Saturday, November 11, 2006

Nú erum við Kjartanslaus, hann er á Íslandi að sinna spilurum.
Ég byrjaði grasekkjustandið á að fara í andlitsbað og nudd með Lethe. Það var ljúft, það er hægt að fá sérstaklega góð tilboð á svona pökkum þegar maður kemur í fyrsta skipti. Við vorum reyndar sannfærðar um að kaupa einhverskonar áskrift en Lethe segir að það sé hættulegt því nuddstofur og snyrtistofur fara gjarnan á hausinn og þá situr maður eftir með verðlaust plagg.
Svo ráðið er það að prófa sem flest staði.
Á fimmtudaginn var kínverska að venju. Samtölin okkar þar eru orðin ansi fyndin, við erum farin að spyrja hvort annað hvað sé líklega langt frá heimili okkar til einhvers staðar. Við erum búin að læra nöfnin á hinum ýmsu stöðum, bíóhúsi, lestarstöð, flugvelli, búð, verslunarkjarna o.s.frv. Einnig erum við búin að læra á klukkuna svo við getum haldið uppi svona samtölum þó það sé erfitt þegar við lendum í aðstæðunum utan kennslustofunnar. Við erum farin að þekkjast nokkuð vel nemendurnir og ég er iðulega spurð af samnemendum mínum um syni mína, fjarlægðina í skólann þeirra og fjarlægðina í næstu Carrefourverslun. Þetta eru svona mínir staðir í borginni. Juan, Kólumbíumaðurinn, 26 ára er spurður um fjarlægðina á næsta bar, hversu oft í viku hann fari á barinn... Við erum miklar stereotýpur, ég húsmóðirin og hann ungi piparsveinninn.
Ég fór á flakk með Christinu í gær, við leikum túrista og gengur það vel. Í þetta skipti fórum við á efnamarkaðinn þar sem hægt er að láta sauma á sig föt eftir máli. Þarna er hægt að fá kasmírfrakka og annað fyrir veturinn fyrir ekki svo hátt verð. Ég þarf að draga Kjartan með mér og fata hann upp. Hans sýn af Kínadvölinni var sú að hann yrði í klæðskerasniðnum fötum alla daga en það hefur lítið farið fyrir svoleiðis í fataskápnum hans hingað til. Ég sá þarna ýmislegt sem hægt væri að láta sauma á hann. Christina lét sauma á sig kápu og pils, ég keypti mér kanínupelsjakka. Ekki slæmt að ganga um í honum þegar fer að kólna að ráði.
Í dag, laugardag hittum við Louca bekkjarfélaga Huga og fjölskyldu í Fuxing garði sem er í franska hverfinu. Strákarnir fóru í nokkur leiktæki og hoppukastala og skemmtu sér vel. Við fórum svo og fengum okkur að borða í Xintiandi, gamla hverfinu.
Nokkrar myndir frá deginum fylgja,
Dalla




2 comments:

Anonymous said...

Sæl Dalla og fjölskylda,

Ég fylgist með ykkur, hafið það gott og haltu áfram skemmtilegum skriftum.

kv Thelma

Anonymous said...

Heil og sæl Dalla og Kjartan!

Gaman að sjá skemmtilegar myndir frá ykkur. Ævintýradvöl hjá ykkur í Kína.

Aðventukveðjur frá gömlum Sörlaskjólsbúum.
Þorvaldur og fjölskylda.