Þá erum við komin heim til Kína eftir sumarútlegðina, búin að fara hringinn í kringum hnöttinn á innan við áttatíu dögum. Við flugum hingað frá Atlanta í Georgíufylki, rúmlega 15 tíma flug. Reyndar var ekki flogið yfir Kyrrahafið heldur yfir Kanada og Alaska og svo niður yfir Rússland og Japan en við náðum hringinn þó það væri ekki bein lína.
En þegar ég skrifaði síðast vorum við ennþá stödd á Kaua´i eyju í Kyrrahafinu.
Kjartan og Hilmar vöknuðu fyrir sólarupprás einn morguninn og keyrðu yfir á Tunnels ströndina til að snorkla. Þeir komu heim uppveðraðir því þeir höfðu farið út að ytra rifinu og synt þar með stórum skjaldbökum og litlum hákarli. Tveimur dögum seinna sátum við fyrir framan sjónvarpið og horfðum á þátt um árásir dýra á menn. Þar kom fram stúlka sem hafði misst handlegg í hákarlskjaft á Tunnels ströndinni í Kaua´i. Þetta hafði gerst við sólarupprás og hún hafði verið að sörfa.
Okkur fannst þeir hafa verið í lífshættu þarna, svona eftir á sem betur fer.
Síðustu dagarnir okkar voru ljúfir. Við fórum út að borða og horfðum á sólarlagið frá veitingastaðnum, okkur fannst við vera endalaust stödd inni í póstkorti. Feðgarnir fóru í stjörnuskoðun á ströndinni þegar heiðskírt var að kvöldi til, aðstæður voru góðar til þess því þarna var engin ljósmengun. Þeir sögðust hafa séð 2 halastjörnur.
Eftir tveggja vikna dvöl flugum við til Seattle. Þetta var kvöldflug, rúmir 5 klukkutímar og við lentum snemma að morgni, þreytt. Við komumst ekki inn á hótel fyrr en eftir hádegi en við skoðuðum vísindasafn sem var skemmtilegt. Hótelið var í miðbænum og eftir hvíld hjá gamla fólkinu löbbuðum við út, keyptum kort af Washington og Oregon fylki og fengum okkur góðan málsverð niður við sjó.
Við misreiknuðum okkur aðeins í ferðaplönum því við ætluðum að keyra til San Francisco en sáum það að við hefðum nauman tíma til þess. Vorum að velta fyrir okkur að breyta fluginu en ákváðum svo bara að leggja í hann og sjá til hvernig gengi.
Við keyrðum í norður frá Seattle (öfug átt við San Francisco) og stefndum á fjalllendi sem heitir North Cascade þjóðgarðurinn. Þar fórum við í göngu í skóginum og vonuðumst til að hitta björn þar. Hugi var sannfærður um að hann sæi bjarndýrsspor en engan hittum við björninn, sumir voru bara fegnir. Þarna var mjög fallegt og við stoppuðum oft til að dást að útsýninu. Um kvöldið fengum við gistingu í fjallakofa og borðuðum þær bestu pizzur á litlum veitingastað sem við höfum fengið lengi. Við vorum þarna í kúrekalandi, á mörkum hins villta vesturs og margt minnti á þann tíma. Við hittum indæl hjón á veitingastaðnum, tróðum okkur við borðið þeirra og spjölluðum lengi við þau. Þau eiga hesta og ríða út um fjöllin daglega.
Daginn eftir keyrðum við niður til Oregon. Á leiðinni sáum við fjölda dádýra og eitt þeirra hafði lent fyrir bíl og lá í vegkantinum, okkur fannst það sorglegt.
Við keyrðum í vesturátt meðfram Columbia ánni. Þar gistum við í litlum bæ, Hood river og fengum inni á móteli, þetta fína herbergi með útsýni yfir ána.
Næsta dag keyrðum við til Portland og þaðan í suðurátt eftir hraðbrautinni en færðum okkur svo yfir á strandlengjuna. Við urðum þó fyrir vonbrigðum því þar var þoka og hálfgert skítaveður. Þegar við áttum að fara að keyra í gegnum fallegt svæði ákváðum við að staldra við, það væri ekki hægt að keyra áfram í þessu skyggni en þá var komin svartaþoka. Eina gistingin í bænum var sjúskað mótel en við létum okkur hafa það og sváfum stutt, lögðum af stað aftur í bítið. Við keyrðum fram á risaeðlugarð, þar gengum við um skóginn og skoðuðum risaeðlur í fullri stærð. Við ókum líka í gegnum redwood skóg, þessi tré eru stórkostleg svo há og flott. Við stöldruðum við og fórum í göngu og komumst inn í nokkur tré sem voru hol að innan.
Síðustu nóttina gistum við í nágrenni San Francisco á hreinu móteli. Snemma morguns daginn eftir keyrðum við inn í borgina yfir Golden Gate brúna og hlustuðum á teknótónlist og minntumst OZ tímans. Þetta roadtrip var mjög skemmtilegt þrátt fyrir langa setu í bílnum en krakkarnir voru ótrúlega þolinmóð. Við sögðum þeim að við þyrftum að keyra mikið og þeir spurðu á morgnana hvað þeir þyrftu að vera lengi í bílnum og sættu sig við það. Ég fór að hugsa á leiðinni hvað það væri sem er svona skemmtilegt við svona ferðalag en ég komst að þeirri niðurstöðu að svona ferð verður aldrei endurtekin, við stoppum þar sem hentar og fáum gistingu þar sem hún fæst. Óvissan er skemmtileg en líka taugatrekkjandi með þrjú börn í bílnum. En við Kjartan höfum alltaf fílað þennan ferðamáta og alltaf gengur allt upp á endanum einhvernveginn.
Við flugum til Atlanta í Georgíu þar sem við gistum hjá Reyni og Tótu í vikutíma. Þau voru nýflutt til borgarinnar, eiginlega þremur dögum áður en voru svo elskuleg að taka á móti okkur. Þau voru búin að kaupa rúm handa okkur og meira að segja redda rúmi handa Eyju líka.
Þau búa miðsvæðis í borginni í nokkuð stóru húsi og reisulegu með garði. Við héngum í garðinum og spjölluðum meðan krakkarnir sulluðu í vatni og ærsluðust með vatnsblöðrur. Moskítóflugurnar voru ansi skæðar og allir voru illa bitnir en eftir að settur var upp hringur af fælum í kringum okkur minnkuðu árásirnar.
Það eru nokkuð margar fjölskyldur að flytja til Atlanta þessa dagana því CCP er með skrifstofu þar og stórt verkefni í gangi. Við fórum í grill fyrir starfsmenn og hittum Íslendinga og aðra.
Við skoðuðum sædýrasafnið í borginni og dýragarðinn og líka náttúrugripasafnið. Borðuðum góðan mat úr þeirri frábæru verslun Whole foods, allt lífrænt. Ég vildi óska að það væri til svona búð í Shanghæ. Drukkum góð vín og nutum þess að vera með Reyni og Tótu og þeirra strákum, Jökli og Herði. Þetta er fín borg þó maður hafi eiginlega ekki á tilfinningunni að vera í borg, hún er svo græn og skógi vaxin.
Eftir flugið langa skildum við ekki hversvegna enginn bílstjóri tæki á móti okkur á flugvellinum. Við reiknuðum tímamismuninn rangt og lentum ekki á föstudegi eins og við héldum heldur laugardegi. Við tókum þessvegna leigubíl sem syfjaður leigubílstjóri keyrði, strákarnir fengu skipanir um að haga sér illa í bílnum til að vekja hann.
Hérna heima var aðkoman góð, Lí búin að fylla ísskápinn af góðgæti og búið að mála stofuna og stigauppganginn. Hitinn er rúmar 30 gráður en rakastigið hátt svo við erum sísveitt.
Í gær sunnudag fórum við að hitta Ödu og Atla og nýfædda dóttur þeirra hana Töru. Hún fæddist á lukkudeginum mikla 8. ágúst 2008. Eyja varð miklu stærri allt í einu í samanburði við Töru. Tara er yndisleg og það verður gaman að fylgjast með henni stækka og dafna.
Í morgun fór ég svo með Eyju í skoðun á spítalann og bólusetningu. Læknirinn spurði hvort stórt höfuð væri í fjölskyldunni, ég kannaðist við að Kjartan og strákarnir væru höfuðstórir. Eyja er komin upp fyrir allar kúrfur í höfuðstærð og læknirinn vill sónarskoða á henni höfuðið þessvegna. Ég hef nú kannski ekki miklar áhyggjur en mér brá þó það mikið að ég rauk út af spítalanum og gleymdi að borga reikninginn. Við eigum því pantaðan tíma í enn eina sónarskoðunina í næstu viku.
Strákarnir eru í fríi þessa vikuna en byrja í skólanum á mánudaginn kemur. Hugi hlakkar til að byrja en Stirnir segist vera hættur í skóla og þó er hann varla byrjaður. Við höfum nokkra daga til að fá hann til að skipta um skoðun.
Við erum öll nokkuð tímarugluð ennþá, 12 tíma munur á Shanghæ og Atlanta, þurftum því ekkert að stilla klukkurnar. Strákarnir hafa vaknað um miðjar nætur og geta ekki sofið, svo lognast þeir útaf snemma kvölds. Eyja er fljót að átta sig og sefur vel á nóttunni, drekkur samt oftar. Annars verð ég að segja að þessir krakkar eru frábærir ferðalangar, það er gaman að ferðast með þeim og upplifa hlutina með þeim. Þau stóðu sig öll vel á ferðalaginu.
Jú, svo gleymi ég því að ég átti stórafmæli í Atlanta. Reynir eldaði ljúffenga tælenska súpu, tælenskur matur er mitt uppáhald og við fengum köku í eftirrétt. Ég fataði mig svo upp í amerísku molli, alltaf gaman að kaupa föt í Ameríku.
Ég þakka góðar kveðjur í tilefni af afmælinu, Kjartan er svo að ýta á mig að hafa partý hérna, sé til hvað ég nenni.
Dalla
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
1 comment:
Til hamingju með afmælið.
við erum sko meira en til í partý.
Hekla
Post a Comment