Sunday, November 19, 2006
Ég er ekki hætt að blogga, skjárinn á tölvunni minni dó en ég fékk nýjan skjá svo ég get haldið áfram með framhaldssöguna.
Kjartan kom heim á miðvikudaginn og við vorum öll voðalega fegin að fá hann til baka. Hann kom með góðar sendingar frá Íslandi, flatkökur, hangikjöt, harðfisk, lakkrískonfekt, Nóakropp og tímarit.
Við fórum í tvær afmælisveislur hjá bekkjarsystrum Stirnis, eina á fimmtudaginn og aðra á laugardaginn. Báðar veislurnar voru haldnar á innileikvöllum. Kínverjar eru ansi klárir í svona leikvöllum, boltalönd, rennibrautir, trampólín og annað sem krakkarnir geta hamast á tímunum saman. Í annarri veislunni var farið í leiki líka, Hugi er ansi einbeittur í þeim. Hann gerir allt til að vinna og verður tapsár ef það tekst ekki.
Á föstudaginn fór ég með Stirnis bekk í vettvangsferð í stórmarkað. Krakkarnir hafa verið í búðarleik í bekknum undanfarnar vikur og nú lá leiðin í stóru búðina. Við tókum lestina eitt stopp og röltum svo um búðina. Krakkarnir fengu að velja sér drykki og kaupa þá sjálf með peningum. Við borðuðum hádegisverð á pizzastað og fengum að aðstoða við að setja ostinn á pizzurnar. Þetta var allt vel heppnað og börnin stóðu sig mjög vel á ferðalaginu.
Síðar um daginn sýndi Stirnir leikfang sem hann kom með að heiman í "Show and tell", hann valdi kúluna stækkanlegu og vakti mikla lukku, skreið inn í hana og gerði kúnstir. Mr. Flesher sagði að hann hefði slegið í gegn með kúluna. Stirnir er að taka stökk í að tala enskuna þessa dagana, ég heyrði það í ferðinni og kennarinn staðfestir það.
Dalla
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment