Friday, July 24, 2009

Barnalán

Samkomulagið á heimilinu í sumarfríinu hefur verið nokkuð gott. Bræðrakærleikur er mikill þó stundum slettist upp á vinskapinn, það getur t.d. tekið tíma að komast að samkomulagi um hvaða mynd eigi að setja í tækið á heitum degi. Ég man eftir samtali Huga og Stirnis þegar kom í ljós að von væri á systur. Þá flissuðu þeir og sögðu að kannski myndi litla systirin vilja horfa á Barbímynd þegar hún yrði eldri. Barbímyndir þekkja þeir vel frá nágrönnunum og prinsessunum Andreu og Ebbu. Nú hefur martröðin ræst, Eyja vill ráða hvað fer í tækið og í morgun leyfði Stirnir henni að setja Barbímyndina Þumalínu af stað. Eyja hefur reyndar takmarkaðan áhuga á sjónvarpsglápi, sest einstöku niður hjá þeim bræðrum á milli þess sem hún vill kyssa þá. Stirnir er viðvkæmur fyrir lykt og kvartar ef það er ostalykt, pissulykt eða kúkalykt af henni.

Eyja veit að drykkjarvatnið kemur úr stórum kúti sem er staðsettur ofan á tæki í eldhúsinu og þangað sækir hún vatn í glas og færir bræðrum sínum, mörgum sinnum á dag. Hún er með ráðskonurass og setur bleiuna sína í ruslið. Hún nær sér í disk inn í skáp og heimtar mat á hann þegar hún er svöng. Í kvöld útbjó  Lí handa henni lítil dumplings með rækjufyllingu og Eyja var mjög óþolinmóð og otaði að henni diskinum.

Kínverjar eru barngóðir eins og ég hef margoft sagt. Ég var að ræða við tvær vinkonur, aðra kínverska og hina sem á kínverska föðurfjölskyldu. Þær sögðu báðar frá því að þær hefðu heyrt það stöðugt frá nánustu fjölskyldu, sérstaklega feðrum sínum að þær væru ekki nógu fallegar og heldur ekki nógu gáfaðar í æsku. Báðar eru þetta gullfallegar og klárar konur. Við Lí ræddum þetta líka og hún sagði að það væri satt að kínverjar væru kröfuharðir og gagnrýnir á börnin sín. Þeir bera sín börn saman við önnur börn og saka þau um að standa sig ekki nógu vel í skóla, tónlistarnámi o.s.frv. Ég skil það að í stóru samfélagi sé mikil samkeppni og mikilvægt að standa sig vel en þessi áhersla á galla barnanna (ef þeir eru þá til  staðar) eru mér óskiljanlegir. Lí sagðist sjálf hafa verið svona, sífellt að benda dóttur sinni á hvað betur mætti fara. En hún sagðist hafa breyst og hún finnur það að dóttirin kann að meta breytinguna.

Nýjasta nýtt er að við mæðginin förum í kvöldsund eftir mat. Bræðurnir vilja helst fara þegar orðið er dimmt, útilaugin er lokuð á þessum tíma en við förum í innilaugina sem er nokkuð köld fyrir minn smekk. En þegar Eyja er ekki með í för get ég leikið við strákana, það heldur líka á mér hita. Í gærkvöldi gengum við heim eftir sundið og urðum vitni að því þegar maður á hjóli henti tómri flösku í götuna. Stirni er hreinlæti hugleikið þessa dagana og sagði að við yrðum að kenna kínverjum að hætta að skyrpa og henda rusli í götuna.

Í dag fórum við í bíó að sjá Ísöld 3, Eyja var heima hjá Lí enda svefntími hjá henni. Hún fer stundum með Lí á matarmarkaðinn og gengur þar um, segir hæ við vegfarendur og sölufólk og vinkar. Í dag sá hún eldri strák og kallaði víst hátt á hann gögö, gögö (stóri bróðir). Í Kína er venja að smábörn kalli hvert annað litlu eða stóru systur, litla eða stóra bróður. Það er vinalegt og kannski er þetta tilkomið vegna eins barns stefnunnar.

Veðrið var með besta móti í dag. Það rigndi hressilega í morgun sem  hreinsaði loftið og kældi svo hitinn var um 28 gráður. Við ákváðum að labba út síðdegis og krakkarnir byrjuðu á léttum æfingum:

IMG_5382

Hugi hjálpar litlu systur sinni, hún kann reyndar alveg á þetta, fylgist með nágrönnunum. Hún gengur stundum með hendur fyrir aftan bak, mig grunar að hún sé að herma eftir einum gömlum sem gerir þetta.

IMG_5385

IMG_5392

IMG_5395

Kínverjar eru mikið fyrir að spila og þarna sátu þrír og spiluðu.

IMG_5404

Við fórum í garð í nágrenninu og Eyja var spennt að komast í leiktækin.

IMG_5471

Þvílík hamingja að vera í sama tæki og gögö. Þetta var eiginlega eins og sena úr Ísöldinni, tveir íkornar og hneta.

IMG_5474

IMG_5483

Á heimleiðinni dáðust tvær konur að því hvernig Eyja drakk úr flöskunni.

IMG_5489

Sko ég kann þetta alveg sjálf.

Dalla

1 comment:

Unknown said...

Kæra vinkona
Já þetta er sko barnalán!!
alltaf svo gaman að kíkja á bloggið. Ótrúlegt hvað þú kemur alltaf miklu í verk og börnin fá að upplifa margt! Gangi ykkur allt sem best. (sorrý hvað ég er löt að skilja eftir komment)
kærar kveðjur,
Vera