Thursday, November 23, 2006


Magnús, Örn og Boggi í flatköku og pizzusnúðaveislu

Útileikur, Stirnir er í nýjum slökkviliðsmannabúningi

Prinsessan dansandi á múslimastaðnum

Borðhald á múslimastaðnum, strákarnir í dansi, þeir sáust varla við borðið

Við fengum góða heimsókn á sunnudaginn, Magnús og synir komu til okkar og eyddu eftirmiðdeginum með okkur. Strákarnir léku úti og inni og skemmtu sér vel. Fullorðna fólkið sat og spjallaði. Undir kvöld fórum við á veitingastaðinn múslimska þar sem prinsessan dansar. Atli, Yongjia og Clement slógust í för með okkur þangað. Strákarnir dönsuðu mikið og borðuðu lítið. Kveðjustundin var sár með miklum faðmlögum.
Ég fór á feikmarkaðinn um daginn, hinum upprunalega feikmarkaði var lokað í sumar og einhver angi af honum er í húsi núna við eina aðalverslunargötuna. Þarna er ýmislegt til sölu og á efstu hæðinni eru nær eingöngu básar með töskum. Við skoðuðum eftirlíkingar af Balenciaga og Chloetöskum meðal annars en inni í einum básnum hnippti sölumaðurinn í okkur, dró okkur að einni hillunni og opnaði hana. Þar fyrir innan var lítið leyniherbergi með enn fleiri töskum, Prada og fleiri merki voru þarna í hillum. Mér fannst eins og ég væri komin í fimmbækurnar, þar opnuðust oft leynigöng eða herbergi en þetta hafði ég aldrei upplifað áður. Sölumaðurinn leit í kringum sig áður en við vorum dregnar inn í dýrðina en ástæðan fyrir leyndinni er sú að það er mismikill glæpur að gera eftirlíkingar af merkjum. Löggan virðist taka hart á eftirlíkingum á Prada. Þegar við vildum út aftur þurftum við að bíða vegna þess að löggan var á kreiki.
Löggan tekur víst rassíur vegna eftirlíkinga og stolinna hluta. Stundum er hægt að fá mikið af vörum í búðum sem búið er að klippa miðana innan úr og eru þá jafnvel merkjavörur en þegar löggan er í rassíu hverfur allt góða stöffið skilst mér.
Það hefur rignt mikið hérna þessa vikuna og þá er ekki farið í frímínútur í skóla strákanna. Hugi segist ekki komast á klósettið þegar rignir, það er nú meiri vinnusemin að hleypa börnunum varla á klósettið.
Á afmælisdaginn borða Kínverjar núðlur svo lífið þeirra verði langt eins og núðla. Gott að vita þetta fyrir næsta afmæli!
Ég lærði hin ýmsu nöfn á ávöxtum í síðustu viku þar á meðal sem þýðir pera. getur líka þýtt að fara (burt) þessvegna gefa Kínverjar aldrei vinum sínum peru, það þýðir að þú ætlir að yfirgefa hann.
Kínverjar spá mikið í tölur og árið 2006 er gott ár, bæði til barneigna og brúðkaupa, það var víst mikil brúðkaupsalda þetta árið. Árið 2007 er ekki eins gott en árið 2008 á að vera gott. Mér skilst að á Íslandi sé dagsetningin 07.07.2007 orðin uppbókuð fyrir brúðkaup en í Kína vill enginn gifta sig þann dag. Dagsetningin 08.08.2008 gæti hinsvegar orðið vinsæl.
Borðið núðlur og ekki gefa peru,
Dalla

No comments: