Thursday, June 14, 2007

Hugi vaknaði í morgun og kallaði upp um leið og hann opnaði augun: Á morgun förum við til Íslands! Loksins er að koma að þessu, ég held að við séum búin að telja daga í tvo eða þrjá mánuði.
Í vikunni fóru Grade 1 bekkirnir að heimsækja kínverskan skóla fyrir börn farandverkamanna eða þeirra sem eru ekki frá Shanghai. Kerfið virkar þannig að ef þú ert ekki frá borginni þarftu að greiða hærri skólagjöld en borgarbúar. Margir aðkomumenn eiga ekki peninga til að greiða gjöldin sem eru nokkuð há og setja börnin sín því í sérstaka skóla sem eru ódýrari. Þar geta verið 60 börn í bekk og námsbækur eru af skornum skammti og börnin eiga mörg hver ekki skólatösku og annað sem þarf við lærdóm. En börnin í fyrsta bekk í SCIS söfnuðu peningum með því að vinna húsverk heima hjá sér og þiggja greiðslu frá foreldrunum. Þessir peningar fóru í að kosta einn dreng til náms, foreldrar hans eru með lágar tekjur, faðirinn með lifrarkrabbamein og móðirin atvinnulaus. Að auki fór afgangurinn til að kaupa bækur í bókasafn skólans sem þau heimsóttu, mér skildist að þau hefðu getað keypt heilt bókasafn fyrir peningana. Í skólanum var vel tekið á móti þessum velgjörðarmönnum og kínversku börnin sýndu dans og sungu fyrir þessa nýju vini sína. Huga fannst þetta mjög merkilegt og þarna gerði hann sér grein fyrir því í hvað peningarnir fóru.
Síðustu skóladagarnir hafa verið skemmtilegir, engin heimavinna síðustu vikuna sem gladdi Huga mikið. Á þriðjudaginn var listadagur, kennararnir settu upp stöðvar á skólalóðinni fyrir fyrstubekkinga. Leirað, blásnar sápukúlur, málað og fleira.
Nokkrar myndir frá deginum, ég hafði umsjón með leirnum:


Bekkjarfélagar vinna að lágmynd


Leirhornið

Í dag var stuttur skóladagur því klukkan hálftíu byrjaði samkoma á sal. Fimmtubekkingar sem skipta nú yfir á annað skólastig sögðu frá skólastarfinu í vetur og sungu lag. Þvínæst tók við atriði þar sem allir kennaranir settust upp á svið þar sem var búið að útbúa einskonar lestarvagn. Lestin stoppaði fyrst á Hongqiao road en þangað flyst skólinn í ágúst, þessum skóla verður lokað. Flestir kennararnir fóru úr við Hongqiao en nokkrir héldu áfram út á flugvöll. Þar var tilkynnt brottför til Kairó, Parísar, Brussel, Seattle þar til allir voru farnir. Svo voru skólastjórahjónin kvödd sérstaklega, þau eru að flytja aftur til Bandaríkjanna eftir 5 ára dvöl í Shanghai. Mr. McKamey er sjarmerandi kall, spilar á bassa og hefur húmor fyrir sjálfum sér. Mrs. McKamey hefur kennt öðrum bekk, svona móðurleg týpa sem börnin elska. Tvö börn úr öllum bekkjum komu upp á svið og sögðu hversvegna þau myndu sakna þeirra hjóna, þetta var mjög hjartnæmt og margir hvarmar voru tárvotir við þessa athöfn. Þvínæst söng Mr. McKamey írskt lag, nokkuð sorglegt og þá grét held ég allur salurinn. Þau eru svo sannarlega elskuð þetta fólk af sínum nemendum, kennurun og foreldrum. Það er mikil eftirsjá af þeim.
Að lokum stilltu allir sér upp á skólaganginum og þau hjón gengu í gegn og kvöddu, þau grétu eins og aðrir. Á svona degi eru margir að kveðja Shanghai, fólk flytur annaðhvort heim eða eltir annað starf fjarri heimalandinu. Himnarnir grétu líka í dag því það hellirigndi í allan dag.

Í minningabók um veturinn skrifaði Hugi: I remember on Earth day when I was on the stage. I was dressed ina big box. I even had a mask. And when I was on the stage every one was lafing.

Ms. D skrifar í umsögn um Huga: It is quite amazing that Hugi entered Grade 1 with no knowledge of English and six months later he was writing in his journal some information about the history of Germany.
Stirnir fær líka góða umsögn frá Mr. Flesher:I will miss Stirnir and his wonderful laugh, silly smiles, curiosity and great sense of humor. I wish him continued success in school and in life. I am very proud of his growth this year.

Í fyrramálið, föstudagsmorgun leggjum við í hann kl. 8:30 út á flugvöll. Þar tekur við 12 tíma flug til London, ætli við náum ekki að horfa á nokkrar bíómyndir á þeirri leið, þær verða að eigin vali þar sem hvert sæti hefur sinn skjá. Við verðum að bíða í 5 klukkustundir í London eftir Íslandsvélinni og lendum á Íslandi kl. 23:10 á föstudagskvöldi. En þá verður klukkan orðin 7:10 á laugardagsmorgni í Kína. Þannig að þetta er tæplega sólarhringslangt ferðalag, úff.
Við hlökkum til að sjá ykkur,
Dalla

No comments: