Thursday, August 27, 2009

Skólastrákar

Fyrsta skólavikan á Íslandi fer vel af stað. Skólasetning var á mánudag og Hugi hitti gömlu bekkjarfélagana og kennara aftur. Hann er alltaf svo innilegur og faðmaði Ingunni kennara að sér enda var hann mjög ánægður með að fá hana aftur.

Stirnir hitti kennara og samnemendur líka, í bekknum eru 17 krakkar, svipað margir og í bekknum hans í fyrra í Kína. Hann var ekkert svo feiminn og stendur sig vel. Hann sagði eftir fyrsta skóladaginn að íslensku nöfnin væru erfið og löng, hann mundi ekki  nöfnin á bekkjarfélögunum. Í Vesturbæjarskóla er góður andi og vel tekið á móti okkur en við erum ekki alveg ókunnug svosem, Hugi var í fyrsta bekk í skólanum. Við förum snemma af  stað á morgnana og fáum okkur hafragraut áður en kennsla byrjar, notalegt að hittast yfir grautnum og spjalla við aðra foreldra og börn.

Stirnir er búinn snemma á daginn og ég sæki hann gangandi, við erum bíllaus ennþá. Hann sagði mér á heimleiðinni í dag að einn strákur hefði sagt f-orð við hann en það eru dónalegu orðin kölluð í skólanum í Kína og mjög hart tekið á því ef þau heyrast.  En það sagði strákur við hann að hann væri kúkur. Hann virtist nú ekki taka því illa en ég býst við að hann eigi eftir að heyra fleiri f-orð á Íslandi. Þeir eru að spá í orðaforða krakkanna hérna, báðir bræðurnir, hlusta eftir hvað krakkarnir segja oft, eins og “víst” og “jábbs” segir einn vinur.

Hugi ákvað að labba sjálfur heim á öðrum degi. Hann og Bubbi labba saman og í dag birtust tveir vinir líka með. Hugi sagði þegar hann var að sofna áðan að í þessum skóla gæti maður bara boðið vinum með sér heim því það væri enginn skólabíll. Hann er alsæll með frelsið að geta labbað heim og boðið heim eins og fínn maður. Það kom sér vel að ég stóð við vöfflubakstur því von var á ömmu og afa frá Frakklandi og ömmu og afa í Mosó. Síðdegis kom upp sú hugmynd frá Bubba að fara í Nauthólsvík og ég fór inn á straeto.is og fann leiðina þangað og við rukum af stað, strákarnir þrír, ég og Eyja. Þar var frábært veður og strákarnir skelltu sér í pottana og sjóinn og við Eyja lékum okkur í sandinum. Ég sá að það var mikill straumur fólks að fá sér sjóbað, get ekki sagt að það heilli mig að stinga mér í kaldan sjó. Ég kann vel við að taka strætó nema fyrir utan aulahúmor bílstjórans sem svaraði þegar ég spurði hvort hann stoppaði við Ráðhúsið, að hann kæmist nú ekki þangað inn.

Ég er að finna út úr tómstundastarfi fyrir strákana í vetur. Hugi ætlar að læra á trompett og í nóvember byrja æfingar í lúðrasveitinni. Hann langar helst til að læra steppdans en það virðist ekki vera hægt að læra hann á Íslandi. Stirnir er óskrifað blað en ég þarf að finna eitthvað skemmtilegt fyrir hann.

Lí er ánægð á Íslandi. Hún hefur hringt í foreldra sína, tengdaforeldra og systur sem trúa því varla að hún sé að hringja alla leið frá Íslandi. Hún talar við dóttur sína og eiginmann í gegnum msn. Allir spyrja hvort henni sé ekki kalt og eiginmaðurinn var hissa að sjá að hún væri bara í bol þegar hún talaði við hann í gegnum tölvuna. Systirin spurði hvort það fengjust nokkuð hrísgrjón á Íslandi. Lí spjarar sig vel, fer í Bónus reglulega og spáir í verð og gæði. Við elduðum plokkfisk í gær og þorsk á mánudaginn og henni finnst fiskurinn góður. Í Sjanghæ er iðulega fiskur úr ám til sölu og hann er fullur af smáum beinum. Við löbbum um auðar göturnar á morgnana og þegar við sáum leigubíl fyrir utan hús fannst henni sérstakt að hér þyrfti að hringja á leigubíl, í Sjanghæ eru leigubílar sífellt á ferðinni og maður rekur bara út putta og húkkar sér far. Hún dáist líka að því hvað börnin eru sjálfstæð hérna, segir að þau geti ekki gengið sjálf í og úr skóla fyrr en á menntaskólaaldri í Sjanghæ. Tuttugu og fimm ára frændi hennar getur ekki tekið leigubíl sjálfur þegar hann heimsækir hana til borgarinnar.

Eyja blómstrar á Íslandi og vill helst alltaf vera úti að leika. Hún er alltaf jafn kát  og snýr okkur Lí um fingur sér.  Mér hefur fundist hún fara sér hægt í talið en líklega er hún að byrja að tala kínversku á undan íslenskunni. Hún stóð um daginn við stól á einum fæti og sneri honum í hringi og sagði tuan, tuan, tuan. Ég hélt  að hún væri nú bara að bulla en þá sagði Lí að hún væri að segja snúa á kínversku. Þegar Stirnir borðaði seríos í dag sagði hún þegar hún sá hann, gögö chi, gögö chi sem þýðir stóri bróðir borðar.

_MG_1983

Hér er sjarmörinn í sólargeislunum síðdegis.

_MG_1987

Lí og Eyja á leið í göngutúr.

_MG_1988

Emil, Helene, Ragga og Jói, afar og ömmur eftir vöfflukaffi.

Dalla

No comments: