. Við skiptum okkur niður á bílana, stelpubíll og strákabíll. Morgunumferðin var þung á hringbrautinni kringum borgina en þegar við komumst á hraðbrautina gekk ferðin vel. Um eittleytið komum við til afa Emils og Helene í sveitasæluna í Beaujolais. Strákarnir skoðuðu uppskeruna í garðinum en þeir eiga minningar um kirsuberjaát þar. Kirsuberin eru tilbúin í júní svo þau voru öll búin en núna voru það svört hindber sem slógu í gegn hjá börnunum. Garðurinn er brattur svo Eyja fór nokkrar veltur en hún er ekki vön því að ganga í bratta, í Sjanghæ er allt flatt. Hún er snögg að venjast nýju umhverfi og er ekki feimin við afa og ömmu.

Hérna borðum við einstaklega góðan mat. Helene er listakokkur og eldar ofan í okkur sérrétti héraðsins. Hún segir þó að við verðum að dvelja minnst átta daga til að komast yfir að smakka þá helstu. Við fáum pylsur og osta, tómata úr garðinum, andouillette, sem er gerð úr vömbum og görnum svínsins og skolum matnum niður með úrvalsvíni frá Beaujolais. Allir borða vel.

Helene benti okkur á ævintýragarð fyrir krakka en hann er í skógi í nágrenninu og samanstendur af þrautabrautum í trjánum. Þegar við komum þangað leit Hugi í kringum sig og lýsti því yfir að þetta væri krakkaparadís. Bræðurnir fengu fræðslu um hvernig ætti að bera sig að því þeir þurftu að hafa belti um sig miðja eins og fjallgöngumenn og læra að festa sig við mismunandi kapla til öryggis meðan þeir leystu þrautirnar. Eftir það sveifluðu þeir sér hátt í trjánum, renndu sér eða klifruðu. Þeir stóðu sig báðir vel og kláruðu þrautirnar með sóma. Þegar þeir vöknuðu daginn eftir klukkan hálfsjö vildu þeir ólmir fara aftur í krakkaparadísina og undirrituð lét það eftir þeim svo við vorum mætt á opnunartíma. Núna þurftu þeir engan undirbúning en skelltu sér beint í þrautirnar.

Í gær kom Isabelle dóttir Helene í heimsókn með tvær dætur sínar, þær Solaine og Lise. Krakkarnir fóru saman í göngutúr, gengu yfir að kastala í nágrenninu. Hugi og Stirnir spáðu í það að þeir ættu franskar frænkur og fannst það merkilegt.

Í dag fórum við að skoða tvö miðaldaþorp. Lí kom inn í kirkju í fyrsta skipti og var hrifin. Við fórum líka að vatni sem heitir Lac des Sapins þar sem börnin böðuðu sig og léku sér í sandinum.

Þetta hafa verið góðir dagar í góðum félagsskap Emils og Helene í fallegu umhverfi. Algjör sveitasæla.

Dalla

Monday, August 03, 2009

Síðustu Sjanghædagarnir í bili

Nú erum við að undirbúa brottför. Fljúgum til Parísar annað kvöld og keyrum til afa Emils og Helene í Beaujolais. Síðan fljúgum við til Íslands mánudaginn tíunda ágúst.

Síðustu viku hefur rignt nær stanslaust, oft svo mikið að ekki var hundi út sigandi. Við höfum haldið okkur inni og einn morguninn settust systkinin við að vatnslita.

 IMG_5517

IMG_5528

IMG_5521 

IMG_5531

Tveir örvhentir og líklega ein rétthent.

Strákarnir eru spenntir fyrir ferðalaginu og hafa gert nokkrar tilraunir til að komast yfir á evrópskan tíma. Þeir vilja vaka alla nóttina og sofa á daginn en gefast yfirleitt upp um miðnætti. Stirnir sagði að ég þyrfti að vakna á nóttunni til að gefa þeim að borða en ég tók dræmt í það og þeir fundu þá lausn að Hugi myndi taka að sér að steikja egg og beikon en hann er fullnuma í þeirri eldamennsku.

Þeir hlakka mikið til að flytja inn í græna húsið á Íslandi en Stirnir sér það í miklum ljóma og tilkynnti kennaranum sínum í vor að við ættum “mansion”. Hinir krakkarnir skildu nú ekki það orð en Mrs. Wiser var hrifin. Stirnir er þó hissa á því, segir hann, að við eigum mansion og séum með okkar eigin vefsíðu en við eigum ekki bíl, úr því þarf að bæta sem fyrst.

IMG_5542

Í gærmorgun hittum við Kerri, mömmu Hadley og Emmu í morgunmat. Hún vildi færa krökkunum Nike skó að gjöf en hún vinnur í markaðsdeildinni. Nú eru allir vel skóaðir fyrir íslenskt sumarveður.

IMG_5551

Í morgun kvöddum við Beu og Ými og hundinn Noodle sem dansaði við Huga.

IMG_5562

Bea og Ýmir “Icecube” íslensk-kúbversk blanda.

Í dag hittum við líka Elsu, Eddu og Ævar sem voru að koma úr sumarfríi á Íslandi. Við borðuðum xiao long bao, dumplings og það var ljúffengt að venju. Krakkarnir voru líka dugleg að borða en oft fúlsa þau við kínverskum mat.  Ég fékk smá skýrslu frá Elsu um stemmninguna á Íslandi, við áttum notalega stund  og það verður erfitt að kveðja hana á morgun.

Hugi sá eldsmat í skókössum gærdagsins og skellti í bál í portinu sem er svosem ekkert nýtt. En hann vildi líka nýta eldinn og steikja sér egg í leiðinni. Lí aðstoðaði.

IMG_5570

IMG_5575

Og svo varð gerð tilraun með heimagerðan kyndil.

IMG_5584

IMG_5587

Sjáumst á Íslandi,

Dalla

Friday, July 24, 2009

Barnalán

Samkomulagið á heimilinu í sumarfríinu hefur verið nokkuð gott. Bræðrakærleikur er mikill þó stundum slettist upp á vinskapinn, það getur t.d. tekið tíma að komast að samkomulagi um hvaða mynd eigi að setja í tækið á heitum degi. Ég man eftir samtali Huga og Stirnis þegar kom í ljós að von væri á systur. Þá flissuðu þeir og sögðu að kannski myndi litla systirin vilja horfa á Barbímynd þegar hún yrði eldri. Barbímyndir þekkja þeir vel frá nágrönnunum og prinsessunum Andreu og Ebbu. Nú hefur martröðin ræst, Eyja vill ráða hvað fer í tækið og í morgun leyfði Stirnir henni að setja Barbímyndina Þumalínu af stað. Eyja hefur reyndar takmarkaðan áhuga á sjónvarpsglápi, sest einstöku niður hjá þeim bræðrum á milli þess sem hún vill kyssa þá. Stirnir er viðvkæmur fyrir lykt og kvartar ef það er ostalykt, pissulykt eða kúkalykt af henni.

Eyja veit að drykkjarvatnið kemur úr stórum kúti sem er staðsettur ofan á tæki í eldhúsinu og þangað sækir hún vatn í glas og færir bræðrum sínum, mörgum sinnum á dag. Hún er með ráðskonurass og setur bleiuna sína í ruslið. Hún nær sér í disk inn í skáp og heimtar mat á hann þegar hún er svöng. Í kvöld útbjó  Lí handa henni lítil dumplings með rækjufyllingu og Eyja var mjög óþolinmóð og otaði að henni diskinum.

Kínverjar eru barngóðir eins og ég hef margoft sagt. Ég var að ræða við tvær vinkonur, aðra kínverska og hina sem á kínverska föðurfjölskyldu. Þær sögðu báðar frá því að þær hefðu heyrt það stöðugt frá nánustu fjölskyldu, sérstaklega feðrum sínum að þær væru ekki nógu fallegar og heldur ekki nógu gáfaðar í æsku. Báðar eru þetta gullfallegar og klárar konur. Við Lí ræddum þetta líka og hún sagði að það væri satt að kínverjar væru kröfuharðir og gagnrýnir á börnin sín. Þeir bera sín börn saman við önnur börn og saka þau um að standa sig ekki nógu vel í skóla, tónlistarnámi o.s.frv. Ég skil það að í stóru samfélagi sé mikil samkeppni og mikilvægt að standa sig vel en þessi áhersla á galla barnanna (ef þeir eru þá til  staðar) eru mér óskiljanlegir. Lí sagðist sjálf hafa verið svona, sífellt að benda dóttur sinni á hvað betur mætti fara. En hún sagðist hafa breyst og hún finnur það að dóttirin kann að meta breytinguna.

Nýjasta nýtt er að við mæðginin förum í kvöldsund eftir mat. Bræðurnir vilja helst fara þegar orðið er dimmt, útilaugin er lokuð á þessum tíma en við förum í innilaugina sem er nokkuð köld fyrir minn smekk. En þegar Eyja er ekki með í för get ég leikið við strákana, það heldur líka á mér hita. Í gærkvöldi gengum við heim eftir sundið og urðum vitni að því þegar maður á hjóli henti tómri flösku í götuna. Stirni er hreinlæti hugleikið þessa dagana og sagði að við yrðum að kenna kínverjum að hætta að skyrpa og henda rusli í götuna.

Í dag fórum við í bíó að sjá Ísöld 3, Eyja var heima hjá Lí enda svefntími hjá henni. Hún fer stundum með Lí á matarmarkaðinn og gengur þar um, segir hæ við vegfarendur og sölufólk og vinkar. Í dag sá hún eldri strák og kallaði víst hátt á hann gögö, gögö (stóri bróðir). Í Kína er venja að smábörn kalli hvert annað litlu eða stóru systur, litla eða stóra bróður. Það er vinalegt og kannski er þetta tilkomið vegna eins barns stefnunnar.

Veðrið var með besta móti í dag. Það rigndi hressilega í morgun sem  hreinsaði loftið og kældi svo hitinn var um 28 gráður. Við ákváðum að labba út síðdegis og krakkarnir byrjuðu á léttum æfingum:

IMG_5382

Hugi hjálpar litlu systur sinni, hún kann reyndar alveg á þetta, fylgist með nágrönnunum. Hún gengur stundum með hendur fyrir aftan bak, mig grunar að hún sé að herma eftir einum gömlum sem gerir þetta.

IMG_5385

IMG_5392

IMG_5395

Kínverjar eru mikið fyrir að spila og þarna sátu þrír og spiluðu.

IMG_5404

Við fórum í garð í nágrenninu og Eyja var spennt að komast í leiktækin.

IMG_5471

Þvílík hamingja að vera í sama tæki og gögö. Þetta var eiginlega eins og sena úr Ísöldinni, tveir íkornar og hneta.

IMG_5474

IMG_5483

Á heimleiðinni dáðust tvær konur að því hvernig Eyja drakk úr flöskunni.

IMG_5489

Sko ég kann þetta alveg sjálf.

Dalla

Wednesday, July 22, 2009

Sólmyrkvi

Eftir bjarta og sólríka daga byrjaði að rigna í gær. Þegar við litum út um gluggann í morgun var alskýjað, ekki bestu aðstæður til að fylgjast með sólmyrkva. En við vonuðum að sólin myndi brjótast í gegnum skýin og komum okkur fyrir á þaki skrifstofu CCP þar sem sér vel til allra átta.

Svona var útsýnið rúmlega níu:

IMG_5342

IMG_5353

Og um hálftíu leit þetta svona út.

IMG_5355

Stirnir skimar eftir sólinni með heimagerða kassann okkar. Með því að horfa á sólina í kassanum, óbeint, er engin hætta á sjónskaða því það er hættulegt að horfa beint í sólina þegar sólmyrkvi verður.

Rétt fyrir sólmyrkvann kl. 9:36 byrjaði að rigna. En við urðum vör við myrkvann því það varð aldimmt í rúmar 5 mínútur, sérstök tilfinning svona að morgni til. Smá vonbrigði samt því svona langur sólmyrkvi verður svo sjaldan, sá næsti eftir 300 ár.

En rigningunni fylgir smá svali sem við erum þakklát fyrir. Eftir allt of heita daga, oftast í kringum 40 gráðurnar er kærkomið að hitastigið fari niður fyrir 30 gráður. Við fórum í sund í gær í sólinni og strákarnir kynntust tveimur systrum þar sem voru með gúmmíbát og þau léku sér öll saman í tvo tíma. Mikið fjör.

Dalla

Saturday, July 18, 2009

Leikhópur og ferðamenn á heimaslóðum

Leikhópurinn (playgroup) hefur haldið striki í sumar því við höfum flestar verið hérna í borginni. Það er þó óvenjulegt því flestir útlendingar flýja borgina vegna hitans yfir sumartímann. Börnin og mömmurnar njóta þess að hittast og leika og spjalla.

Eyja er alltaf til í að fara af stað að hitta litlu vini sína og hérna er hún ferðbúin við hliðið.

IMG_5219 

IMG_5231

Eyja og Aaron heima hjá honum.

IMG_5236

Aaron

IMG_5242

Ailan mamma Francis og Hekla.

IMG_5245

Þessi þrjú ná vel saman og hérna eru Francis og Aaron komnir að leikborðinu og Eyja á fleygiferð svo hún geti verið með.

IMG_5246

Francis teygir sig yfir til að ná í eitthvað spennandi.

Undir lok boðsins mætti þessu Mjallhvít uppdubbuð:

IMG_5258

Þessa dagana þarf að huga að einhverju skemmtilegu fyrir strákana að gera. Þeir aðstoðuðu við þrif um daginn, Hugi þreif hjólið sitt og Stirnir barnavagninn. Stirnir vildi halda áfram með tuskuna á lofti þegar við gengum út og sagðist vilja þrífa allt Kína, það væri svo ógeðslegt. Ekkert smá verk fyrir höndum þar en við höfum m.a. reynt að siða nágranna okkar sem eiga glugga sem snúa út að leiksvæði barnanna, þeir stunda það að henda rusli út um gluggana.

Við mæðginin fórum að sjá Harry Potter í vikunni og strákarnir fengu stóra poppfötu sem Stirnir sökkti sér ofan í þegar hann missti einbeitinguna á myndinni. En við skemmtum okkur vel og Hugi tók réttilega eftir því að Harry og vinir eru orðnir unglingar því það var svolítið mikið fjallað um það að vera skotinn sagði hann.

Við hittum Bogga og Örn í síðasta skipti í bili og fórum með þeim á skauta. Mjög kælandi á heitum degi. Hugi komst fljótt af stað en Stirnir var ekki jafn öruggur og vildi hætta við. Boggi og Örn flugu svo af stað til Íslands og bræður sögðust vilja fara líka.

IMG_5265

í gær fórum við mæðginin upp í hæsta turninn sem er kallaður upptakarinn því það er gat í honum ofarlega.

IMG_5285

Bíllinn okkar virðist smár fyrir framan turninn.

IMG_5288

Bræður horfa út yfir ána Huangpu af hundruðustu hæð. Fyrir neðan er Jin Mao turninn og Perluturninn með rauðri kúlu.

IMG_5293

Vegna þess að útsýnispallurinn er staðsettur fyrir ofan gatið er hægt að sjá út í gegnum gólfið á nokkrum stöðum. Þarna er Hugi kominn með prakkarasvip…

IMG_5294

Og svo hoppaði hann ofan á glugganum og ég missti úr nokkur slög.

IMG_5300

Stirnri sagðist vera hræddur og tiplar yfir gólfið.

IMG_5313

Takið eftir að við sitjum ofan á glugga en Stirnir vildi sitja á járni í miðjunni.

IMG_5316

Horft niður

IMG_5319

Mario fékk líka að prófa.

IMG_5320 

Lyftan niður var eins og að vera staddur í geimskipi.

IMG_5322

Stirnir horfir á ljósið.

IMG_5326

Við fengum okkur snarl og Hugi og Stirnir ákváðu að teikna mynd af Mario.

IMG_5329

Hugi ánægður með árangurinn.

IMG_5331

Stirnir vandar sig við litavalið.

IMG_5335

Bræður spjalla meðan við bíðum eftir bílnum.

Í næstu viku verður sólmyrkvi hérna. Langur sólmyrkvi sem sést bara á 300 ára fresti. Við ætlum að fylgjast með og vonum að það verði ekki skýjað. Spennandi.

Dalla