Thursday, May 03, 2007

Það þýðir ekkert annað en að gera Beijingferðinni áfram skil, ég vil ekki að hún gleymist alveg áður en ég næ að skrá hana niður.
Annað kvöldið í Beijing fórum við á akróbatasýningu. Hún var mjög fín þessi sýning, strákarnir sátu alveg heillaðir og fylgdust með.



Þetta getur ekki verið þægilegt





Hvað komast margir kínverjar á eitt reiðhjól?

Daginn eftir keyrðum við út úr borginni að Kínamúrnum að stað sem heitir Mutianyu. Þar er stólalyfta upp á Múrinn og þónokkuð um ferðamenn en víst aðeins fáfarnari staður en Badaling sem er víst mjög vinsæll. Við fórum öll upp í stólalyftunni sem var hrikaleg lífsreynsla fyrir mömmu, svo svakaleg að hún ákvað að fara rennibrautina niður aftur. Ég veit ekki hversu margar ömmur renna sér þarna niður fjallshlíðina.





Við röltum um uppi á Múrnum, veðrið var nokkuð gott, sól og vindur.



Bræðurnir rannsaka Múrinn að innan sem utan



Amma og afi líta til allra átta




Barry keyrði okkur svo að litlum sveitaveitingastað. Hann var svo frumstæður að við sáum engan ísskáp á staðnum, drykkirnir voru bara geymdir uppi í hillu. Karlarnir gerðu tilraun til að veiða í matinn, en það gekk illa, ekki einu sinni þegar þeir voru orðnir vopnaðir háf.





Við gengum heilaga veginn á leiðinni aftur inn í borgina, þar eru styttur við eins kílómetra langan veg við Ming-grafirnar. Barry sagði okkur að það væri ekkert spennandi að fara niður í grafhýsin en vegurinn heilagi var fallegur.

Við fórum á Kung fu sýningu síðdegis, hún var nokkuð flott, svolítið kitsch.

Síðasta daginn í Beijing heimsóttum við pandabirnina í dýragarðinum. Þeir eru kallaðir risapöndur og voru bara frekar sætir.




Sumarhöllin var síðust á dagskrá. Þar gengum við í gegnum göng langlífis en margir staðir eru kenndir við langlífi hér, það virðist vera kínverjum hugleikið. Einnig koma auður og gæfa mikið við sögu.
Þarna voru Hugi og Stirnir búnir að fá nóg af musterum og höllum sögðu þeir. Umhverfið var mjög fallegt við Sumarhöllina en það var komið að því að ná lestinni aftur til Shanghai.





Á lestarstöðinni var mikil mannmergð en við ákváðum samt að freista þess að næla okkur í kjúklingabita á KFC fyrir heimferðina. Röðin í bitana var löng og við vorum orðin stressuð á tímabili um að við myndum missa af lestinni en allt tókst þetta. Við sofnuðum sætt í lestinni snemma að venju og sváfum til klukkan sex morguninn eftir en lestin kom til Shanghai um sjöleytið.
Bræðurnir fengu frí í skólanum þennan dag svona til að kynnast nýja húsinu. Við Kjartan drifum okkur í IKEA, meðal annars til að redda rúmi handa mömmu og pabba.

Næstu daga fóru í skoðunarferðir um borgina. Við skoðuðum Lu Xun garðinn en Lu Xun var rithöfundur. Í garðinum er skemmtilegt safn tileinkað honum og í nágrenninu er húsið þar sem hann bjó til dauðadags.
Einn daginn fórum við á Shanghai museum að skoða fornminjar og kíktum inn á Urban planning líka til að skoða líkan af borginni. Mömmu fannst sérstaklega áhugavert að sjá hvernig borgin liggur og staðsetja okkur á líkaninu sem er gríðarstórt.



Amma og bræður í líkamsræktinni fyrir utan hliðið okkar. Þarna er iðulega fólk á öllum aldri í æfingum.



Amma og afi bíða eftir að bræðurnir klári tónlistartímann á laugardögum. Í garðinum við tónlistarskólann er rólegt að sitja og hlusta á tónlistina sem ómar út um gluggana.


Við gengum öll eftir ánni einn daginn þegar foreldraviðtöl voru í skólanum og Hugi og Stirnir í fríi.

Á páskadag borðuðum við bröns á einu fínasta hóteli borgarinnar. Við hittum Heklu og Magnús með strákana sína og Atli og Svíinn Per sem vinnur hjá Össuri slógust líka í hópinn. Þetta var skemmtileg upplifun, maturinn var frábær á ýmsum stöðvum á tveimur hæðum. Kampavínið flóði allan tímann og skemmtiatriðin voru skemmtileg, sum kannski kitsh, akróbatar, listamenn sem bera grímu sem skiptir um andlit (face changing artist), danspör, hljómsveit og söngvarar. Það skrítnasta mátti nú sjá ef við litum upp á glerþak sem var hátt yfir salnum. Þar var verið að þrífa glerið og enginn annar en Batman var þar að störfum.
Strákarnir fjórir áttu sér athvarf í leikherbergi þar sem þeir fengu aðstoð við að mála egg og gátu leikið að vild.
Síðdegis vorum við ennþá í stuði og færðum fjörið hingað heim, pöntuðum pizzur í kvöldmat og sátum úti á verönd. Þetta varð eiginlega fyrsta partíið í nýja húsinu og heppnaðist vel. Það stóð nú ekki lengi, allir fóru heim um níuleytið enda ekki skrítið, við komum á hótelið um hádegi.

Síðustu helgi mömmu og pabba í Shanghai buðu Lára og Baddi ásamt Liv og Björk litlu í pulsupartí. Þau voru nýkomin frá Íslandi og höfðu SS pylsur með í farteskinu. Allir gæddu sér á pylsum með steiktum lauk og pylsusinnepi, algjört lostæti. Krakkarnir hlupu um hverfið, þeir mynduðu svona íslenskt gengi og skemmtu sér vel. Við hittum Björk litlu dóttur Láru og Badda í fyrsta skipti þarna og við dáðumst mikið að henni, hún er dugleg stelpa sem fellur ekki verk úr hendi. Verst að ég náði ekki góðri mynd af henni.



Mamma og pabbi voru orðin mjög sjálfbjarga hérna síðustu vikuna. Þau gengu svo mikið um hverfið með aðstoð korts að þau þekktu það betur en ég, komu svo með fréttir heim síðdegis, þarna er grænmetismarkaður, fatahreinsun... Þau voru ánægð með að kynnast lífinu hérna í hverfinu sem íbúar frekar en ferðamenn enda er þetta skemmtilegt hverfi. Hérna í nágrenninu þvær fólk fötin sín í útivöskum, á móti okkur búa hjón sem elda allan sinn mat á svölunum og þvo sér líka morgunþvottinn þar. Líklega eru þau ekki með eldhús því ísskápurinn er þannig að maturinn hangir í pokum utan á svölunum. Þegar farið er í ruslið er fólk hérna sem vinnur við endurvinnslu og hirðir af okkur það sem er nýtilegt á leiðinni í tunnuna. Allir eru vinalegir hérna, þetta er eins og lítið smáþorp og við erum farin að heilsa fólkinu. Á horninu er pínulítil rakarastofa þar sem bræðurnir vildu endilega láta klippa sig. Ég hékk yfir klippurunum til að hindra snoðun og það tókst að einhverju leyti.
Hérna á næsta horni er líka skóli og síðdegis eru settir upp ýmsir standar þegar skóla lýkur. Kona steikir pylsur og setur upp á trépinna, viðskiptin fara bara fram við skólalok, námsmennirnir eru svangir eftir skóladaginn. Bræðurnir segja að Kínverjar séu síborðandi og það er nokkuð til í því, í nánast hverri dyragætt er eitthvað ætilegt til sölu og stundum hópast fólk að til að næla sér í bita.
Dalla

No comments: