Wednesday, July 16, 2008

Þá er Íslandsdvöl að verða lokið, við kveðjum gott atlæti hjá ömmu og afa og höldum á vit ævintýra á Hawaii.

Hugi kom glaður heim úr sumarbúðum og hér beið glaður Stirnir eftir bróður sínum. Stirnir var nefnilega hálfvængbrotinn í fjarveru Huga, ég gerði mér grein fyrir því hversu háðir þeir eru hvor öðrum bræðurnir.
Við Stirnir fórum í bíltúr einn daginn og Eyja auðvitað með líka. Við fórum til Selfoss í sund en þaðan átti Stirnir góðar minningar úr ostarennibraut og fleiri rennibrautum. Eftir sundferðina fórum við til Stokkseyrar þar sem undirrituð gæddi sér á humarsúpu og Stirnir fékk samloku, okkur fannst maturinn mjög góður og spöruðum ekki lýsingarorðin. Ég þurfti að skipta á kúkableiu eftir matinn og Stirnir fór út að leika í sandkassanum við veitingastaðinn. Þegar aðgerðin var búin fór ég út að bíl og þar beið Stirnir grátbólginn því hann fann mig ekki.
Þá röltum við yfir á Veiðisafnið og skoðuðum gíraffa, ljón og fleiri dýr undir leiðsögn Palla Reynis sem er gamall vinnufélagi minn hjá Sjónvarpinu. Þetta er skemmtilegt safn og ekki síður gaman að sjá vopnin sem Palli mundar við veiðarnar.
Við ætluðum að kveðja Stokkseyri en þá langaði Stirni til að skoða draugasafnið. Við fengum draugasögur í eyrað og gengum inn í myrkrið. Í herbergi tvö stökk eitthvað fyrirbæri í veg fyrir okkur og ókennileg hljóð heyrðust. Þá var Stirni öllum lokið og hann byrjaði að skjálfa og vildi hætta við sem við gerðum. Hann segist ætla að gera aðra tilraun við draugasafnið þegar hann verður sjö ára.

Við erum búin að hitta marga vini og ættingja í þessari Íslandsferð. Ég held að þetta hafi bara verið nokkuð vel pródúserað hjá mér. Mörg skemmtileg kaffiboð og matarboð. Ég hlakka til að endurgjalda þau þegar ég kem aftur til Íslands í græna húsið á Suðurgötunni.

Takk fyrir samveruna, Dalla

No comments: