Friday, August 22, 2008

Við erum fyrst núna að jafna okkur á tímamismuninum milli Kína og Ameríku, strákarnir sváfu til sex í morgun sem kallast gott. Kjartan hefur mætt snemma í vinnuna þessa vikuna og er að uppgötva það að morgnarnir eru góðir til afkasta.
Systurnar Emma og Hadley vinkonur strákanna komu til okkar á þriðjudaginn og við fórum saman í sund. Á heimleiðinni borðuðum við hádegismat á veitingastað og ég rak upp stór augu þegar ég fékk reikninginn, stelpurnar höfðu pantað sér drykki sem voru á verði fínustu kokteila. Hadley sagði Huga frá þeim bíómyndum sem hún sá í sumar og Hugi hlustaði þolinmóður á marga söguþræði. Hún dáðist að bolnum hans og í morgun þegar Hugi klæddi sig fór hann aftur í sama bolinn. Það var von á Hadley og hann sagði við mig að Hadley væri svo hrifin af þessum bol. Þetta hlýtur að vera sönn ást.

Annars höfum við bara verið heima undanfarna daga, Ebba og Andrea hafa verið að leika hérna hjá okkur. Strákarnir hafa mikinn áhuga á álfum (fairies) þessa dagana og Hugi vill endilega sjá álf. Hann útbjó veislu handa álfum í gær og las heila bók um álfa.

Við fórum í skóla strákanna í dag og hittum nýju kennarana þeirra. Mr. Blanck er kennari Huga og Hadley líka því þau verða bekkjarfélagar. Hann er ungur maður sem hefur dvalið áður í Kína við kennslu. Mrs. Wiser er kennari Stirnis, hippaleg kona frá Washington fylki í Bandaríkjunum og virtist mjög vinaleg.
Stirnir var búinn að halda því fram statt og stöðugt að hann ætlaði ekki í skóla, hann myndi í besta falli heilsa upp á kennarann. En í stofunni fékk hann að velja sér sæti og Hugi hjálpaði til við að benda honum á hvað þetta væri gott sæti. Þá lýsti Stirnir því yfir að hann ætlaði í skólann eftir allt saman. Ekki verra að skólastofur þeirra bræðra eru hlið við hlið þetta árið.
Nýjasta orðið hans Stirnis er heppilegt, það er margt sem er heppilegt núna.

Eyja er byrjuð að borða graut og gengur vel. Hún kyngir öllu sem fer upp í hana, hún ætlar að vera dugleg að borða eins og bræðurnir. Hún hefur farið að sofa nætursvefninn kl. 4 síðustu daga en mér tókst að láta hana vaka til hálfsex í dag. Við vorum í IKEA seinni partinn og hún hafði svo mikið að horfa á þar. Ein kona dáðist sérstaklega að lærunum feitu, svona búttuð börn eru falleg börn í Kína.

Hugi fékk að fara í kveðjuveislu hjá Zoe með Hadley, Zoe var með þeim í bekk í fyrra. Hugi var svo keyrður heim af bílstjóra Zoe en Hadley gisti, hann sagði að það hefði verið svolítið hræðilegt að vera einn í bíl með bílstjóranum. En hann var ánægður að hafa verið eini haninn í hænsnahópnum hjá Zoe.

Stirnir aðstoðaði pabba sinn við að setja saman góssið úr IKEA, m.a. matarstól handa Eyju. Við keyptum okkur líka stækkanlegt borð, höfum saknað þess að hafa ekki aðstöðu til matarboða.

Ein nýleg mynd af Eyju og Stirni í garðinum í Atlanta:



Ég er að vinna í því að fara yfir myndafjölda sumarsins.


Dalla

No comments: