Í næstu viku er komið ár síðan við fluttum til Kína. Tíminn hefur verið bæði lengi og fljótur að líða en eitt er víst að við hlökkum öll til að koma til Íslands í sumarfrí. Við komum þann 15. júní, ég og strákarnir, Kjartan kemur í lok mánaðarins. Við teljum dagana til heimkomu og ég er byrjuð að pakka í huganum, nú er að muna að taka vetrarfötin með svo okkur verði ekki of kalt.
En þá er að segja frá síðustu dögum en þessar síðustu vikur fyrir sumarfrí einkennast af brjáluðu félagslífi, afmælisveislur og aðrar veislur um helgar, stundum 2 til 3 viðburðir á dag. Mig hefði ekki órað fyrir því að við gætum kynnst svona mörgu góðu fólki hérna, en við njótum þess að skemmta okkur með nýjum vinum, við erum félagsverur.
Á föstudagskvöld voru vortónleikar yngri nemenda SCIS. Strákarnir fóru í kung fu að venju eftir skóla og svo röltum við og fengum okkur pizzu. Ég nennti ekki að fara með þá heim í leigubíl og svo fljótlega aftur af stað, umferðin er slæm seinnipartinn og það getur verið erfitt að fá leigubíl. Sumir leigubílstjórar hreinlega bruna framhjá okkur þegar þeir sjá strákana, nenna ekki að taka börn í bílinn.
Við komum aftur í skólann og strákarnir fóru til síns kennara meðan við fundum okkur sæti í samkomusalnum. Tónleikarnir voru fínir hjá krökkunum, þau eru orðin svo vön því að koma fram á sviðinu eftir veturinn, stundum finnst mér þetta vera hálfgerður Fame-skóli, börnin eru alltaf uppi á sviði. Árgangur Huga söng lag þar sem komu fram rapparar, kúrekar, ballerínur og fleira. Hugi var í kúrekabúningi og sveiflaði ímyndaðri snöru af nákvæmni meðan hann söng. Árgangur Stirnis söng um daglegar athafnir eins og að fara á fætur og í sturtu og léku látbragð með. Stirnir átti að koma í kúl fötum, hann var sætur í skyrtu og gallabuxum.
Á laugardaginn kom Magnús í heimsókn með Bogga og Örn. Strákarnir léku úti, Magnús bjó til boga og örvar handa þeim og við stóðum hjá þeim til að forða slysum, þeir skildu það ekki alveg strákarnir að það mætti ekki skjóta í átt að öðrum. Magnús var graekkill þessa helgi og hann bauð Huga og Stirni næturgistingu.
Við Kjartan fórum í leikhús að sjá uppsetningu fransks áhugaleikfélags á farsa. Við fórum með Cathra og Troy. Fyrir hlé taldi Kjartan alla ljóskastara, sofnaði í smástund og ég verð að segja að ég dottaði líka. Maður á næsta bekk hraut. Bæði var leikritið hræðilega leiðinlegt og leikararnir lélegir. Í hléinu stakk einhver upp á því að við stingjum af og við vorum ekki lengi að taka vel í þá tillögu.
Við fórum á japanskan stað sem sérhæfir sig í túnfiski og krabba og maturinn var mjög góður. Sashimi með misfeitum túnfiski var ljúffengt.
Á eftir fórum við á bar en Cathra og Troy fóru heim á skynsamlegum tíma. Við Kjartan vildum nýta okkar fyrstu næturpössun í ár og héldum áfram, hittum Atla á klúbbi og svo á bar eftir það.
Við vorum rétt komin á fætur daginn eftir þegar Magnús skilaði strákunum heim, fullkomin þjónusta, sótt og keyrt. Strákarnir voru búnir að vera vakandi síðan klukkan fimm um morguninn, þeirra fyrsta verk var víst að kveikja á tónlist Björgvins Halldórssonar. Þeir voru rosalega ánægðir með gistinguna og Magnús kvartaði ekki yfir félagsskap strákanna fjögurra.
Næst á dagskrá var veisla á O´Malleys, einhverskonar þakkarveisla bekkjarins hans Stirnis fyrir veturinn með Mr. Flesher og Ms. Yuko aðstoðarkennara. Stemmningin á O´Malleys þennan dag var ansi brjáluð, hundaeigendur mega koma með dýrin á sunnudögum svo þarna hlupu um hundar af öllum stærðum. Inni hittast þeir sem leita að fólki til að ættleiða gæludýr og þennan dag var mjög heitt og rakt svo við vorum eiginlega að leka niður í garðinum, algjör suðupottur. Meðan við borðuðum skeit einn hundurinn svona tvo metra frá borðinu okkar og skítalyktin lagðist yfir. Áður en eigandinn náði að þrífa upp skítinn kom Eleanor hlaupandi í átt að skítnum, þetta var svona í slow motion, við kölluðum öll til að vara hana við en hún hljóp áfram og með annan fótinn beint í hlassið. Þetta var eftirminnilegur hádegisverður en ég held að við hvílum okkur á þessum annars ágæta stað.
Bræðrunum var boðið í afmæli hjá Jago bekkjarfélaga Huga, á veitingastað í úthverfi. Þarna var mikið hlaðborð matar og blöðrutrúður sem bjó til fígúrur úr blöðrum. Þegar hlé varð á dagskránni klifruðu börninn upp um alla veggi, ég hélt að veitingastaðurinn yrði ekki svipur hjá sjón, en þegar allt ætlaði að fara illa birtist töframaður sem náði athygli barnanna. Hann töfraði fram dúfur úr hatti sínum og fékk svo Stirni sem aðstoðarmann. Þá dró hann fram eins og lítinn höggstokk og lét Stirni halda á banana sem sneiddist niður í bita í höggstokknum. Þegar bananinn kláraðist vildi töframaðurinn setja höndina á Stirni í gegn og skera á en Stirnir var ekki til í það og lét sig hverfa. Þá var beðið um annan sjálfboðaliða sem var enginn annar en Hugi sem setti höndina í gegn og beið sinna örlaga með bros á vör. Höndin skarst ekki af fyrir einhverja töfra en Hugi hné niður á leikrænan máta þegar allt var yfirstaðið.
Þegar við kvöddum fengu strákarnir fulla poka af dóti, það er yfirdrifið hvað afmælisgestir eru leystir út með miklum gjöfum en kom sér vel að hafa pokann að skoða á leiðinni heim.
Veislum dagsins var ekki lokið því okkur Kjartani var boðið í grill hérna neðar í götunni. Þar búa Magali og Emanuel, franskt par, foreldrar Hanae í Stirnisbekk. Þetta var 20 manna veisla og mikið gaman, Magali er listakokkur, gott grillkjöt og meðlæti að frönskum hætti, kúskús, ratatouille og gratin dauphinois. Við Kjartan ræddum það á heimleiðinni hvað við höfum kynnst ólíku fólki hérna.
Reyndar lenti ég líka í umræðum við íþróttakennarann í afmælinu fyrr um daginn þar sem við ræddum um skólasamfélagið. Þetta er að mörgu leyti skrítið samfélag, varla engir einstæðir/einstakir foreldrar og allir í góðum stöðum. Við þekkjum reyndar fleiri en eina fjölskyldu sem hefur lent í því að fyrirvinnan hefur misst vinnuna fyrirvaralaust og framtíðin kannski alveg óviss um lengri tíma. Margir eiga sér ekkert heimili í heimalandinu og eiga kannski varla lengur heimaland eftir langa dvöl erlendis.
Á þriðjudaginn var vettvangsferð með Hugabekk upp í sveit á stað þar sem er ræktað lífrænt grænmeti. Okkur var boðið upp á tómata og gúrkur við komuna, krakkarnir borðuðu þetta eins og sælgæti. Við skoðuðum grænmetið í gróðurhúsum, grasker, eggaldin og gulrætur og fengum að planta fræjum. Að lokum máttu börnin tína tvær gúrkur hvert og ráða hvort þau tækju þær heim eða gæfu þær tveimur geitum á túni. Geiturnar voru ofaldar þennan dag!
Á miðvikudaginn komu þær fréttir hingað heim að Stirnir hefði verið óhlýðinn í skólanum. Hann og Ian bekkjarfélagi hans voru að leika með púða í skólastofunni og hættu því ekki þegar þeir voru beðnir um það. Þetta endaði illa því Stirnir datt á blómapott og fékk stóra kúlu á hausinn. Að auki missti hann 2 stjörnur og refsingin var sú að þurfa að sitja á bekk í frímínútum í stað þess að leika.
Í lok dagsins óhlýðnuðust þeir félagar Stirnir og Ian aftur og misstu þriðju stjörnuna. Mr. Flesher kvað upp að þeir ættu að taka út sína refsingu í frímínútum daginn eftir.
Stirnir rakti raunir sínar við Huga eftir skóla og Hugi bauðst til að sitja hjá honum meðan hann tæki út refsinguna. Þetta finnst mér vera gott merki um þeirra bræðrakærleik, þeir mega varla af hvor öðrum sjá.
Dalla
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment