Sunday, April 12, 2009

Öfugur dagur

Fyrir rúmri viku var öfugur dagur í skóla bræðranna. Börnin máttu koma í úthverfum eða öfugum fötum eða í fötum af hinu kyninu. Hugi var alveg ákveðinn í því að fara í kjól og fékk lánaðan einn slíkan af Andreu nágrannastelpu, hann fann líka til spennu í hárið og gullskó. Stirnir hugsaði málið og ákvað svo að slá líka til og fékk skokk af Andreu, vildi setja tagl í hárið og fá armband hjá mömmu. Kjartan var smeykur um að þeir myndu hætta við allt á miðjum degi og vildi senda þá með aukaföt í skólann en þeir bræður vildu ekki sjá það.

IMG_3342

Hérna bíða þeir eftir skólabílnum með Philip og Carolinu.

Þeir voru ánægðir eftir daginn og voru víst einu strákarnir í stelpufötum í sínum bekkjum. Mr. Blanck kennari Huga var víst í kjól hluta úr degi  og með hárkollu en þeir voru báðir ánægðir með athyglina sem þeir fengu. Nágrannarnir lýstu því yfir að þeir væru hugaðir.

Eyja fékk þrjár sprautur í lærin búttuðu  um daginn. Hún stóð sig vel grét bara meðan hún var stungin. Lí kom með okkur á spítalann og var stolt af henni. Þremur dögum seinna fékk hún háan hita og útbrot sem voru viðbrögð við bólusetningu við mislingum. Tveimur dögum seinna datt hún hérna úti og hruflaði sig í andlitinu svo það hefur ekki verið sjón að sjá hana, með útbrot og hrufluð. Hún var á tímabili með einhverskonar yfirskegg, sár á efrivörinni.  Hún fer mjög varlega í labbið ennþá, hefur tekið nokkur skref en passar sig mjög vel.

Stirnir var lasinn í vikunni með hita og höfuðverk í tvo daga en er orðinn heill heilsu núna.

Annaðhvort þekkjum við marga sem eiga afmæli á vorin eða það að fólk heldur frekar veislur á þessum tíma. Síðustu helgi var afmæli hjá Ebbu nágrannastelpu og hjá Carolinu í gær. Í dag var svo partí hjá Alp sem var með Stjörnustríðsveislu. Þar var barist upp á líf og dauða með geislasverðum í tvo tíma og mig grunar að pabbarnir verði marðir eftir átökin á morgun. Það var gott að koma heim í páskalamb og eggjaát eftir lætin en við vorum svo heppin að fá páskaegg frá Íslandi, frá mömmu Atla og fjölskyldu Matta.

Tvær myndir af okkur mæðgum, teknar af Valerie vinkonu minni þegar við hittumst í hádegismat nýlega:

DSC01839

DSC01841

Gleðilega páska, Dalla

No comments: