Sunday, May 06, 2007

Við héldum tvisvar upp á Dag jarðarinnar í apríl. Fyrst með Heklu, Magnúsi, Bogga og Erni í skóla þeirra bræðra. Skólinn er staðsettur inni í dýragarði borgarinnar og þar var mikil hátíð einn laugardag um miðjan mánuð. Íslenska fjölskyldan hafði lagt mikla vinnu í að útbúa veggspjald með útskýringum á eldgosi og eldvirkni Íslands, mjög flott hjá þeim. Strákarnir fengu að klifra á klifvegg og klifruðu líka á því sem fyrir varð eins og stráka er siður.Boggi kom fram í brúðuleikriti með bekknum sínum, lék aðalhlutverkið og stóð sig með mikilli prýði. Strákarnir sátu fremst til að fylgjast með vini sínum/bróður og klöppuðu fyrir honum. Þeir kíktu líka bakvið til að sannreyna að það væri Boggi þarna bakvið.Tveimur dögum seinna var haldin samkoma á sal í skóla Huga og Stirnis vegna Dags jarðarinnar. Börnin áttu að koma í búningum sem þau áttu að útbúa sjálf úr endurunnu efni, gömlum fötum eða þvílíku. Það voru hæg heimatökin á þessum bæ svona stuttu eftir flutninga svo bræðurnir ákváðu að gera búninga úr pappakössum. Hugi vildi hafa höfuðfat á sínum búningi en Stirnir ekki.


Hugi á leið í skólabílinn að morgni


Skundað á samkomu með Ms. D


Michelle og Champion bekkjarfélagar Huga


Tveir árgangar á sviðinu syngja lag um jörðina, Stirnir er í grænum kassa fyrir miðri mynd

Árgangur Huga rappaði á sviðinu og Hugi stóð sig vel, Stirnir og félagar sungu tvö lög. Tveir úr hverjum bekk voru valdir af sínum félögum til að sýna búningana sína uppi á sviði og Hugi og Stirnir fóru báðir upp á svið.
Mr. Flesher sagði mér það að Stirnir hefði borðað morgunnestið sitt inni í kassanum. Hann setti líka bara hausinn ofan í kassann þegar hann varð feiminn á sviðinu.

Við Kjartan fórum að sjá Íslenska dansflokkinn hérna í Shanghai, þetta var flott sýning hjá þeim. Við buðum Cathra og Troy með okkur og nokkrir vinnufélagar Kjartans komu líka. Á eftir fórum við út að borða með Cathra og Troy, Heklu og Magnúsi og kíktum aðeins á bar líka, mjög gaman.

Núna er frívikan okkar að klárast, kínverjar fá þriggja daga frí kringum fyrsta maí og það teygist oft upp í viku. Skólafríið var vika hjá strákunum og skólinn byrjar aftur á morgun.
Við erum búin að vera mest heima, veðrið hefur verið nokkuð gott og strákarnir eru búnir að leika mikið, bæði úti og inni. Filip sænski og Karolina litla systir hans eru orðin heimagangar hérna, sænsku stelpurnar tvær við hliðina fóru til Víetnam.
Einn daginn sinnaðist Huga við mig og hann ákvað að flytja með sitt hafurtask útfyrir hlið. Filip og Stirnir fylgdu honum og þeir settu upp búðir í tveimur tjöldum.


Hugi hírist í tjaldi í mótmælaskyni


Nágrannar spila. Spilið gengur út á það að einn er með spil með mynd á höfðinu án þess að sjá á það og spyr hina spurninga til að finna út hvað er á myndinni.


Hugi í kung fu æfingum í portinu okkar

Í vikunni var okkur boðið í sveitaklúbb í nágrenni Shanghai. Það var tævönsk fjölskylda í Hugabekk sem bauð okkur og fleiri vinum sínum að eyða deginum í klúbbnum. Við byrjuðum á því að fara í sund í skemmtilega sundlaug með rennibrautum og ýmiskonar nuddi. Sundlaugin var líka hlý og góð ólíkt köldu lauginni sem við erum vön. Eftir sundið borðuðum við saman hádegisverð en umræður fóru að mestu fram á kínversku. Ég vil ekki segja að við Kjartan höfum tekið mikinn þátt í þeim.
Eftir matinn vorum við keyrð á golfbílum að svæði þar sem var lækjarspræna og grillaðstaða og nokkur dýr voru þarna í kofum. Þetta var svona gervisveit en bara huggulegt þegar maður fer sjaldan út úr borginni.


Stirnir í lauginni


Hugi og Hsuan Hsuan í klifurgrind


Hugi og Hsuan Hsuan leggjast á eitt


Hsuan Hsuan, kölluð Coco vinkona Huga

Við Kjartan skutluðum bræðrunum til Bogga og Arnar einn daginn í vikunni. Við ætluðum í innkaupaleiðangur að skoða húsgögn. Við fundum ekkert við hæfi en veltum fyrir okkur hvort við ættum að fjárfesta í steinljóni, spurning hvernig það kæmi vel út á Suðurgötunni við innganginn. Hekla og Magnús buðu í grill um kvöldið og Lára og Baddi komu líka með dæturnar. Krakkarnir könnuðu hverfið að venju, þau eru voðalegir útigangar saman.
Daginn eftir fengu Boggi og Örn að gista hjá okkur. Það gekk bara vel, það urðu ein vinslit milli Huga og Bogga að morgni en þeir útkljáðu það í sverðaeinvígi og urðu bestu vinir aftur eftir það.
Síðdegis var okkur boðið í heimsókn til Champion bekkjarfélaga Huga ásamt fleiri vinum. Þetta varð að garðpartí á svæðinu þar sem börnin spiluðu badminton og hentu frisbídiskum. Ég var svo mikill klaufi að henda frisbídisknum út í tjörn í garðinum og við hófum strax björgunaraðgerðir. Það gekk illa þangað til Hugi fékk þá hugmynd að búa til brú út í litla eyju í tjörninni og ná diskinum þaðan. Við fundum spýtu og aðstoðarmenn komu henni fyrir. Hugi tiplaði svo eftir spýtunni og náði diskinum við mikinn fögnuð viðstaddra. Hann fékk mikið hrós frá öðrum gestum fyrir að vera úrræðagóður.
Í gærkvöldi þegar Stirnir fór í háttinn var hann að spá í það hvort hann gæti valið sér drauma. Helst af öllu vill hann dreyma að hann sé í leiðangri með fjölskyldunni að skoða risaeðlur, þær eru honum mjög hugleiknar.
Hugi er loksins búinn að missa aðra framtönnina sem hékk laus ansi lengi. Hann sagði þannig frá að hann hefði verið á skólalóðinni og einhver stelpa hefði sett stein upp í munninn á honum til að láta tönnina detta. Það gekk ekki en öll hersingin hélt þá ti hjúkrunarkonunnar með von um aðstoð en rákust þá á skólastjórann sem kippti tönninni úr.
Að lokum eru nokkrar myndir frá deginum en honum eyddum við í félagsskap Louca og fjölskyldu. Við borðuðum með þeim á veitingastað og hittum þau svo í garði í nágrenni við okkur sem heitir Ruijin. Strákarnir hjóluðu í garðinn, þeir eru orðnir miklir hjólagarpar enda á það við í Kína.

Stirnir neitar myndatöku á dramatískan hátt


Kjartan og Sophie með Cael


Hugi tannlausi uppi í tré


Louca líka í tré
Hugi og Louca gerðust Wedding crashers, þeir skelltu sér í eina af þremur brúðkaupsveislum í garðinum. Þeim var vel tekið og voru beðnir um að sitja fyrir með gestum sem þeir gerðu. Hugi fékk pepsiglas að launum og var hæstánægður með þennan díl.


Hugi að störfum


Hugi og brúðurin, þessi er aðeins úr fókus, ég var ekki nógu snögg.

Dalla

No comments: