Sunday, June 17, 2007

Við erum komin heim!

Ferðalagið gekk vel hjá okkur mæðginum. Strákarnir horfðu stjarfir á
myndir í 11 klukkutíma af 12 í Kínafluginu, þeir lognuðust loksins
útaf síðast klukkutímann. Það reyndist mér erfitt að vekja þá til að
koma þeim inn í flugstöðina en hafðist að lokum.
Við borðuðum pizzu, dönsuðum og hlógum vegna svefngalsa á Heathrow.
Svo fórum við og fjárfestum í sólgleraugum fyrir Íslandsferðina, þið
sjáið að við erum bjartsýn á gott veður meðan við stoppum.
Bræðurnir sváfu alla leiðina til Íslands, Hugi áréttaði það samt áður
en hann sofnaði að ég þyrfti að vekja hann við komuna. Þeir tóku
fyrsta skrefið á íslenskri grundu með viðhöfn og önduðu að sér
íslensku "hreinu" lofti á bílastæðinu við Leifsstöð.
Við stoppuðum og læddumst inn í garðinn á Suðurgötunni og lýstum yfir
ást okkar á húsinu og garðinum, Hugi kyssti grasið, tilfinningarnar
voru svo miklar.
Við gátum nú ekki sofnað strax eftir tæplega sólarhringslangt ferðalag
en það tókst að lokum um tvöleytið eftir miðnætti.

Í gærmorgun vöknuðum við snemma og Hugi rak okkur Stirni í föt því
hann vildi komast strax í Neslaugina. Við vorum með þeim fyrstu ofan í
laugina og klukkutíma seinna komu Hildur og Pétur með Ara Karl líka
ofaní og urðu fagnaðarfundir. Eftir sund var pylsa næst á dagskrá og
svo bíó í boði Ara Karls en við höfðum ekkert farið í bíó í Kína. Við
hlógum mikið að Shrek 3, við mælum með henni. Þá var farið í kakó á
Mokka, án Stirnis sem lognaðist útaf í bílnum. Þar spurði Hugi hvað
væri næst á dagskránni, hann vildi greinilega gera allt á fyrsta degi
sem við vorum á góðri leið með að ná.

Við erum hérna í góðu yfirlæti hjá tengdamömmu á Grjótagötunni, höfum
risið út af fyrir okkur. Í gærkvöldi buðu Björk og Þiðrik okkur í mat.
Stirnir var borinn þangað sofandi og út aftur sofandi, Hugi sofnaði
mínútu eftir komuna þangað. Unnur Maren þriggja ára frænka bræðranna
var stórhrifin af heimsókninni, hún stússaðist í kringum þá þar sem
þeir lágu meðvitundarlausir á dýnu í herberginu hennar.

Í morgun 17. júní var ræs klukkan hálffimm sem við var að búast.
Stefnan er tekin á skrúðgöngu frá Hagatorgi og svo í miðbæjarþvöguna.
Dalla

No comments: