Tuesday, March 27, 2007

Stirnir er 5 ára í dag! Hann er búinn að telja dagana í margar vikur og loksins er komið að stóra deginum. Afmælisveislan á sunnudaginn var frábær, við sátum úti í góðu veðri á O´Malleys og allir vinir afmælisbarnsins í Kína komu til að gleðjast með honum. Bekkjarfélagar, Boggi og Örn og Arthúr og Zoe nágrannar okkar, alls 16 krakkar og mikið fjör. Hoppukastalinn var vinsæll og svo var boðið upp á andlitsmálun og blöðrufígúrur og farið í leiki. Undir lokin var blásið á kerti á kökunni þegar búið var að syngja afmælissönginn á ensku, íslensku og kínversku.
Fyrr um morguninn kom Daisy færandi hendi hingað á Hongqiao lu með 2 kanínuunga handa bræðrunum. Þeir fengu nöfnin Jonni og Cookie, Stirnir á Jonna og Hugi Cookie. Þeir tóku miklu ástfóstri við kanínurnar og lýstu ást sinni á þeim, Hugi þó meira, Stirnir er pínulítið smeykur við Jonna. Ég fór með mömmu og pabba í gær og keypti búr handa þeim og strákarnir glöddust yfir nýja búrinu þeirra. En þegar við vöknuðum í morgun var Cookie dáinn í búrinu og Jonni hjúfraði sig hjá honum. Hugi var óhuggandi, svo mikið að hann komst ekki í skólann. Hann hefur sveiflast frá því í dag að vilja nýja kanínu og vilja enga, eitt það síðasta sem hann sagði í kvöld fyrir svefninn var að hann vildi bara eiga Mola því hann deyr aldrei.
Mamma og pabbi/amma og afi lentu í Shanghæ á föstudagsmorguninn eftir tíðindalítið ferðalag. Þau gista fyrstu dagana á hóteli vegna þess að við erum ekki með aukarúm hérna í íbúðinni, þau eru hérna bara í næstu götu. Þau lögðu sig aðeins eftir hádegið á hótelinu á föstudaginn og svo kom ég yfir til þeirra með strákana þegar þeir komu heim úr skólanum. Bræðurnir voru ekkert feimnir við ömmu og afa, hoppuðu á þeim eins og þeir hefðu séð þau síðast í gær. Þeim fannst bræðurnir hafa stækkað, kannski ekki skrítið eftir 10 mánaða fjarveru.
Á laugardagsmorgun fengum við lyklana að nýja húsinu og hittum þá nágranna okkar Svía sem búa við hliðina. Þau eiga 2 stelpur á sama reki og bræðurnir og álíka orkumiklar.
Í gær mánudag fórum við í skoðunarleiðangur, pöntuðum jakkaföt handa pabba á fatamarkaðnum og fengum okkur að borða í Xintiandi. Við löbbuðum svo í gegnum antíkmarkað á leið á gæludýramarkaðinn. Þar er hægt að fá engisprettur í litlum boxum og lifandi orma sem eru fuglamatur.
Nú erum við að pakka niður, flutningar á morgun, alltaf er maður jafn hissa hvað safnast í kringum mann. Mamma er betri en enginn í aðstoð við flutninga, ég veit ekki hvernig þetta gengi ef hún væri ekki hérna.
Daisy mætir í fyrramálið með bíl og flutningamenn og svo förum við af stað til Beijing annað kvöld með lestinni. Engar myndir í dag, búið að pakka niður diskinum, þær koma í næsta bloggi.
Dalla

1 comment:

inga hanna said...

til hamingju með daginn!