Friday, July 25, 2008

Sælan heldur áfram á Kauai eyju, með smá uppákomum þó.
Við ökum um á Ford jeppling hérna og allt gott um það að segja. Í fyrradag gleymdi bílstjórinn (Kjartan) parkljósunum á bílnum svo hann varð rafmagnslaus. Bílaleigan reddaði málunum og kom með nýjan bíl handa okkur . Í gærmorgun þegar við ætluðum af stað í strandferðina skreið stór og mikil könguló út úr loftkælingunni og fann sér felustað bakvið stýrið. Við reyndum að flæma hana burt sem tókst ekki. Kjartani leist ekki á blikuna að keyra af stað með kvikindið þarna milli handanna á sér en lét sig hafa það. Hann kipptist við nokkrum sinnum á leiðinni þegar hann hélt að köngulóin væri komin fram og ég hló taugaveiklunarhlátri en ég hafði þó ekki séð stærðina á köngulónni.
Við fórum á mjög fallega strönd sem var undir fjöllunum þar sem Jurassic park var tekin upp. Þarna voru frábærar aðstæður til að snorkla og við fórum öll út að skoða flotta og forvitna fiska.
Í gærkvöldi gúgglaði Kjartan köngulóna sem hann hafði séð og fann út úr því að hugsanlega gæti þetta verið hættulegt kvikindi, ef hún stingi gæti komið mikið sár sem ekki væri hægt að hindra í að yrði að svöðusári.
Hann hringdi því í bílaleiguna og bar sig aumlega og þar var brugðist vel við og við fengum þriðja bílinn í morgun. Okkur líður öllum betur í þessum bíl.
Við fórum á nýja strönd í dag, hún var líka skemmtileg með leikvelli nálægt. Strákarnir njóta þess að synda í sjónum og snorkla líka.

Hérna um daginn var verið að sýna Svamp Sveinsson í sjónvarpinu og þeir sem þekkja þættina vita að Svampur vinnur við að steikja Krabby paddy borgara. Hugi og Kjartan fundu uppskrift að þeim á netinu og steiktu svona í hádegismatinn við mikla ánægju Evu og Stirnis.

Eyja sneri sér frá maganum yfir á bakið í gær, hún ætlar að byrja á því að fara þá leiðina. Hún er alltaf jafn brosmild og úr aftursætinu heyrast hlátursrokur þegar við erum á ferðinni þegar bræðurnir tala við hana.

Dalla

2 comments:

hekla said...

Vá,
þetta hljómar ákaflega spennandi.
Við skilum kærri kveðju til allra frá Íslandi. Hér er búið að vera rigning í nokkra daga en í dag er óvenju hlýtt.
Hekla

Anonymous said...

Það er greinilega gaman hjá ykkur. Missti af þér þegar þú varst á landinu. Vorum fyrir norðan um síðustu helgi með Frigga og Brynju, Matta og Maríu, Judda og Sigrúnu og Joa og Valdísi. Frábær ferð með skemmtilegu fólki, mikið drukkið og spilað.
Hafið það sem allra best, biðjum að heilsa öllum.
Erla, Kris og Katla