Fyrsta vikan í jólafríinu er búin að vera mjög skemmtileg. Þetta er allt annað núna en í sumar, við þekkjum fólk og getum skipulagt fundi með fullorðnum og krökkum í fríinu. Í sumar vorum við eiginlega að bíða eftir að skólinn byrjaði, það var svo lítið við að vera hjá okkur.
Við vorum í matarboði hjá Láru, Badda og Lív á sunnudagskvöld. Þar voru einnig Hekla og Magnús með Bogga og Örn. Krakkarnir léku sér vel og við fullorðna fólkið nutum kvöldsins. Lára og Baddi buðu upp á hamborgarhrygg sem var rosalega góður, það var mikil jólastemmning hjá okkur.
Við kvöddum Bogga og fjölskyldu því þau eru farin til Íslands í jólafrí. Hugi sagði að hann hefði knúsað Bogga og grátið stórum fossi af tárum þegar hann kvaddi hann.
Á mánudagsmorgun fórum við á skauta á litlu skautasvelli á sjöttu hæð í verslunarmiðstöð niðri í bæ. Við hittum Naomi úr Stirnisbekk og Natasha mömmu hennar þar. Hugi stóð sig bara vel og ég fékk kennara fyrir hann í 45 mínútur. Hérna tíðkast það að krakkar séu í einkatímum í hinu og þessu, það er svo ódýrt að fá kennara heim. Bekkjarfélagar Huga eru í píanótímum eða kínversku eða öðru heima hjá sér eftir skóla. Það nýjasta sem ég heyrði af er að fólk fær tónlistarskólanemendur til að koma heim og láta krakkana æfa sig á hljóðfærið, þá þurfa foreldrarnir ekki að standa í því heldur.
Við Stirnir æfðum okkur saman og hann var aðeins farinn að standa sjálfur undir lokin. Við ætlum að fara aftur á skauta seinna.
Eftir hádegi heimsóttum við Johan bekkjarfélaga Huga. Hann á japanska mömmu og sænskan pabba og stóran bróður sem er níu ára og heitir Erick. Fjölskyldan býr í skemmtilegu hverfi með grænu svæði bak við hús og þar var stærðarinnar trampólín. Krakkarnir léku úti í 3 tíma og ég sat og drakk te með mömmunni Noriko.
Á þriðjudaginn hittum við frönsku vini okkar Elliot og Lucas með mömmunni Aurelie. Við tókum leigubíl að Longhua garði hérna fyrir sunnan borgina og þar fórum við inn í stóra skemmu sem í var vetrarríki. Þarna var frost og snjór, brekkur, skautasvell og ísskúlptúrar. Myndirnar tala sínu máli:
Þetta var heilmikið fjör að renna sér á mottum og dekkjum niður brekkurnar.
Okkur varð reyndar ansi kalt þarna inni, tærnar voru orðnar kaldar en við fengum okkur heitt kakó til að hita okkur. Á eftir fórum við inn í Longhuagarð og strákarnir léku sér og hentu ýmsu út í sýki.
Veðrið hefur farið hlýnandi þessa viku og það hefur verið sólríkt og fallegt veður.
Á miðvikudaginn hittum við Johan og Erick aftur og byrjuðum á því að fara á innileikvöll í Zhongshangarði.
Við borðuðum hádegismat á Pizza Hut þar sem Hugi át svo mikið af pizzu að bumban á honum stækkaði. Hann sagði sjálfur að hann ætti erindi í Heimsmetabók Guinness eftir pizzuátið.
Eftir matinn fórum við í rólega siglingu um garðinn sem var nú kannski ekki svo róleg því strákarnir vildu flakka á milli báta og stundum hélt ég að við værum í klessubátum því þeir gleymdu stundum að stýra.
Um kvöldið var okkur boðið í mat til Robins og Joe sem eru foreldrar Sylvie í Hugabekk. Hún vinnur sem hönnuður fyrir Target sem flestir íslenskir Ameríkufarar þekkja. Hann hefur verið heimavinnandi þessi tvö ár sem þau hafa búið í Shanghæ en hann er lögfræðingur.
Þetta er eðalfólk og það var virkilega gaman að fara til þeirra og borða ekta amerísk rif. Því miður eru þau að flytja aftur til Minnesota í janúar en það er alltaf gaman að kynnast nýju fólki. Robin hefur verið svo upptekin í vinnu að hún hefur lítið komið í skólann og við vorum bara að uppgötva núna að við náum vel saman. Joe er af tævönskum uppruna en var að læra mandarín hérna, hann talaði málið semsagt ekki áður.
Við erum búin að kaupa allar jólagjafir og pakka öllu inn, kláruðum það í gær. Nú liggur bara fyrir að pakka niður sumarfötunum því við fljúgum í kvöld til Bangkok.
Við sendum öllum vinum og fjölskyldu okkar óskir um gleðileg jól. Við komum kannski inn með færslur frá Thailandi, reynum að láta vita af okkur...
Dalla
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
3 comments:
Merci pour toutes les bonnes nouvelles. Ça fait plaisir de voir à quel point la petite famille semble bien s'adapter à la vie en Chine. Quelle expérience unique et précieuse pour les enfants!
Passez de bonnes vacances en Thailande et recevez tous mes voeux pour un joyeux Noel et une très bonne nouvelle année chinoise (ce sera quel animal en 2007?)
Grosses bises à tous,
Amma C.
Nice Blog, some interesting info and thoughts, a bit radical for me at times but thats ok.
hæhæ
það er svo gaman að fá að fylgjast með ykkur á blogginu, þið eruð frábær. Vona að þið hafið það sem allra best um jólin. Takk fyrir jólakortið, vona að þið hafið fengið kveðjuna frá okkur.
kærar jólakveðjur,
Vera
Post a Comment