Monday, June 11, 2007

Þarsíðustu helgi fengum við bræðurna Bogga og Örn yfir í gistingu. Þeir sofnuðu allir fjórir saman í rúmi eftir mikinn leik og eina sjóræningjamynd. Boggi og Hugi eru ákveðnir í því að verða sjóræningjar þegar þeir verða stórir og ætla að vera góðir í kúng fú líka. Þeir vilja ekki kannast við það að sjóræningjar séu vondir. Stirnir og Örn verða líklega einhverskonar dýrafræðingar. Þeir hafa mikinn áhuga á skordýrum, liggja hérna yfir trjábeðum og leita að ormum og allskonar pöddum. Stirnir gengur oft hérna um seinnipartinn boginn í baki og sest svo niður og rótar þegar hann sér hreyfingu í moldinni. Hann kemur iðulega inn að biðja um krukkur fyrir gæludýrin eins og hann kallar þau.
Hekla og Magnús stoppuðu hjá okkur á sunnudeginum og fengu lambalæri, kínverskt sem bragðaðist bara vel. Svo fórum við af stað í enn eina veisluna, lokaveislu í skólanum að þessu sinni. Það var rigningarlegt allan daginn en ekkert rigndi. Veislan var vel heppnuð, kólumbísk hljómsveit spilaði og skólahljómsveitin Jiangsu Blues Band var með sitt síðasta gigg, skólastjórinn er að flytja aftur til Bandaríkjanna. Við Hugi dönsuðum heilmikið og Hugi lýsti því yfir að það væri gaman að dansa en hann vildi samt ekki fara í dansskóla. Stirnir var með skordýrakrukkuna með sér og svipaðist um eftir margfætlum á skólalóðinni.
Á þriðjudaginn var field day í skólanum, einskonar leikjadagur, leikir allan daginn á leikvellinum. Ég bauð fram aðstoð með öðrum foreldrum og lenti í því verkefni snemma morguns að fylla vatnsblöðrur. Um tíuleytið þegar flestir voru komnir af stað í leikina kom algjört úrhelli svo allir þurftu að hlaupa í skjól en urðu samt rennblautir. Leikjadeginum var aflýst sem voru mikil vonbrigði. En í lok skóladags fóru allir út í reiptog á fótboltavellinum sem var smá sárabót.
Í vikunni var Stirnisbekkur að undirbúa matsölu sem þau voru með á föstudaginn í hádeginu. Þau bökuðu smákökur með þremur mömmum, þar á meðal undirritaðri, bjuggu til pastasósu, útbjuggu matseðla og skreyttu kokkahúfur. Börnin tóku sjálf niður pantanir og útbjuggu matinn á kaffihúsinu með aðstoð foreldra. Þetta var mikil upplifun fyrir þau og Stirnir beið spenntur alla vikuna eftir föstudeginum. Hugi fékk að koma og fá sér pizzu hjá Stirni sem þjónaði honum til borðs, hann fékk kók með og ís í eftirrétt.
Á laugardaginn var lokaveisla í Hugabekk, skipulögð af mér sem roomparent. Við hittumst í sundlaug í miðbænum, ein af fáum útisundlaugum. Krakkarnir og nokkrir þeirra fullorðnu syntu og léku sér og svo borðuðum við saman hádegismat af hlaðborði. Þetta var vel heppnað og Ms. D var ánægð með veisluna og gjafir sem er hefð að færa kennurum hérna. Hún fékk albúm með ljósmyndum og listaverkum barnanna og I-pod shuffle. Hérna eru svipmyndir:


Mömmur og Ms. D á bakkanum

Ms. D skoðar albúmið frá börnunum

Séð yfir sundlaugina á Ambassy Court

Stirnir hitti bekkjarsystur sína Anna Li

Hugi í leik með Kean og Champion

Í gær sunnudag byrjuðum við daginn í afmælisveislu hjá Callum bekkjarfélaga Huga. Síðan fórum við út í Hongqiao (Hafnarfjörð) og Hugi tók kúng fú próf ásamt hópi barna. Hann stóð sig mjög vel, hélt sér í brú í 30 sekúndur og hreyfingarnar voru fínar hjá honum.

Halda í 30 sekúndur


Lentur á dýnunni í stellingu


Hópurinn með kennurum og kúng fú master í bláu

Eftirmiðdeginum eyddum við hjá Láru og dætrum, Liv og Björk. Þar sátum við í garðinum og sötruðum kampavín meðan börnin léku sér, algjör sæla. Það er fyndið að Christina vinkona mín er nágrannakona Láru svo Hugi og Oliver léku saman og Viktoria dóttir Christinu er orðin góð vinkona Livar. Stirnir leitaði að skordýrum að venju en kættist mikið þegar honum áskotnaðist skál og brú hjá Láru fyrir skjaldbökur sem eru hérna í fóstri hjá okkur. Hann sleppti ekki pokanum með skálinni fram að brottför.
Í morgun fór ég að kaupa húsgögn með Cathra. Hún er sérfræðingur í húsgagnakaupum og fór með mig í vöruhús fullt af gömlum kínverskum húsgögnum. Ég gerði góð kaup og prúttaði svolítið en hætti þegar Cathra sagði mér að ég væri að fá mörg húsgögn fyrir lægra verð en einn skápur annarsstaðar. Þarna var líka lítill kettlingur sem ég hefði alveg vilja taka með mér, Stirnir hefði orðið glaður.

Að lokum tilvitnanir í bræðurna, Stirnir sagði þetta í nestistímanum í morgun í skólanum: “I’m almost never coming back here, I am going to Iceland in 4 days”.

Hugi skrifar dagbók daglega í skólanum og þetta var síðasta færslan hans:
I am going to Iceland after nine days. It takes one day and one night to get there. And when I´m there I´m going to summer camp, over there you can ride horses. And when it´s night time we have a show. And then we go to sleep in our tents on 11:00. And then we take a bath. And then we eat. And then we drive boats. And there is a trampolen. And there is a lake close to the trampolen. And after summer I´m going back to China.
Þetta er hans stafsetning sem er nú bara nokkuð góð, enda fékk hann allt rétt í stafsetningarprófi fyrir skömmu.

Ég verð að segja það að við hlökkum mikið til þess að eyða sumrinu á Íslandi en við hlökkum líka til að koma aftur til Kína í okkar litla hús sem er okkar heimili.
Takk fyrir að lesa, Dalla.

No comments: