Monday, July 28, 2008

Aloha

Hérna heldur strandaskoðun áfram, við erum búin að prófa nokkrar og búin að finna okkar tvær uppáhalds, snorklströnd og öldu/leik-strönd. Við prófuðum nýja strönd í gær og þar voru aðeins sex aðvörunarskilti, varað við straumum, dýpi og heitum sandi meðal annars. Maður hefði haldið að svona strönd væri ekki vinsæl en þarna var eitthvað af fólki sem vill greinilega taka áhættu í lífinu, við þar á meðal.

Á eyjunni er skemmtilegt dýralíf, við sáum sæskjaldböku í morgun í briminu fyrir utan kletta þar sem við syntum í hraunlaug. Niður að hraunlauginni var brattur stígur og stundum sleipur en við Eyja komumst þetta, hún er örugg í burðarsjalinu og fær sér bara blund á ferðinni. Hérna eru líka villihænsn allsstaðar, frekar krúttlegt að sjá hænurnar á ferðinni með ungana sína. Ekki jafn krúttlegt þegar hanarnir byrja að gala nálægt húsinu snemma morguns en við erum alveg hætt að vakna við sólarupprás og sofum frameftir. Litlar eðlur eru líka við húsið og jafnvel inni í því, eigendurnir segja að þær gegni því hlutverki að borða moskítóflugur. Við erum nú samt nokkuð stungin, þær eru miskunnarlausar flugurnar því Eyja er með bit á skallanum.

Á laugardaginn fórum við upp í fjöllin, þurftum að keyra næstum allan hringinn kringum eyjuna því þaðan er hægt að komast upp í fjöllin. Við skoðuðum fallegt gil og sáum út yfir fjöllin og hafið. Kjartani fannst tilvalið að borða nestið við huggulega á. Við fórum þessvegna útaf aðalveginum og þræddum nokkuð svakalega vegi þangað og vorum vel hrist saman á leiðarenda. En þetta var alveg þess virði og við gengum um í skóginum og leituðum að sporum eftir villisvín en þau drepa víst fleiri en hákarlar hér um slóðir. Hugi sá Redwood tré en hann gerði verkefni um það tré í skólanum í hitteðfyrra og var ánægður með að hafa loksins séð það eigin augum.

Veðurfarið er svolítið sérstakt hérna. Á hverjum degi koma skúrir en þeir vara yfirleitt bara í tvær mínútur. Við upplifum það daglega að vera í sólbaði í rigningu.

Eyja heldur áfram að taka framförum. Henni tókst að velta sér yfir á magann á ströndinni í gær og er öll orðin sperrtari að okkur finnst.

Ég þakka góðar kveðjur frá Erlu, Erlu og Heklu, gaman að heyra frá ykkur og ég hitti Erlurnar í næstu Íslandsheimsókn eða í Kína ef þær eiga leið þangað. Heklu sé ég í Kína í ágúst.

Dalla

1 comment:

Anonymous said...

Hæ, hæ gaman að heyra að ferðalagið gengur vel. Bubbi kom einnig heim með útbrot úr sumarbúðunum - sem reyndust vera vírus. Hann var einnig svo vingjarnlegur að deila þessu með systkinum sínum.
Góðar kveðjur
Alla