Wednesday, May 16, 2007

Það er um að gera að koma helgarfréttunum inn áður en næsta helgi byrjar, svona líður tíminn hratt hjá okkur.
Á laugardagsmorgun fórum við á Basar í skóla strákanna. Þarna er ýmis gjafavara til sölu og heimilisiðnaður. Skólastjórinn selur póstkort sem hann útbýr sjálfur, Mr. Flesher selur vörur sem hann flytur inn frá Víetnam og Troy vinur okkar ljósmyndir. Þetta eru svona dæmi og margt fleira í boði. Hugi linnti ekki látum fyrr en við vorum búin að festa kaup á nýjasta geisladiskinum en hann er með tónlist húsbands skólans, Jiangsu Blues Band. Þetta eru stefin sem bandið leikur á föstudagssamkomum og fleiri lög, Kjartani fannst þetta fyndin hljómsveit en varð að viðurkenna við nánari hlustun að skólastjórinn er ágætur bassaleikari.
Við keyptum ýmislegt af Mr. Flesher, Hugi valdi sér hálsmen sem hann skartaði alla helgina, hann hikaði á milli hálsmensins og armbands, það lítur út fyrir að hann sé glysgjarn. Stirnir valdi sér fjólublátt seðlaveski, við eigum okkur sömu uppáhaldsliti. Strákarnir græddu líka nýja búninga, kúrekabúninga sem gera þá mjög myndarlega.
Í tónlistarskólanum viðraði ein mamma þá hugmynd að bjóða bræðrunum á playdate næstu helgi eftir tíma. Dóttur hennar langar til að fá þá í heimsókn. Ég tók vel í það og fékk nafnspjaldið hjá henni, ég kíkti svo á það betur áðan og sá að hún er konsúll Bretlands í Shanghai, titluð hennar hátign konsúllinn.
Um kvöldið fórum við Kjartan í afmæli, Kjartan kom frá Hong Kong síðdegis, fór í skreppitúr með Hilmari sem var hérna staddur, gisti hjá okkur, góð nýting á gestaherberginu. Spurning um að fólk fari að leggja inn pantanir, ekkert bókað út árið, ennþá.
En okkur var boðið í fertugsafmæli hjá Hollendingnum fljúgandi Hugo, Aurelie konan hans kallar hann þetta vegna þess hve oft hann þarf að ferðast vegna vinnu. Við slepptum leisertaginu, fengum okkur bara fordrykk í staðinn og hittum afmælisgestina sveitta á veitingastað. Hugo bauð öllum í mat, örugglega 40 manns og við Kjartan töluðum aðallega frönsku allt kvöldið, gott að æfa hana öðru hvoru.

Daginn eftir var fundur með Íslendinum í borginni, kannski ekki alvarlegur fundur, við hittumst yfir hádegisverði og nokkur ný andlit bættust við. Í þetta skipti á O´Malleys svo börnin gætu hlaupið um. Þau voru reyndar bara róleg, þarna voru kisur í búrum sem voru að leita sér að nýju heimili, og kisurnar fengu mikla athygli barnanna.





Þá lá leiðin í barnaafmæli, þriðja afmælisveislan þessa helgina. Afmælið var haldið á Ritz-Carlton hótelinu en afmælisbarnið, Kean í Hugabekk býr þar. Hann hélt upp á afmælið með Kyle litla bróður sínum og báðum bekkjum þeirra bræðra var boðið og örugglega 50 manns til viðbótar, samtals minnst 100 manns. Svona afmæli eru bara í Shanghai, nema kannski hjá einhverjum olíufurstum. Veislan var á 8. hæð hótelsins á leiksvæði sem er útivið, risahoppukastali var blásinn upp og veitingar voru af ýmsum gerðum. Nammibar fyrir börnin, rauðvín og hvítvín fyrir fullorðna og ýmislegir girnilegir smáréttir. Á staðnum var fólk sem sá um leiki með börnunum og þjónar á hverju strái til að hjálpa með diska og færa gestum drykki. Þetta var ágætis hvíldartími fyrir foreldra, hugsað um börnin af fagmennsku.
Pabbi Keans er viðskiptajöfur frá Singapore, indæll maður og mamman líka indæl, þau fluttu til borgarinnar fyrir þremur mánuðum og eru búin að koma sér upp svona mörgum kunningjum eða vinum.


Bræður á tali á afmæli


Stirnir í hoppukastala með skýjakljúfa í baksýn


Hugi náði sér í fullt af nammi leik

Eftir miklar skylmingar með blöðrusverð náðum við að draga drengina með okkur heim og þá var helgin búin.

Þessi vika er ansi erilsöm hjá undirritaðri. Ég hef verið að undirbúa hæfileikasýningu barnanna í skólanum með þáttöku 60 barna, síðustu vikur hafa verið æfingar tvisvar í viku, einu sinni með yngri börnunum 4 til 7 ára og einu sinni með þeim eldri 8 til 10 ára. Þessa vikuna keyrum við alla sýninguna í gegn með öllum börnunum sem þýddi að æfingin stóð frá 3 til 6 í gær. Ég er farin að vorkenna Huga og Stirni því það þýðir að ef ég er uppi skóla þurfa þeir að vera þar líka. Þeir eru semsagt á námskeiðum tvo daga í vikunni og tvo daga hanga þeir eftir mér, annaðhvort upp í samkomusal og þá dansa þeir stundum á sviðinu þegar einhver spilar á píanóið eða leika úti á leikvelli. Þeir þvertaka fyrir það að vilja taka þátt, reyndar stakk ein mamman upp á því við mig að setja þá upp á svið og setja tónlist í gang og þá myndu þeir dansa. En ég er ekkert að pína þá, er bara fegin að þeir séu ekki enn einn stressfaktorinn í sýningunni sem verður á föstudagskvöld. Ég á svo sannarlega eftir að anda léttar þegar henni verður lokið, stundum er spurning hvort það sé erfiðara að eiga við foreldrana en börnin. Christina og Vivian eru mínar aðstoðarmanneskjur og ég gæti ekki haft betra fólk með mér. Ég tók þetta að mér í haust þegar ein stjórnarmanneskjan í foreldrafélaginu bað mig um það, ég vissi ekkert hvað ég var að fara útí þá. Nú eru kosningar í foreldrafélagið á föstudag, ein var að ýta á mig hvort ég vildi ekki sækjast eftir stöðu í nýrri stjórn. Ég get ekki sagt að ég sé alltof spennt núna.

Í dag var dagur vettvangsferða. Stirnir fór með sínum bekk á blómamarkað, keypti blóm og sá ýmis dýr, héra, kóngulær og fiska. Hann hafði frá miklu að segja í kvöld.
Ég fylgdi Hugabekk í blómagarð en bekkurinn er búinn að læra um plöntur síðustu vikur og nú átti að skoða þær í návígi. Börnin voru með blöð til að lita myndir af plöntum og skrifa smá um þær, Ms. D gat þess nú líka að þau mættu skemmta sér. Hún gaf út þær leiðbeiningar að við þyrftum ekki að fylgjast að í hóp og Hugi og Lucy sem var í minni umsjá tóku það bókstaflega og flögruðu með mér burt frá hópnum. Annie frá Svíþjóð fylgdi okkur líka með Susan mömmu sinni, þær eru nýkomnar til Kína.


Hoppað fram af smábrú


Vatnaliljan var valin vegna þess að hún er svo flöt


Hugi og Lucy stóðust ekki þetta tipl


Vísindamaður að störfum í regnskóginum


Kjartan verður ánægður með þessa mynd, Hugi á milli Annie og Lucy


Bambus var ein plantan sem krakkarnir völdu sér að teikna og ástæða Huga fyrir að velja bambusinn var: Because it´s very hard to break!


Hópmynd af bekknum, Ms. D og mömmum


Þessi skjaldbaka sat á steini


Höfrungabekkurinn

Þetta var mjög skemmtilegur dagur og þegar ég leit yfir hópinn sá ég vel að minn maður var skítugastur af öllum, svartur á höndum og í andliti og bolurinn útkámaður. Enda skreið hann ofan í 2 holur, elti frosk og velti sér upp úr möl til að gera engil.

Umræða kvöldsins var um nefið á mér. Í gær var heimaverkefni Huga að mæla ýmsa hluti á heimilinu, meðal annars nefið á mér. Kjartan ætlaði að vera sniðugur og spyrja Huga hvaða mamma hefði nú haft lengsta nefið og hann fékk þessar líka góðu undirtektir hjá sonunum. Það var nú ekki staðfest að ég væri með lengsta nefið en Hugi leit á mig og sagði sem svo: Mamma, þú ættir að líta í spegil, nefið á þér er svakalega langt! Og svo vildu þeir báðir, hann og Stirnir draga mig að spegli til að ég gæti staðfest þetta sjálf. En Hugi klykkti svo út með því að segja: Mamma, það er allt gott um þig, nema nefið!
Dalla með nefið langa

No comments: