Tuesday, April 21, 2009

Sumarklipping

Loksins tókst mér að fá Stirni í klippingu. Hann sveik mig eftir afmælið og hætti við en í gær með loforði um mútur röltum við svona 50 skref í næstu hárgreiðslustofu og hann fékk stutta herraklippingu. Það er allt annað að sjá hann og bara munur að sjá framan í hann. Klippingin kostaði 10 rmb sem jafngildir um 170 íslenskum krónum svo ekki eru mikil útgjöld í ferðum á rakarastofu hér.

Í síðustu viku voru foreldraviðtöl í skóla bræðranna en nýjasta nýtt er að láta börnin sjá um þau sjálf og kennarinn fylgist bara með. Stirnir sýndi okkur verkefni vetrarins í möppu og leiddi okkur á fund tölvukennarans, tónlistarkennarans, kínverskukennarans og íþróttakennarans. Það gafst enginn tími til að spjalla við kennarana en við fengum innsýn í það sem hann lærir. Einkunnagjöfin er mjög nákvæm en oft óskiljanleg t.d. er gefin einkunn fyrir: Receptive skills of focusing attention, listening and observing to gather information, and questioning to check for understanding. Þessvegna var gott að fá skilaboð frá kennara Stirnis í gær sem hljóðuðu svona: Just a quick note to let you know that Stirnir seems to be getting more comfortable at school with each passing day. He is raising his hand and talking more in class and his quirky sense of humor is evident in the things he brings to show and tell and the outfit he wore on opposite day. I haven´t laughed so hard in a long time.

Stirnir og Philip nágranni eru líka mikið að prófa sig áfram með ljót orð að mati Huga sem sýpur hveljur þegar þeir byrja að telja upp. Hugi er mikill reglumaður og honum líst ekki á hvernig litli bróðir talar. Hann er alinn upp við það að ekki megi segja svona orð í alþjóðlega/ameríska skólanum. Þeir vinirnir  nota tækifærið í skólabílnum þar sem ayi skilur ekki ensku.

Foldraviðtal Huga var óformlegra þar sem hann var lasinn í vikunni, var með hita, svima og útbrot. Við settumst bara niður með Mr. Blanck og hann sagði okkur frá því sem bekkurinn hefur gert síðustu mánuði. Hann hrósaði Huga fyrir gott ímyndunarafl í söguskrifum og jákvæðni, hann væri alltaf til í allt. Hugi var mjög áhugasamur þegar þau krufu uglu og gladdist yfir hverju beini sem hann fann í uglumaga. Kennarinn sagði mér líka að hann sjálfur hefði slakað á í samskiptum við bekkinn. Hann beitti heraga í upphafi vetrar sem mæltist ekki vel fyrir, allavega ekki hjá mér.

Síðustu helgi var föndurhátíð í skólanum, föndrið var alþjóðlegt því hver þjóð skipulagði föndur í skólastofu. Norðurlöndin sameinuðust um ABBAþema og börnin gerðu diskókúlur og hristur. Ég aðstoðaði við undirbúning og skreytingu á stofunni okkar á föstudaginn og fór svo í kvöldmat með íslensku konunum í borginni. Það var mjög gaman, það eru svo skemmtilegar konur hérna.

Á laugardaginn fórum við mæðginin svo í föndrið í skólanum og strákarnir gerðu m.a. brasilísk hárbönd, indíanavesti, indverskt dyraskraut og japanskt leikfang. ABBA herbergið var vinsælt og við heyrðum börnin spyrja hvert annað á göngunum hvort þau væru búin að fara í ABBAlands stofuna. Ég stóð eina vakt í föndrinu og hjálpaði til við tiltekt og svo fórum við heim svo strákarnir kæmust aftur af stað í danstíma. Þeir prófuðu eitthvað sem heitir creative dance en ég get ekki lýst þeim dansi því Kjartan fór með þá. En kennarinn stoppaði hann eftir tímann og hrósaði bræðrunum og talaði um hvað þeir væru óheftir í hreyfingum.

Hadley og Emma komu svo og gistu hjá okkur og við fórum öll saman í sund. Hekla og Magnús buðu í mat en þau eru nýkomin til baka úr Íslandsreisu. Hugi spurði Heklu hvort hún hefði ekki komið með kjötfars frá Íslandi, hann dreymir um kálböggla þessa dagana. Við fengum ljúffenga gúllassúpu og strákunum tókst að bleyta sig rækilega úti í rigningunni svo það þurfti að stinga þeim öllum ofan í heitt bað.

Kjartan eyddi sunnudeginum í stúku við að horfa á Formúlu 1 kappakstur. Hann sagði nú að þetta hefði ekki verið mikil skemmtun en hann gat leikið sér með myndavélina sína og náði góðum myndum.

Ég var bara mjög fegin þegar það kom mánudagur eftir þessa þéttbókuðu helgi. Við Eyja undum okkur heima við og fórum svo út í göngu með Elinu og Nellie. Eyja er að gróa sára sinna eftir hrakfarir síðustu viku en hún stakk puttunum ofan í heita brauðristina og brenndi sig á þremur puttum. Það var mér að kenna því ég hélt á henni of nálægt. Klukkutíma síðar datt hún á borðshorn og lenti á eyranu sem marðist.

Við förum í playgroup vikulega við mæðgur og hittum mömmur með ung börn. Við skiptumst á að bjóða heim, borðum saman hádegisverð og börnin uppgötva hvert annað. Þetta eru konur sem ég þekkti ekki áður, það var Fredrik nágranni minn sem kom mér í samband við þær. Nú erum við Fredrik að skipuleggja kveðjupartí fyrir Elinu sem fer aftur að vinna eftir fæðingarorlof í næstu viku og svo þarf að bjóða Matthias velkominn í hóp þeirra heimavinnandi en hann tekur við af Elinu.

Sjónvarps og tölvuleikalausu dagarnir hafa verið vel heppnaðir. Börnin leika meira saman úti og inni og það er ekki lengur beðið um að fá að brjóta reglurnar. Við fullorðna fólkið erum líka í tölvubanni á sama tíma og við höngum úti með krökkunum eða spilum saman eftir kvöldmat. Hugi hefur mikinn áhuga á veðmálum þessa dagana og vildi veðja við mig um að hann gæti ort 15 ljóð á tveimur dögum. Hann sagði að haiku ljóðin væru erfiðust en hann ætlar að semja 5 svoleiðis.

Dalla

No comments: