Friday, December 15, 2006

Í vikunni lærði ég hvernig á að bera sig að á hárgreiðslustofu á kínversku. Ég get nú ekki sagt að ég hafi farið oft í klippingu hérna. Einu sinni í sumar, í byrjun ágúst, ég held það hafi aldrei liðið svona langur tími á milli hársnyrtingar. Hárið bara vex og ég sé einhvernveginn út á milli lokkanna. En núna gæti ég farið á stofu og beðið um að láta aðeins særa hárið eða jafnvel fengið mér permanent.
Þegar við ræddum um hárið vildi kennarinn fræða okkur um andlitsfall Kínverja eða andlitslag því það er skilgreint á fjóra vegu hérna.
Fyrst er það egglaga andlitið, það er í laginu eins og gæsaregg og þykir fallegt. Svo er það hnetuandlitslagið sem sagt eins og þríhyrningur, mjókkar niður. Það þykir líka fallegt. Að lokum er það kringlótta andlitið og það ferkantaða sem þykir ekki fallegt. Kennarinn sagði að mamma sín hefði sagt við sig þegar hún var lítil að það væri eins og að horfa ofan í pott þegar hún horfði á andlitið á dótturinni. Hún er semsagt óheppin og er með kringlótta andlitsfallið. Þetta er einstaklega falleg og viðkunnanleg kona en hún passar semsagt ekki inn í fegurðarstaðla. Hér eru konur frá vissum svæðum Kína álitnar fallegar, t.d. Sichuanhérað, þaðan koma fallegar konur. Yongjia vinkona okkar kemur þaðan og hún er líklega með hnetuandlitsfallið, sérstaklega falleg stúlka.
Jólasveinarnir hafa staðið sig vel á ferðalögum vikunnar, við mikla gleði bræðranna. Stekkjarstaur var víst svo aðframkominn af hungri þegar hann kom hingað að hann reyndi að sjúga stólfætur sem gekk víst illa. Hann fann mjólkurglasið að lokum og þakkaði fyrir sig í bréfi.
Í gær var jóla og kveðjuveisla í bekknum hans Huga. Ég sá um skipulagningu með kennararanum, það er mitt hlutverk sem room-parent. Við komum þrjár mömmurnar inn í bekkinn fyrir hádegi og hjálpuðum til við föndur og sull. Sullið fór þannig fram að við hituðum smjör í potti, bættum sykurpúðum útí og létum það bráðna. Að lokum var hrært út í þetta grænum matarlit og Rice krispies.
Krakkarnir mótuðu svo jólatré á diski og skreyttu með nammi. Kitkat var trjástofninn.

Eftir hádegismat var komið að formlegri kveðjustund. Sylvie og Tyrel eru að flytja burt frá Shanghæ í jólafríinu. Krakkarnir voru búnir að útbúa bækur fyrir þau, þar sem hvert barn gerði eina síðu með mynd og texta til þeirra. Hvert barn las svo sinn texta til þeirra.
Þá var komið að leikjum, við fórum í stólaleik en þessi var öðruvísi því enginn datt út heldur var einn stóll tekinn út í hverri umferð. Allir þurftu að sitja svo ef þú fannst ekki lausan stól var ráðið að setjast í kjöltuna á næsta manni. Þetta var mjög gaman, sérstakega undir lokin þegar allir enduðu á einum stól og duttu á gólfið. Við gerðum eina umferð með mömmunum sem voru ansi margar og krakkarnir skemmtu sér vel að sjá mömmurnar sitja í kjöltunni á annarri mömmu og jafnvel fjórar ofan á einni. Því miður engar myndir frá mömmufjörinu.

Krakkarnir fengu að útbúa sér ís með ýmisskonar góðgæti, jarðarberjum, rjóma, súkkulaðisósu...
Skólastjórinn kom líka með mikilvæga sendingu til krakkanna, jólasveinninn hafði bankað upp á hjá honum og beðið hann um að koma bréfum til þeirra. Þetta voru svarbréf frá jólasveininum við bréfum barnanna.
Börnin voru líka búin að föndra jólasokk handa leynivini í bekknum og föndra litla gjöf heima til að setja í sokkinn. Hugi föndraði fugl handa Lucy. Hérna er hann við þá iðju heima.

Það var líka jóla og kveðjuveisla í Stirnisbekk í morgun. Börnin máttu koma með góðgæti í nesti og bjóða með sér. Við tókum með okkur piparkökur sem vöktu lukku. Það eru tveir strákar að kveðja í bekknum, það verða bara þrír strákar eftir og sex stelpur.
Í morgun var líka síðasta samkoman á sal fyrir frí. Árgangurinn hans Stirnis kom fram á sviðinu. Þau léku og sungu við lag um ljónaveiðar og dönsuðu fugladansinn. Stirnir naut sín á sviðinu og brosti allan tímann. Þau dönsuðu fugladansinn tvisvar, með áhorfendum í annað skiptið svo ég rifjaði upp sporin líka.
Við fórum út að borða í hádeginu með tveimur mömmum og dætrum þeirra. Það var mikill æsingur í krökkunum sem fögnuðu því að vera komin í jólafrí. En við fórum á barnvænan stað og þjónarnir reyndu að bjarga fínum glösum og öðru undan þeim. Nokkur þurrkuð blóm lentu á gólfinu, það varð eini skaðinn.
Við erum að bóka næstu viku í félagsskap góðs fólks, bæði krakka og fullorðinna, það styttir biðina eftir jólunum og ferðalaginu.
Núna er það nýjasta hjá Huga að reyna að dáleiða okkur eftir lestur á Kafteini ofurbrók, hann vildi kaupa armband í dag sem gæti komið í staðinn fyrir dáleiðsluhringinn í bókinni. Rétt í þessu reyndi hann að dáleiða mig svo ég myndi láta eins og hæna. Gaggaga.
Dalla

No comments: