Monday, August 25, 2008

Nú erum við komin með aðstöðu til matarboða, stórt borð, nóg af stólum og Kjartan setti upp ljós og hillur líka. Stofan breyttist mikið til hins betra um helgina.

Við fórum út að borða í hádeginu á sunnudaginn, hittum Heklu, Magnús og kó og Láru með stelpurnar. Eftir rólega stund yfir matnum fórum við hingað heim með Heklu, Magnúsi og strákum til að hlusta á leikinn. Við misstum nú fljótt áhugann því þetta var ekki nógu spennandi. Strákarnir bjuggu sér til búninga úr kössunum utan af stólunum og börðust í portinu okkar. Þeir komust allir heilir frá bardaganum og borðuðu hamborgara af bestu lyst. Kjartan eldaði kjúkling og kúskús handa fullorðnum.

Í gær var svo fyrsti skóladagurinn. Við vöknuðum upp við þrumur og eldingar og um klukkan hálfátta bætti mikið í rigninguna. Það læddist að mér sú hugsun að senda strákana ekkert í skólann því veðrið væri svo vont. En skólabíllinn mætti á réttum tíma og ayi sagði að það væri allt í lagi að fara. Við óðum bókstaflega út í bíl og strákunum fannst þetta vera hið mesta ævintýri.

Klukkutíma seinna var hringt í Matthias og Elinu nágranna okkar og þeim tilkynnt að skólanum væri aflýst vegna þess að það hefði flætt inn í kjallara skólans. Við vissum ekkert hvort börnin hefðu náð í skólann með bílnum eða hvað og biðum hérna áhyggjufull eftir frekari fréttum af þeim. Klukkutíma seinna var hringt og sagt að þau væru komin í skólann og það stæði til að senda þau af stað aftur með bílnum. Við samþykktum það enda ómögulegt fyrir okkur að komast í skólann að sækja þau. Kjartan fór í vinnuna og hann þurfti að hjóla í vatni upp að hné og jafnvel mið læri.

Rúmum fjórum tímum frá því börnin lögðu af stað í skólann komu þau hingað heim aftur eftir miklar svaðilfarir. Þau voru þyrst, höfðu klárað allt vatnið sem þau höfðu meðferðis og borðað samlokurnar.

Fyrsti skóladagurinn var eftirminnilegur. Stirnir spurðu hversvegna ég hefði sent þá af stað í skólann og enginn skóli verið. Við vorum ekki búin að fá upplýsingar um símanúmer hjá bílstjóra skólabílsins eða ayi þannig að við vorum sambandslaus við börnin. Skólastjórnendur þurfa að athuga að koma þessum upplýsingum til foreldra sem fyrst. Margir foreldrar voru áhyggjufullir því börn allt niður í þriggja ára ferðast með skólabílunum.

Þessi rigning var víst leifar af fellibyl sem gekk yfir Suður Kína og sagt er að ekki hafi rignt jafnmikið í hverfinu okkar í hundrað ár. Það tók allan daginn fyrir vatnið að sjatna.

Myndir sem Kjartan tók á leiðinni í vinnuna:



Gatnamót Wukang lu og Fuxing lu





Útsýni frá skrifstofunni

Dalla

1 comment:

hekla said...

Flottar myndir. við klikkuðum alveg á þessu enda enn að þjást af þotuþreytu.
Hekla