Sunday, November 05, 2006

Helgin byrjaði á mikilli föndurhátíð í skóla strákanna, reyndar ekki í þeirra campus heldur öðrum campus sem er hérna nær okkur. Þarna var föndur frá ýmsum löndum og strákarnir máluðu búmerang/bjúgverpil, gerðu grímur frá Afríku og hatta og hljóðfæri frá Kóreu. Við komum heim aftur með fullan kassa af föndri. Afraksturinn sést á myndunum.
Jóra frænka sem grætur yfir hárinu getur líka metið eftir myndunum hvort táraflóðið haldi áfram eða stöðvist. Þetta vex!Seinnipartinn fengum við heimsókn, Atli , Yongjia og Clement komu yfir. Þegar kvöldaði og hungrið fór að sverfa að röltum við út á japanskan stað, allt sem þú getur borðað og drukkið fyrir tæpan þúsundkall á mann. Hugi raðaði í sig laxa-sashimi að venju, fólk þarf að hafa snögg viðbrögð ef það ætlar að fá bita þegar hann er á staðnum.

Yongjia fékk nýja hárgreiðslu þetta kvöld.

Í dag dró heldur til tíðinda í Shanghæ því við fórum á fund Íslendingafélagsins í borginni. Strákarnir voru mjög spenntir því við höfðum heyrt af tveimur strákum sem búa hérna. Gleðin varð mikil þegar það kom í ljós að þeir eru á svipuðum aldri og bræðurnir. Boggi er sex ára og Örn er þriggja ára. Þeir smullu saman um leið og við sáum strákana lítið meðan við borðuðum, þeir léku sér ofan á, undir og í kringum billjardborð sem var þarna á staðnum.
Ég dró síðan Heklu og Magnús, foreldrana með mér á barnvæna staðinn O´Malleys þar sem við gátum spjallað saman meðan strákarnir léku sér. Hekla og Magnús vinna bæði hjá Össuri og þau búa ekki svo langt frá okkur. Mér heyrðust Hugi og Boggi búnir að plana annan fund strax eftir skóla á morgun en ætli við hittumst ekki næstu helgi þegar Kjartan verður á Íslandi.
En eftir þennan fyrsta fund okkar með Íslendingum er undirrituð orðin ritari stjórnar og næst ætlum við að hittast á litlu jólum í byrjun desember. Það er ein fjögurra ára íslensk stelpa, Líf, líka í félaginu svo börnum fer ört fjölgandi.
Við mæðgin ræddum framtíðarplön á leigubílaferðum okkar um borgina. Kjartan var ekki með í för, hann var í keilu með starfsfólki CCP. En Hugi er ákveðinn í því að verða vísindamaður og gera tilraunir í framtíðinni og Stirnir ætlar að verða pabbi. Hugi kom með þá athugasemd að hann gæti ekki lifað á því að vera bara pabbi en við ræddum það að hann gæti þá líka orðið t.d. kennari, í leikskóla eða skóla og Hugi sættist á það.
Á leið frá Íslendingafundinum ræddum við um ættleiðingar vegna þess að Líf litla er ættleidd. Þetta fannst Huga mjög spennandi, hann gæti þá ættleitt barn án þess að eiga konu, en hann er harðákveðinn í því að fara í gegnum lífið konulaus. Þá datt honum líka í hug að hann gæti orðið leikskólakennari því þá gæti hann sinnt barninu allan daginn, heima og í skólanum.
Skemmtileg og viðburðarík helgi að baki. Kjartan fer til Íslands á miðvikudaginn, hann verður með gamla símanúmerið sitt ef einhver þarf að ná í hann. Við hin finnum okkur eitthvað skemmtilegt að gera á meðan. Værum samt alveg til í að skreppa smá heim en við hugsum bara heim.
Dalla

No comments: