Friday, May 11, 2007

Vikan hefur verið annasöm hjá okkur og við sjáum fram á skemmtilega helgi sem byrjaði í gær með afmæli Bogga. Við komum svolítið seint í afmælið því bræðurnir fóru á kung fú æfingu eftir skóla. Kennarinn kom með sverð og þeir fengu aðeins að æfa með þau, núna er þetta að verða spennandi. Huga langar að æfa skylmingar segir hann en kvikmyndin kínverska Hero hefur kveikt í honum, hann er búinn að ná þónokkrum kung fú hreyfingum úr þeirri mynd og æfir sig mikið með sverð.
En við ætluðum semsagt að ná leigubíl en það voru svo margir að bíða eftir bíl að við fórum í lestina sem er rétt við skólann og komumst út í Hongqiao þar sem Boggi býr á nokkuð skömmum tíma. Þegar við komum út úr lestinni ætluðum við að ná í leigubíl síðasta spottann en við lestarstöðvarnar eru stundum menn á mótorhjólum sem hafa það að atvinnu að koma fólki á áfangastað. Þarna var staddur maður með rikshaw, reyndar rafmagnsknúið en við fengum far með honum og ætluðum að koma með grand entrance í veisluna. Ferðin tókst vel þó Stirnir kvartaði yfir því að sitja undir pokafargani, bæði afmælisgjafir og afrakstur ferðar undirritaðrar í HM. En við hliðið inn á svæði afmælisbarnsins var vörður sem vildi ekki hleypa okkur á vagninum inn svo við löbbuðum bara síðustu metrana.
Afmælið var skemmtilegt, pizzuveisla utandyra og krakkarnir hlupu um, hjóluðu og hoppuðu í hoppukastala. Við fórum síðust að venju, drengirnir fóru saman í bað eins og er að verða að hefð eftir afmælisveislur.
Helgin er fullbókuð, við ætlum á basar í skóla strákanna á eftir, svo er það tónlistarskólinn og að lokum förum við Kjartan í fertugsafmæli í kvöld hjá Hugo og Aurelie. Á morgun hittast Íslendingar yfir hádegisverði og okkur er öllum boðið í barnaafmæli síðdegis hjá Kean bekkjarfélaga Huga.

Í gær var mæðradagurinn og ég fékk falleg kort frá bræðrunum.
Stirnir skrifaði sjálfur á kortið: Happy mothers day, love Stirnir! Á kortinu er mynd af fallegu blómi, mömmu sem stendur á grasflöt, sólin er hátt á lofti og ánamaðkur skríður ofan í jörðinni. Myndina prýða líka blaðra, hjarta, húsið okkar og geimvera. Í kínverskutímunum í vikunni hefur verið fjallað um mömmu og hann átti að teikna myndir af hlutum sem ég elska, mitt uppáhald. Uppáhaldslitirnir mínir eru fjólublár, grænn og blár samkvæmt Stirni og uppáhaldsmaturinn minn er pizza (uppáhald Stirnis líka),gulrót, ís, sveppir og salat. Uppáhaldsfötin mín eru kjóll. Hann hittir bara nokkuð rétt á þetta. Hann lærði líka um karakterinn kona og hestur sem samansettir mynda mamma.
Hugi teiknaði fallega mynd af mér í fjólubláu pilsi, rauðri peysu með stórt bros. Textinn á kortinu er svona: You cook dalisues cake for my birthday. You buy candy every day. And you pay money for me to be in school. I love you. Thank you for buying me an piano. What is your favorite animal? And what´s your favorite day? Love Hugi.
Þetta er með stafsetningu Huga. Ég held að hann sé að hugsa um fátæku börnin sem geta ekki farið í skóla og þessvegna þakkar hann mér fyrir að borga skólagjöldin. Ég kannast nú ekki við að kaupa sælgæti á hverjum degi, hann er nú ekki einu sinni sælgætisgrís sjálfur.
Góða helgi, Dalla

No comments: