Wednesday, November 19, 2008

Veturinn kominn

Hér var gestkvæmt um helgina. Hadley og Emma fengu að gista hjá okkur á föstudagskvöldið því Dan pabbi þeirra fór að sjá Federer keppa á tennismóti. Ég var í skutli seinnipartinn eins og aðra föstudaga, sótti Huga og stelpurnar í skólann og fór svo með Huga í gítartíma. Meðan Hugi spilar á gítarinn fer ég og fæ mér kaffi með Maríu því tónlistarskólinn er í sömu götu og CCP.

Lí var í matargerð hérna heima, hún gufusauð grænmeti handa Eyju og maukaði ávexti, bakaði tvær stórar pizzur handa krökkunum og bjó til dumplings handa okkur tveimur. Ég er eiginlega mest hissa hvað börnin geta borðað mikið, þegar þau voru búin með báðar pizzurnar báðu þau um brauð með osti. Þau horfðu svo á Journey to the center of the earth, strákarnir bentu stelpunum stoltir á íslenskt landslag. Stirnir og Emma lognuðust útaf fyrir framan sjónvarpið en Hugi og Hadley fóru upp að lesa eftir myndagláp.

Daginn eftir kom Dan að sækja stelpurnar og tveimur tímum síðar birtust Boggi og Örn. Þeir borða líka vel drengirnir, eftir pastaát þurfti að útbúa brauðsneiðar handa þessum kraftmiklu strákum. Þeir léku heilmikið úti enda veðrið gott. Undir kvöld komu Hekla og Magnús og við fórum út að borða með Matta og Maríu og Ingibjörgu sem er hérna í vinnuferð. Lí passaði krakkana fimm, hún  er alltaf til þegar hún er beðin.

Á sunnudaginn eru fimleikar á morgnana og eftir hádegishressingu fórum við á listasafn til að ná síðasta deginum á Shanghai bíennalnum. Feðgarnir fóru svo í sund og við Eyja fylgdumst með. Hittum svo Matta og Maríu og prófuðum nýjan stað hérna í nágrenninu.

Í gær sótti ég Stirni heim til Conor vinar hans, hann fór þangað að leika eftir skóla. Hugi hringdi og var mikið niðri fyrir þegar ég var á ferðinni. "Eyja dó næstum" sagði hann. Hún hafði þá náð í batterí og stungið því upp í sig.  Hugi sá til hennar og reif það út úr henni. Skýringin var sú að batteríið var í litakassanum og Ebba tók það og setti það í seilingarfjarlægð við Eyju. Ég er búin að segja bræðrunum margoft að nú megi ekki vera með smádót í stofunni því Eyja stingur öllu upp í sig. Enda sagði Hugi áðan þegar Eyja var að naga bókamerkið hans: Æ, það er erfitt að eiga hana Eyju!

Stirnir kemur reglulega með heiðursskjöl heim fyrir góðan árangur á stærðfræðiprófum, fær alltaf tíu. Í dag kom hann með gimsteina sem hann mátti velja úr fjársjóðskistu kennarans, hann var ekki lengi að gefa Huga annan steininn. Nú þarf ég að koma þeim á góðan geymslustað áður en Eyja fer á stjá.

Hérna er að kólna og laufin að falla af trjánum, verður nóg að gera hjá sópurum eins og Anna sagði í dag.  Við erum að undirbúa jólagleði Íslendingafélagsins næstu helgi, hangikjötið er fast í tollinum svo líklega verður það ekki á hlaðborðinu. Síldin fer heldur ekki á borðið, hún var ekki til í IKEA í gær, lentum í því sama í fyrra.  En við útbúum eitthvað góðgæti þó það verði ekki íslenskt að þessu sinni, helst að það verði lax og rúgbrauð sem kemur að heiman.

Myndasería að venju:

2008 nov 47-1

Útsýni til nágrannans, hann gengur greinilega í rauðum nærbuxum.

2008 nov 48

Furðuvera á bíennalnum

2008 nov 49

Eyja var í sjalinu hálfan sunnudaginn, hún er þó farin að síga töluvert í, líklega komin yfir 10 kíló.

2008 nov 50

Eyja stillir sér upp að kínverskum sið, allir kínverjar gera þetta merki fyrir myndatöku.

2008 nov 51

Sýnir hvað hún er stór

2008 nov 52

Anna og Eyja á köldum degi í götunni okkar. Síðu nærbuxurnar eru komnar upp á snúru hjá nágrönnunum, ekki seinna vænna, bara 7 gráður í morgun, brrrr.

2008 nov 54

Eyja í vetrargallanum, prjónað dress frá ömmu Röggu.

Kuldakveðja, Dalla

1 comment:

Anonymous said...

Je suis revenue d'un petit voyage d'une semaine en France. Tout s'est très bien passé et j'ai pu revoir Émilie (ex-locataire pendant plusieurs années) et sa petite famille, mon vieil oncle Frdddy (95 ans) à Bordeaux et Marie-Claude , qui vous envoie ses meilleures salutations, au Husté. J'ai séjourné également à Cognac et à Caen, avec guðrún Eva Mínervudóttir à qui je servais d'interprète.
C'est toujours sympa d'avoir de vos nouvelles bien illustrées de photos, grâce à ton blog, Dalla.
Avez-vous reçu les envois transportés par Atli? Y aura-t-il d'autres messagers de CCP vers Shanghai avant Noel?
Bises à tous,
Amma Catherine