Friday, July 24, 2009

Barnalán

Samkomulagið á heimilinu í sumarfríinu hefur verið nokkuð gott. Bræðrakærleikur er mikill þó stundum slettist upp á vinskapinn, það getur t.d. tekið tíma að komast að samkomulagi um hvaða mynd eigi að setja í tækið á heitum degi. Ég man eftir samtali Huga og Stirnis þegar kom í ljós að von væri á systur. Þá flissuðu þeir og sögðu að kannski myndi litla systirin vilja horfa á Barbímynd þegar hún yrði eldri. Barbímyndir þekkja þeir vel frá nágrönnunum og prinsessunum Andreu og Ebbu. Nú hefur martröðin ræst, Eyja vill ráða hvað fer í tækið og í morgun leyfði Stirnir henni að setja Barbímyndina Þumalínu af stað. Eyja hefur reyndar takmarkaðan áhuga á sjónvarpsglápi, sest einstöku niður hjá þeim bræðrum á milli þess sem hún vill kyssa þá. Stirnir er viðvkæmur fyrir lykt og kvartar ef það er ostalykt, pissulykt eða kúkalykt af henni.

Eyja veit að drykkjarvatnið kemur úr stórum kúti sem er staðsettur ofan á tæki í eldhúsinu og þangað sækir hún vatn í glas og færir bræðrum sínum, mörgum sinnum á dag. Hún er með ráðskonurass og setur bleiuna sína í ruslið. Hún nær sér í disk inn í skáp og heimtar mat á hann þegar hún er svöng. Í kvöld útbjó  Lí handa henni lítil dumplings með rækjufyllingu og Eyja var mjög óþolinmóð og otaði að henni diskinum.

Kínverjar eru barngóðir eins og ég hef margoft sagt. Ég var að ræða við tvær vinkonur, aðra kínverska og hina sem á kínverska föðurfjölskyldu. Þær sögðu báðar frá því að þær hefðu heyrt það stöðugt frá nánustu fjölskyldu, sérstaklega feðrum sínum að þær væru ekki nógu fallegar og heldur ekki nógu gáfaðar í æsku. Báðar eru þetta gullfallegar og klárar konur. Við Lí ræddum þetta líka og hún sagði að það væri satt að kínverjar væru kröfuharðir og gagnrýnir á börnin sín. Þeir bera sín börn saman við önnur börn og saka þau um að standa sig ekki nógu vel í skóla, tónlistarnámi o.s.frv. Ég skil það að í stóru samfélagi sé mikil samkeppni og mikilvægt að standa sig vel en þessi áhersla á galla barnanna (ef þeir eru þá til  staðar) eru mér óskiljanlegir. Lí sagðist sjálf hafa verið svona, sífellt að benda dóttur sinni á hvað betur mætti fara. En hún sagðist hafa breyst og hún finnur það að dóttirin kann að meta breytinguna.

Nýjasta nýtt er að við mæðginin förum í kvöldsund eftir mat. Bræðurnir vilja helst fara þegar orðið er dimmt, útilaugin er lokuð á þessum tíma en við förum í innilaugina sem er nokkuð köld fyrir minn smekk. En þegar Eyja er ekki með í för get ég leikið við strákana, það heldur líka á mér hita. Í gærkvöldi gengum við heim eftir sundið og urðum vitni að því þegar maður á hjóli henti tómri flösku í götuna. Stirni er hreinlæti hugleikið þessa dagana og sagði að við yrðum að kenna kínverjum að hætta að skyrpa og henda rusli í götuna.

Í dag fórum við í bíó að sjá Ísöld 3, Eyja var heima hjá Lí enda svefntími hjá henni. Hún fer stundum með Lí á matarmarkaðinn og gengur þar um, segir hæ við vegfarendur og sölufólk og vinkar. Í dag sá hún eldri strák og kallaði víst hátt á hann gögö, gögö (stóri bróðir). Í Kína er venja að smábörn kalli hvert annað litlu eða stóru systur, litla eða stóra bróður. Það er vinalegt og kannski er þetta tilkomið vegna eins barns stefnunnar.

Veðrið var með besta móti í dag. Það rigndi hressilega í morgun sem  hreinsaði loftið og kældi svo hitinn var um 28 gráður. Við ákváðum að labba út síðdegis og krakkarnir byrjuðu á léttum æfingum:

IMG_5382

Hugi hjálpar litlu systur sinni, hún kann reyndar alveg á þetta, fylgist með nágrönnunum. Hún gengur stundum með hendur fyrir aftan bak, mig grunar að hún sé að herma eftir einum gömlum sem gerir þetta.

IMG_5385

IMG_5392

IMG_5395

Kínverjar eru mikið fyrir að spila og þarna sátu þrír og spiluðu.

IMG_5404

Við fórum í garð í nágrenninu og Eyja var spennt að komast í leiktækin.

IMG_5471

Þvílík hamingja að vera í sama tæki og gögö. Þetta var eiginlega eins og sena úr Ísöldinni, tveir íkornar og hneta.

IMG_5474

IMG_5483

Á heimleiðinni dáðust tvær konur að því hvernig Eyja drakk úr flöskunni.

IMG_5489

Sko ég kann þetta alveg sjálf.

Dalla

Wednesday, July 22, 2009

Sólmyrkvi

Eftir bjarta og sólríka daga byrjaði að rigna í gær. Þegar við litum út um gluggann í morgun var alskýjað, ekki bestu aðstæður til að fylgjast með sólmyrkva. En við vonuðum að sólin myndi brjótast í gegnum skýin og komum okkur fyrir á þaki skrifstofu CCP þar sem sér vel til allra átta.

Svona var útsýnið rúmlega níu:

IMG_5342

IMG_5353

Og um hálftíu leit þetta svona út.

IMG_5355

Stirnir skimar eftir sólinni með heimagerða kassann okkar. Með því að horfa á sólina í kassanum, óbeint, er engin hætta á sjónskaða því það er hættulegt að horfa beint í sólina þegar sólmyrkvi verður.

Rétt fyrir sólmyrkvann kl. 9:36 byrjaði að rigna. En við urðum vör við myrkvann því það varð aldimmt í rúmar 5 mínútur, sérstök tilfinning svona að morgni til. Smá vonbrigði samt því svona langur sólmyrkvi verður svo sjaldan, sá næsti eftir 300 ár.

En rigningunni fylgir smá svali sem við erum þakklát fyrir. Eftir allt of heita daga, oftast í kringum 40 gráðurnar er kærkomið að hitastigið fari niður fyrir 30 gráður. Við fórum í sund í gær í sólinni og strákarnir kynntust tveimur systrum þar sem voru með gúmmíbát og þau léku sér öll saman í tvo tíma. Mikið fjör.

Dalla

Saturday, July 18, 2009

Leikhópur og ferðamenn á heimaslóðum

Leikhópurinn (playgroup) hefur haldið striki í sumar því við höfum flestar verið hérna í borginni. Það er þó óvenjulegt því flestir útlendingar flýja borgina vegna hitans yfir sumartímann. Börnin og mömmurnar njóta þess að hittast og leika og spjalla.

Eyja er alltaf til í að fara af stað að hitta litlu vini sína og hérna er hún ferðbúin við hliðið.

IMG_5219 

IMG_5231

Eyja og Aaron heima hjá honum.

IMG_5236

Aaron

IMG_5242

Ailan mamma Francis og Hekla.

IMG_5245

Þessi þrjú ná vel saman og hérna eru Francis og Aaron komnir að leikborðinu og Eyja á fleygiferð svo hún geti verið með.

IMG_5246

Francis teygir sig yfir til að ná í eitthvað spennandi.

Undir lok boðsins mætti þessu Mjallhvít uppdubbuð:

IMG_5258

Þessa dagana þarf að huga að einhverju skemmtilegu fyrir strákana að gera. Þeir aðstoðuðu við þrif um daginn, Hugi þreif hjólið sitt og Stirnir barnavagninn. Stirnir vildi halda áfram með tuskuna á lofti þegar við gengum út og sagðist vilja þrífa allt Kína, það væri svo ógeðslegt. Ekkert smá verk fyrir höndum þar en við höfum m.a. reynt að siða nágranna okkar sem eiga glugga sem snúa út að leiksvæði barnanna, þeir stunda það að henda rusli út um gluggana.

Við mæðginin fórum að sjá Harry Potter í vikunni og strákarnir fengu stóra poppfötu sem Stirnir sökkti sér ofan í þegar hann missti einbeitinguna á myndinni. En við skemmtum okkur vel og Hugi tók réttilega eftir því að Harry og vinir eru orðnir unglingar því það var svolítið mikið fjallað um það að vera skotinn sagði hann.

Við hittum Bogga og Örn í síðasta skipti í bili og fórum með þeim á skauta. Mjög kælandi á heitum degi. Hugi komst fljótt af stað en Stirnir var ekki jafn öruggur og vildi hætta við. Boggi og Örn flugu svo af stað til Íslands og bræður sögðust vilja fara líka.

IMG_5265

í gær fórum við mæðginin upp í hæsta turninn sem er kallaður upptakarinn því það er gat í honum ofarlega.

IMG_5285

Bíllinn okkar virðist smár fyrir framan turninn.

IMG_5288

Bræður horfa út yfir ána Huangpu af hundruðustu hæð. Fyrir neðan er Jin Mao turninn og Perluturninn með rauðri kúlu.

IMG_5293

Vegna þess að útsýnispallurinn er staðsettur fyrir ofan gatið er hægt að sjá út í gegnum gólfið á nokkrum stöðum. Þarna er Hugi kominn með prakkarasvip…

IMG_5294

Og svo hoppaði hann ofan á glugganum og ég missti úr nokkur slög.

IMG_5300

Stirnri sagðist vera hræddur og tiplar yfir gólfið.

IMG_5313

Takið eftir að við sitjum ofan á glugga en Stirnir vildi sitja á járni í miðjunni.

IMG_5316

Horft niður

IMG_5319

Mario fékk líka að prófa.

IMG_5320 

Lyftan niður var eins og að vera staddur í geimskipi.

IMG_5322

Stirnir horfir á ljósið.

IMG_5326

Við fengum okkur snarl og Hugi og Stirnir ákváðu að teikna mynd af Mario.

IMG_5329

Hugi ánægður með árangurinn.

IMG_5331

Stirnir vandar sig við litavalið.

IMG_5335

Bræður spjalla meðan við bíðum eftir bílnum.

Í næstu viku verður sólmyrkvi hérna. Langur sólmyrkvi sem sést bara á 300 ára fresti. Við ætlum að fylgjast með og vonum að það verði ekki skýjað. Spennandi.

Dalla

Friday, July 10, 2009

Hitasvækja

Við fengum þá snjöllu hugmynd síðasta sunnudag að fara út að ganga í hádeginu. Það var nokkuð af okkur dregið þegar við fórum inn á veitingastað til að fá okkur hádegismat. Hitinn hefur verið í kringum 35 gráður síðustu daga, fór í 37  og mjög rakt í gær.

IMG_5109_1

Miklar freistingar hjá götusölukonu sem er með kanínur, íkorna og andarunga í búri og engisprettur í litlu körfunum.

Við hittum  Heklu,  Magnús og kó og skoðuðum nýjar skrifstofur CCP sem er verið að innrétta. Fengum okkur svo snarl og hvítvín. Strákarnir fóru í gistingu til Bogga og Arnar svo við Kjartan áttum rólegt kvöld hérna heima með Eyju.

IMG_5153

Hekla og Ásta fá sér eftirmiðdagssnarl.

Í dag fórum við Hekla með krakkaskarann í Vísinda og tæknisafnið. Kínversk börn eru komin í skólafrí því þar var þónokkur örtröð og við biðum í 40 mínútur eftir því að ferðast í gegnum meltingarveginn.

IMG_5200

Örn og Stirnir á leið upp í munn og niður í maga…

Við veltumst um í munninum og niður í gegnum meltingarfærin og loks var okkur kúkað út á áfangastað, frekar fyndið. Strákunum fannst líka gaman að upplifa þyngdaraflið, skoða regnskóg og fræðast um geimverur.

IMG_5211

Ásta með nýjan krúttsvip, tungan úti.

IMG_5214

Vélmenni spilaði á píanó og söngelskir gátu sungið með í karóke.

IMG_5218

Geimverusýningin var flott og af því tilefni sitja bræður núna og horfa á ET.

Ég verð að segja að mér finnst allt annað að vera hérna núna yfir sumartíma en fyrsta sumarið okkar. Þá þekkti ég ekki borgina og hitinn var alveg að drepa okkur. Nú hef ég aðgang að bíl og við hittum góða vini. Ég veit líka hvað er hægt að gera með börnunum. Ég hélt þó um síðustu helgi að ég hefði ofgert þeim. Við fórum í eins árs afmæli hjá litlum vini, honum Francis og þar fóru strákarnir út á trampólín. Þeir komu inn fjólubláir í framan og þrútnir vegna hitans en létu vel af sér. Við förum líka mikið í sund. Boggi og Örn gistu hjá okkur í nótt og við fórum í sund síðdegis í gær og aftur í morgun.

Dalla