Saturday, December 09, 2006

Þetta er heimagerða dagatalið hans Huga. Klósettpappírsrúllur skornar niður, límdar á karton og svo útbjuggum við lok með dagsetningunni, þá er smá pláss fyrir nammi eða annað smálegt í hólfinu sem myndast.
Annars er nú lítið komið af jólaskrauti upp hjá okkur. Kannski vegna þess að við erum að fara í ferðalag yfir jólin. En við fórum af stað mæðginin í gær í leit að jólatré og fundum eitt úti á götu fyrir framan litla blómabúð. Við keyptum það með öllu skrautinu og seríu líka og bárum það hingað heim.

Bræðurnir réðust í tiltekt í herberginu sínu því þeir vildu fá tréð inn í sitt herbergi. Ég heyrði Huga tala um að það væri erfitt að hafa jól því þá þyrfti að taka til og gera fínt. Ekki var ég að hvetja þá í tiltektinni, þeir tóku upp á þessu sjálfir.
Á fimmtudagskvöldið var vetrarveisla í skóla strákanna, það er ekki hægt að segja annað en þessi skóli stendur sig vel í hátíðahöldum eða réttara sagt foreldrafélagið. Þar er klárt fólk í event management innanborðs. En kvöldið byrjaði illa hjá okkur, við vorum föst í umferð mæðginin í leigubíl í klukkutíma og bræðurnir rifust allan tímann um vasaljós sem Stirnir tók með sér. Ég sat á milli þeirra og alltaf grét annar þeirra, leigubílstjórinn sýndi mikið æðruleysi.
En það var fjör í veislunni, skemmtiatriðin voru stúlkur sem sýndu fimleikaatriði og galdrakarl sem skipti um andlit, ekta kínverskt. Nemendurnir límdu svo snjókorn sem þeir höfðu útbúið á merki skólans uppi á sviði og svo voru pakkaskipti.
Þetta er Mr. Murdoch, hann er kynnir á flestum skemmtunum og er mikill fjörkálfur, þarna gekk hann um sviðið á höndum.

Eftir skemmtunina var boðið upp á súkkulaðihlaðborð og súkkulaðigosbrunn, súkkulaðimartini handa foreldrum, mjög gott. Undirrituð var of upptekin við að sulla í sig og á sig súkkulaðinu svo ekkert varð um myndatökur þar.
Lokaatriðið var flugeldasýning á skólalóðinni.
Jólaljós á skólanum.


No comments: