Kínafarar á Íslandi
Ég hef verið að hugleiða hvort ég ætti að halda áfram að blogga. Mér hefur borist ein áskorun um framhald og þá flétta inn frásögn af upplifun kínverskrar alþýðukonu, Lí, af Íslandi. Hún fylgdi okkur til Íslands og ætlar að dvelja hjá okkur í þrjá mánuði. Hún er hluti af fjölskyldunni, alveg einstök kona og við erum heppin að hafa kynnst henni.
Ég ætla að vera með krakkana á Íslandi um óákveðinn tíma en Kjartan er floginn aftur til Kína vegna vinnunnar. Þó við séum ekki í Kína eins og er verðum við alltaf Kínafarar eins og yfirskrift bloggsins segir. Þannig að ég leyfi mér að halda áfram með bloggið.
Við skoðuðum París áður en við flugum heim til Íslands. Tíminn var stuttur, aðeins einn dagur og við vildum sjá sem mest. Strákarnir muna ekki mikið eftir síðustu heimsókn til Parísar sem var fyrir fimm árum og Lí var að koma þangað í fyrsta skipti. Hún sagði okkur að hún væri heppin að fá að heimsækja borgina því það væri draumur allra kínverja að skoða annaðhvort London eða París.
Við tókum metro að Eiffelturninum og sáum að biðraðirnar að lyftunum voru langar. Feðgarnir og Lí ákváðu að labba upp og við Eyja settumst í grasið og fylgdumst með dúfunum á meðan. Það var nokkuð af þeim dregið eftir uppgönguna upp á aðra hæð svo næst á dagskrá var sigling á Signu. Við fórum út við Hotel de Ville, fengum okkur snarl og skoðuðum Notre Dame. Þar var messu að ljúka og tvær konur sungu fallega. Það var sérstakt fyrir Lí sem kom þarna inn í kirkju í annað skipti að vera viðstödd messu í þessari fallegu kirkju.
Í París er skemmtilegt mannlíf og ég var ein augu að fylgjast með fólkinu í borginni. Mér fannst mannlífið svo fjölbreytilegt, allar gerðir af fólki. Eftir á finnst mér eins og ég hafi verið svo vön kínverjum að mér fannst allir hálfskrýtnir. Í Kína eru ekki svona ólíkar týpur fólks finnst mér, kallarnir eru með sína stöðluðu ríkisklippingu og ekki sérstaklega hugmyndaríkir í klæðaburði. Það er helst þegar þeir bera magann á heitum dögum eða ganga um á nærbuxunum einum fata sem maður rekur upp stór augu. Konurnar eru líka frekar tíðindalitlar í klæðaburði, ungu konurnar eru oft með sítt og fallegt hár en klippa sig svo stutt við eða eftir barneignir.
Við gengum að Lúxemborgargarðinum, settumst þar niður og fylgdumst með öndum á tjörn. Kjartan rifjaði upp þegar hann týndist í garðinum, líklega um fimm ára gamall. Hann fór of langt frá mömmu sinni þegar hann elti dúfu. Löggan tók hann að sér og fór með hann á lögreglustöð þar sem hann var óhuggandi þangað til mamma birtist til að sækja hann.
Við fengum okkur drykk á Café de Flore og tókum lestina heim á hótel. Þá vorum við dauðþreytt, búin að labba allan daginn en fótaferðartími var snemma því flugið fór klukkan átta að morgni. Við vorum líklega einu Íslendingarnir í vélinni fyrir utan áhöfnina, meirihlutinn frakkar í útivistarfatnaði tilbúnir að skoða Ísland.
Við sáum yfir Ísland í aðfluginu og Lí myndaði jökla og ský út um gluggann. Í Keflavík voru amma og afi mætt í móttökunefnd en fengu enga farþega í bílinn, bara töskur. Ferðalangarnir tóku rútuna í bæinn og við löbbuðum heim í græna húsið frá BSÍ, veðrið var fallegt og gott.
Í græna húsinu hlupu strákarnir milli herbergja og rifjuðu upp hver ætti hvaða herbergi. Þeir vildu strax sækja kassa niður í geymslu og rífa upp það sem þar hafði beðið í rúm þrjú ár. Þeir glöddust mikið yfir gamla dótinu sínu, fannst það ekkert of smábarnalegt. Amma eldaði kálböggla handa okkur í hádegismat að pöntun Huga. Magga birtist með afmælisköku handa undirritaðri og Hildur og synir færðu okkur grjónagraut. Um kvöldið fengum við kjötsúpu hjá ömmu C en eftir kjötsúpuát lognuðust bræðurnir út af í sófanum hjá henni.
Næstu daga fluttum við bækur og annað upp úr geymslunni og þar var Lí betri en enginn, hún dreif okkur áfram. Ýmislegt hefur þó ekki fundist enn, eins og brauðristin og sængurnar. Ég spyr mig hvort ég hafi hent þessu í stressinu fyrir brottför til Kína. En óskaplega er gott að að vera kominn heim í húsið okkar gamla, góða.
Bræðurnir hlaupa út til vina sinna í Garðastrætinu og amma C býr lika nálægt, alveg í hlaupafjarlægð. Eyja var svolítið vælin fyrstu dagana enda allir uppteknir og margir nýir staðir á stuttum tíma. Hún hefur tekið þroskastökk og borðar með gaffli eins og herforingi og drekkur úr glasi nær slysalaust.
Lí er hrifin af Íslandi, henni finnst allt svo hreint og fínt miðað við Sjanghæ. Loftið svo ferskt og henni finnst ekki vera kalt á Íslandi. Við öll erum að venjast því að ganga um auðar götur borgarinnar, hérna finnst okkur vera lítil umferð bíla og við erum steinhissa þegar bílar stöðva fyrir okkur þegar við bíðum á gangbraut. Líka finnst okkur skrýtið hvað allt opnar seint hérna, það er ekki hægt að útrétta neitt fyrr en á hádegi. Í Sjanghæ færist líf yfir borgina fyrir klukkan sjö á morgnana og allar búðir opna milli átta og níu.
Við fórum út úr bænum eina nótt. Við fórum til Stokkseyrar og feðgarnir gengu í gegnum Draugasetrið hræðilega. Við Stirnir gerðum tilraun í fyrra en hann gafst þá upp í fyrsta herbergi vegna hræðslu. Ég heyrði tennurnar glamra uppi í honum. Nú tókst þeim að skoða allt en voru skelkaðir á eftir, Stirnir sagðist aldrei ætla í Draugasafn aftur.
Við borðuðum humarsúpu og fórum í sund á Selfossi. Lí var í nýjum sundfötum, ég benti henni á að hún þyrfti að hafa með sér sundföt til Íslands. Henni fannst kalt að koma út á bakkann eftir sturtuna en hitastigið í lauginni kom henni þægilega á óvart. Hún fór nokkrar salibunur í rennibrautinni með strákunum og skemmti sér vel.
Við gistum á Þingvöllum og gengum niður að vatninu. Það fannst henni stórt og útsýni mikið. Við skoðuðum Geysissvæðið daginn eftir og það fannst henni merkilegt. Við heyrðum kínversku þar.
Bræðurnir fóru á skátanámskeið í síðustu viku og eru ákveðnir í því að verða skátar. Þeim var svo boðið í sumarbústað um helgina og fylgdust með fótboltamóti í Borgarnesi þar sem Bubbi vinur komst í þriðja sæti með sínu liði. Hann Bubbi kennir bræðrunum nýjasta talsmátann en það á víst að segja "au" sem þýðir flott.
Við stelpurnar fylgdumst með hlaupurum leggja í hann í gærmorgun og ætluðum svo að kíkja í Kolaportið. Þá opnaði þar ekki fyrr en ellefu svo ég benti Lí á Bæjarins bestu og sagði henni að þar væri alltaf röð í hádeginu. Það fannst henni ótrúlegt, að það væri vinsælt að borða mat framreiddan í þessum litla skúr. Eftir hádegi gengum við aftur framhjá pylsunum og þá var röðin um hundrað metrar og það þótti Lí fyndið.
Við skoðuðum Stjórnarráðið og heimsóttum kínverskt heimili Unnar Kínafararstjóra. Létum mynda okkur í búningum í Ljósmyndasafninu, keyptum flatkökur í Kolaportinu, hittum Ingu Björk sölukonu á Skólavörðustígnum og fleiri góða vini í bænum. Um kvöldið fórum við Magga á tónleikana á Ingólfstorgi og ég heyrði í Hjaltalín spila "Þú komst við hjartað í mér". Mjög íslensk upplifun að vera í troðfullum miðbæ fram á nótt. Lí líkti mannfjöldanum við stöðugt streymi fólks á Nanjing lú sem er stærsta verslunargata Sjanghæ.
Verkefni vikunnar er að koma drengjunum af stað í Vesturbæjarskóla, þeir hlakka mikið til. Reyndar sagði Hugi áðan að sumarið hefði verið svo stutt, en er það ekki alltaf of stutt?
Dalla