Tuesday, May 22, 2007

Strákarnir fengu kærkomið frí frá æfingum fyrir hæfileikasýninguna á fimmtudaginn því þeim var boðið í heimsókn til Callums og Robbie eftir skóla. Æfingin gekk vel, miklu betur en á þriðjudag og ég andaði strax léttar.
Hugi og Stirnir voru að leika sér með Robbie og hundinum þegar ég kom að sækja þá og voru ekkert glaðir að sjá mig svona fljótt eða eftir tæpa 3 tíma. Fjölskyldan er bresk svo mér var boðið upp á gin og tónik á skoðunarferð um húsið. Ég hef aldrei séð svona stórt íbúðarhús hérna í borginni, þrjár hæðir mjög rúmgóðar og fjölskyldan er með kokk og tvær barnapíur í sinni þjónustu. Ein barnapían býr á staðnum og sinnir 12 vikna gömlu ungbarninu. Þetta er skemmtilegt fólk, þau búa í sömu götu og Cathra og Troy og hafa vingast við þau líka.
Föstudagurinn fór í síðasta undirbúning fyrir sýningu, við kláruðum skreytingar á salnum og undirbjuggum mötuneytið, settum upp bar þar. Við, Vivian og Christina fengum okkur svo hádegismat saman fyrir samkomuna á sal síðdegis. Stirnir kom fram með sínum bekk. Þau fluttu svokallað banana cheer sem er hefð að flytja þegar einhver kemur með banana í nesti. Þau sýna með látbragði hvernig á að flysja banana, skera hann og borða. Svo söng bekkurinn Love me do af fullum krafti og lék með. Stirnir stóð sig vel, tók þátt og naut þess að vera á sviðinu.
Kúng fú var næst á dagskrá í íþróttasalnum. Kennarinn vill að Hugi taki gráðu í byrjun júní, ég veit nú ekki alveg hvaða gráða það er, þarf að ræða það betur við kennarann. Ég þurfti að hlaupa út og ná leigubíl, skila strákunum heim og rjúka aftur af stað upp í skóla.
Sýningin um kvöldið heppnaðist vel. Margir spiluðu á píanó, einn á ukulele og ein á kínverskt strengjahljóðfæri. Hsuan Hsuan í Hugabekk spilaði á fiðlu og ein lítil sýndi töfrabrögð. Margir sungu, bæði einir eða í hóp og nokkur dansatriði, þar á meðal Abbaatriði og húladans frá Hawai tókust bara vel. Strákur í þriðja bekk sýndi kúng fú, hann sveiflaði sverði fagmannlega í kringum sig. Krakkarnir voru fín og flott í búningum við hæfi, í Kína er auðvelt að láta sauma á krakkana og margir höfðu lagt mikið í búninga. Því miður náði ég ekki að taka einu einustu mynd þó ég væri með myndavélina með mér.
Á laugardaginn fóru bræðurnir í tónlistarskólann að venju og Huga var boðið á playdate til Isabel á eftir en Stirnir fór í afmæli til Lucasar. Hugi var vel sveittur þegar ég sótti hann, búinn að hoppa á einhverskonar hoppupriki allan tímann skildist mér. Stirnir var glaður í afmælinu, Hugo og Aurelie eru foreldrar Lucas og þau búa í húsi með stórum garði og fínasta garðpartí með risaeðluþema var vel heppnað.


Vinir og bekkjarfélagar, Lucas og Stirnir


Kanínan sem býr í garðinum hjá Lucasi


Stirnir með Naomi sem tilkynnti víst mömmu sinni um daginn að hún vildi giftast Stirni vegna þess að hann væri fyndinn

Á sunnudaginn vorum við bara heima, fórum í búð og keyptum osta, lax og salami og áttum kalt rósavín í ísskápnum. Cathra og Troy komu við með krakkana sína og sátu úti á verönd með okkur, krakkarnir léku úti og inni.

Dalefjölskyldan á sínum fararkosti


Hugi og Filip fengu eina salibunu

Hugi er mættur út að leika upp úr klukkan átta á morgnana, hann bankar á dyr í næstu húsum til að leita sér að leikfélaga. Hann var eitthvað vængbrotinn þegar allir fóru og vildi fá fleiri vini en þá fengu bræðurnir þá hugmynd að fara í vatnsslag hérna í portinu. Þeir voru á nærbuxunum einum fata og skóm og sprautuðu svo á hvorn annan, mikið fjör.



Dalla

2 comments:

Anonymous said...

Hæ, Hæ
Bubbi og Alla voru að lesa bloggið ykkar. Bubbi hefði gjarnan viljað vera með Huga í garðinum að elta froskinn og leyst vel á.
Kveðja frá Bubba og Öllu.com

Anonymous said...

mjog ahugavert, takk