Við flugum seint að kvöldi frá Kína til Parísar, í fyrsta skipti sem við fljúgum að nóttu til, þetta tólf tíma langa flug. Stirnir sofnaði fljótlega eftir flugtak og rumskaði ekki fyrr en sjö tímum síðar. Við hin sváfum líka nokkuð vel sem stytti flugið verulega. Yfir Rússlandi er oft ókyrrð í lofti þegar við fljúgum yfir Úralfjöllin og Lí fannst hristingurinn óþægilegur. Annars sagði hún að það væri eins og að sitja inni í stofu að vera í flugvél. Þetta var í fyrsta skipti sem hún fór í flugvél og í fyrsta skipti sem hún ferðast frá Kína.
Við lentum snemma morguns í París og fengum okkur tvo litla bílaleigubíla því okkur tókst ekki að leigja nógu stóran bíl handa sex manna fjölskyldu og farangri. Við skiptum okkur niður á bílana, stelpubíll og strákabíll. Morgunumferðin var þung á hringbrautinni kringum borgina en þegar við komumst á hraðbrautina gekk ferðin vel. Um eittleytið komum við til afa Emils og Helene í sveitasæluna í Beaujolais. Strákarnir skoðuðu uppskeruna í garðinum en þeir eiga minningar um kirsuberjaát þar. Kirsuberin eru tilbúin í júní svo þau voru öll búin en núna voru það svört hindber sem slógu í gegn hjá börnunum. Garðurinn er brattur svo Eyja fór nokkrar veltur en hún er ekki vön því að ganga í bratta, í Sjanghæ er allt flatt. Hún er snögg að venjast nýju umhverfi og er ekki feimin við afa og ömmu.
Hérna borðum við einstaklega góðan mat. Helene er listakokkur og eldar ofan í okkur sérrétti héraðsins. Hún segir þó að við verðum að dvelja minnst átta daga til að komast yfir að smakka þá helstu. Við fáum pylsur og osta, tómata úr garðinum, andouillette, sem er gerð úr vömbum og görnum svínsins og skolum matnum niður með úrvalsvíni frá Beaujolais. Allir borða vel.
Helene benti okkur á ævintýragarð fyrir krakka en hann er í skógi í nágrenninu og samanstendur af þrautabrautum í trjánum. Þegar við komum þangað leit Hugi í kringum sig og lýsti því yfir að þetta væri krakkaparadís. Bræðurnir fengu fræðslu um hvernig ætti að bera sig að því þeir þurftu að hafa belti um sig miðja eins og fjallgöngumenn og læra að festa sig við mismunandi kapla til öryggis meðan þeir leystu þrautirnar. Eftir það sveifluðu þeir sér hátt í trjánum, renndu sér eða klifruðu. Þeir stóðu sig báðir vel og kláruðu þrautirnar með sóma. Þegar þeir vöknuðu daginn eftir klukkan hálfsjö vildu þeir ólmir fara aftur í krakkaparadísina og undirrituð lét það eftir þeim svo við vorum mætt á opnunartíma. Núna þurftu þeir engan undirbúning en skelltu sér beint í þrautirnar.
Í gær kom Isabelle dóttir Helene í heimsókn með tvær dætur sínar, þær Solaine og Lise. Krakkarnir fóru saman í göngutúr, gengu yfir að kastala í nágrenninu. Hugi og Stirnir spáðu í það að þeir ættu franskar frænkur og fannst það merkilegt.
Í dag fórum við að skoða tvö miðaldaþorp. Lí kom inn í kirkju í fyrsta skipti og var hrifin. Við fórum líka að vatni sem heitir Lac des Sapins þar sem börnin böðuðu sig og léku sér í sandinum.
Þetta hafa verið góðir dagar í góðum félagsskap Emils og Helene í fallegu umhverfi. Algjör sveitasæla.
Dalla
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment