
Annars er nú lítið komið af jólaskrauti upp hjá okkur. Kannski vegna þess að við erum að fara í ferðalag yfir jólin. En við fórum af stað mæðginin í gær í leit að jólatré og fundum eitt úti á götu fyrir framan litla blómabúð. Við keyptum það með öllu skrautinu og seríu líka og bárum það hingað heim.



Á fimmtudagskvöldið var vetrarveisla í skóla strákanna, það er ekki hægt að segja annað en þessi skóli stendur sig vel í hátíðahöldum eða réttara sagt foreldrafélagið. Þar er klárt fólk í event management innanborðs. En kvöldið byrjaði illa hjá okkur, við vorum föst í umferð mæðginin í leigubíl í klukkutíma og bræðurnir rifust allan tímann um vasaljós sem Stirnir tók með sér. Ég sat á milli þeirra og alltaf grét annar þeirra, leigubílstjórinn sýndi mikið æðruleysi.
En það var fjör í veislunni, skemmtiatriðin voru stúlkur sem sýndu fimleikaatriði og galdrakarl sem skipti um andlit, ekta kínverskt. Nemendurnir límdu svo snjókorn sem þeir höfðu útbúið á merki skólans uppi á sviði og svo voru pakkaskipti.

Eftir skemmtunina var boðið upp á súkkulaðihlaðborð og súkkulaðigosbrunn, súkkulaðimartini handa foreldrum, mjög gott. Undirrituð var of upptekin við að sulla í sig og á sig súkkulaðinu svo ekkert varð um myndatökur þar.
Lokaatriðið var flugeldasýning á skólalóðinni.
No comments:
Post a Comment