Hugi var mús og Stirnir bjalla í söngleik föstudagkvöldsins í skólanum þeirra. Þeir stóðu sig báðir mjög vel, sungu hástöfum og sýndu enga feimni á sviðinu. Upprennandi stjörnur.Á laugardaginn fengum við bræðurna Bogga og Örn í heimsókn, það var mjög gaman. Við pössuðum þá m.a.s. í smátíma sem gekk mjög vel. Strákarnir ná vel saman í leik, bæði inni og úti. Við könnuðum svæðið okkar með þeim, fórum í boltalandið og á tvo leikvelli.
Hugi og Boggi smíðuðu geimflaugar úr pappa, þær voru flottar og vel skreyttar.
Magnús og Hekla og líka Atli og Yongjia eyddu kvöldinu hérna með okkur. Við pöntuðum okkur indverskan mat og höfðum það gott.
Ég held að ég sé komin í jólaskap, við settum smá jólatónlist á fóninn og ég bakaði smákökur, brauðbollur og súkkulaðiköku. Langt síðan ég hef bakað svona mikið en það var mjög gaman að bera fram nýjar bollur og súkkulaðiköku, ég var stolt húsmóðir.
Í gær, sunnudag tókum við smá forskot á aðventuna með dönsku vinum okkar/mínum Christinu og Anders og börnunum Oliver og Viktoriu. Ég hef farið með Christinu í nokkra rúnta um Shanghæ en Kjartan var næstum því að hitta þau í fyrsta skipti. Svona er þetta hérna, konurnar skipuleggja félagslífið fyrir kallana sem eru alltaf að vinna, svo verða þeir að gjöra svo vel og fylgja en þetta tókst allt mjög vel og Kjartan var ekki eins og illa gerður hlutur.
Þau buðu upp á svínasteik með brúnuðum kartöflum, nammi. Svo voru bakaðar pönnukökur og krakkarnir skáru út smákökur. Virkilega huggulegt á danska vísu og við Kjartan vorum farin að reyna okkur við dönskuna eftir smá rauðvín og bjór. Nokkrar myndir:


Í morgun fór ég í smá rölt með henni Sylvie nágrannakonu minni og Zoe litlu dóttur hennar. Ég leiddi þær í búð sem ég þekki og er einstaklega góð fyrir jólagjafainnkaup, tala ekki meira um það.Eftir hádegið var ég með Hugabekk að aðstoða við samsetningu og skreytingar á piparkökuhúsi. Allir bekkirnir búa til sitt piparkökuhús og krakkarnir stóðu sig vel þó einhver hluti af namminu hafi líklega ratað eitthvert annað en á húsið.




Ég þurfti að hlaupa yfir í Stirnisbekk áður en húsið var tilbúið því ég var búin að lofa að vera gestalesari þar. Krakkarnir voru mjög áhugasamir og hlustuðu vel meðan ég las um bók um óhamingjusama caboose en það er endavagninn á langri lest. Þau þekkja þetta hlutverk sjálf því eitt af störfum þeirra er að vera lineleader og annar er caboose á röðinni.
Hugi fór á sitt fyrsta playdate eftir skóla í dag, það tókst vel fyrir utan einhvern harm vegna þess að hann fékk ekki að velja sér blöðru. Við Stirnir fórum bara tvö ein heim með skólabílnum og svo fór ég að sækja Huga í leigubíl seinna.
Við erum búin að taka ákvörðun um jólafrí, við ætlum að fara til Tælands. Yongjia er búin að leggja mikla vinnu í að finna flugmiða til Bangkok og svo áfram til eyjarinnar Koh Samui. Við förum að kvöldi þess tuttugasta og annars til Bangkok og svo áfram til Koh Samui að morgni þess 25. Þannig að jólamaturinn í ár verður tælenskur .
Á Koh Samui eru fallegar strendur og draumurinn er að gista í kofa/húsi við ströndina. Eina vandamálið er að finna flug aftur til Bangkok en ef það gengur ekki er hægt að taka ferju.
En við ætlum semsagt að fara með Atla og Yongjia sem er bara frábært, þau eru okkar nánasta "fjölskylda" hérna.
Svo nú þarf að draga fram sumarfötin aftur, nýbúin að setja þau aftarlega í skápinn. Kjartan rak reyndar upp eitthvert harmakvein hérna áðan þegar hann sá hitastigið í Tælandi, hann er ekki mikið fyrir hita en hann verður þá bara á floti þennan tíma eða í köfun.
Dalla


























