Sunday, January 07, 2007

Gleðilegt ár og takk fyrir samfylgdina á því gamla!

Við komum heim úr fríinu aðfaranótt fimmtudagsins. Það var mikið sjokk að koma heim úr 30 stiga hita í ískalda íbúðina, það tók sólarhring að hita íbúðina aftur.
Við slöppuðum vel af í Thailandi, fyrstu dagana í Bangkok gistum við öll 6, við fjölskyldan og Atli og Yongjia hjá vinafólki Atla, Ben og Yani. Þau leigja mjög stóra íbúð svo það fór vel um alla. Það fór ekki mikið fyrir jólaskrauti hjá þeim svo fiskabúrið stóra var notað sem jólatré.
Við náðum nú ekki að skoða Bangkok mjög vel en við gengum um og keyptum okkur kókoshnetusafa af götusala. Við komumst að því í matarinnkaupum fyrir aðfangadagskvöld að það má ekki kaupa vín eftir hádegi fyrr en klukkan 17 síðdegis. Thailendingar eru miklir búddistar og við nánast hverja byggingu er altari.


Við elduðum hangikjöt á aðfangadagskvöld, borðhaldið var fremur óhefðbundið, Ben var með tölvuna við matarborðið og það voru ekki til nógu margir matardiskar svo Atli borðaði jólamatinn upp úr plastdallinum undan laufabrauðinu.
Pakkaopnun tók ekki langan tíma, pakkarnir voru ekki svo margir en strákarnir voru mjög ánægðir með gjafirnar sínar sem vöktu líka lukku hjá okkur fullorðna fólkinu.



Eldsnemma að morgni jóladags fórum við í flug til Koh Samui, rúmlega klukkutímaferð frá Bangkok.
Flugstöðin á eyjunni er ansi flott, engir veggir á henni.
Það varð svolítið mál að fá bíl til að flytja okkur á hótelið, það voru engir venjulegir leigubílar við flugstöðina, bara fólk sem bauð allt of hátt verð. Það virðist vera eitthvað samsæri í gangi því leigubílstjórar vildu ekki taka okkur upp í bílinn. Við náðum verðinu eitthvað svolítið niður en vorum samt frekar ósátt. Það kom í ljós að samgöngur á eyjunni eru frekar frumstæðar, þeir græða vel sem eru í þeim bransa. Annars var verðlag lágt á mat og drykk.
Við komuna á hótelið kom í ljós að við fengjum ekki þau herbergi sem við höfðum beðið um. Atli og Yongjia tóku af skarið og leigðu sér vespu til að leita að betra hóteli. Þetta endaði allt vel eftir smá rekistefnu og samsæriskenningar um hóteleigendur líka.
Við fengum inni á mjög fínu hóteli við ströndina, við vorum í herbergjum/húsum í garðinum, á jarðhæð með verönd og gengum nokkur skref í sundlaugina og veitingastaðinn og þaðan beint niður á strönd. Strákarnir nutu sín vel í garðinum, þeir voru svo heppnir að fá háfa frá Kertasníki sem voru ætlaðir til fiðrildaveiða. Þeir náðu nú engu fiðrildi en við náðum fiskum, frosk og engisprettu.

Undirrituð hélt áfram að slökkva þorstanum í hinum ýmsu kókoshnetum...

Flesta daga lágum við á ströndinni, strákarnir ærsluðust í flæðarmálinu en við þurftum að hafa auga með þeim því það var svo aðdjúpt. En öldurnar voru skemmtilegar og þeir veltust um og fóru kollhnísa. Þeir afrekuðu það einn daginn að grafa holu í sandinn og aðra við hliðina og gera svo göng á milli. Hugi skreið á milli holanna, náðist því miður ekki á mynd.
Við ströndina voru líka nuddkonur með aðstöðu í spa í undir stráþaki. Ég ætlaði einn daginn að hafa það náðugt og fá nudd hjá þeim en bræðurnir báðir eltu mig og vildu líka nudd. Þeir fengu nudd og naglaklippingu að auki. Ég fékk svo fótsnyrtingu og handsnyrtingu svo ég var með eldrauðar neglur um áramótin.
Einn daginn fórum við að skoða apa sem eru notaðir til að sækja kókoshneturnar upp í tré. Kókoshneturnar hanga í einskonar bandi og aparnir snúa þeim þangað til þær detta niður. Apinn er að snúa kókoshnetuna úr höndinni á Huga þarna.

Í sömu ferð fórum við á fílabak. Við þurftum að fara upp í lítinn turn til að komast á bak og sátum hátt uppi. Fílarnir fóru miklar torfærur í gegnum skóg og fengu sér í svanginn á leiðinni.

Atli var svo óheppinn að missa veskið sitt í fílaferðinni en leiðsögumaðurinn, mikið skógarbarn fann það aftur í runnagróðri, ótrúlegt.
Á gamlárskvöld var mikil hátíð á hótelinu, allt blómum skrýtt og kvöldverður við sundlaugarbakkann. Skemmtiatriðin fóru fram á litlu sviði við sundlaugina og voru í meira lagi skrautleg. Í fyrstu kom starfsfólk hótelsins fram, dansaði og söng. Dagskráin varð svo súrrealískari þegar leið á kvöldið, þessi "dama" dansaði við Hava nagíla.

Þegar gestir voru hvattir til að taka þátt í leikjum við litlar undirtektir hljóp mikið kapp í íslenska borðið. Kjartan vann kappdrykkju, sturtaði í sig bjór á mettíma, Hugi vann þar sem hann átti að velta sítrónu með því að slá í hana með gúrku sem hékk á milli fótanna. Atli og Yongjia unnu blöðruhlaup en var ekki dæmdur sigurinn, líklega vegna þess að það var orðið áberandi hvað við vorum sigurviss.
Við Hugi tókum þátt í blöðruhoppi, áttum að sprengja blöðrur andstæðinganna og stóðum uppi sigurvegarar. Þarna sjást mikil tilþrif.


Árið var svo sprengt burt á ströndinni og við sendum upp ljós í bréfaloftbelg með óskum fyrir nýja árið.

3 comments:

Anonymous said...

hæhæ
já þetta hafa nú verið aldeilis óvenjuleg jól :-) , alltaf gaman að lesa síðuna og skoða myndirnar, þið eruð lista ljósmyndarar!!!! Gleðilegt ár öll sömul, hlakka til að halda áfram að lesa. Kærar kveðjur af klakanum, Vera og co

Anonymous said...

Gleðilegt nýtt ár. Gaman að sjá myndirnar frá ykkur. Hefðbundin jól hér á Íslandi nema hvað það rigndi eins og á meðalhausti :) - Kveðja, Rúnar Þór

Anonymous said...

Sæl verið þið,

Gleðilegt nýtt ár.
Þvílíkt upplifun hjá ykkur um hátíðarnar. Njótið ykkar þarna úti, áður en þið vitið af eruð þið komin heim á klakann.

Bestu kveðjur, Thelma