Fyrsta vinnuvikan eftir frí hefur verið ljúf.
Við fundum okkur hús til leigu um síðustu helgi og skrifuðum undir samning í byrjun vikunnar. Við ætlum að flytja um næstu mánaðamót og hlakkar til að komast í íbúð þar sem við getum valið húsgögn eftir okkar smekk. Þetta er nýuppgert endaraðhús í franska hverfinu, skemmtilegt hverfi og líflegt.
Hver árgangur í skóla strákanna hefur safnað peningum til góðgerðastarfa með ýmsum hætti, annar bekkur var með kökubasar, kindergarten safnaði fötum og skóm og gaf til fátækra o.s.frv. Nú er komið að árgangi fyrsta bekkjar að láta gott af sér leiða í svokölluðu Community project. Ég fór á fund í skólanum á mánudag þar sem kona frá Shanghai Sunrise kynnti félagið sem safnar peningum til að styrkja fátæk börn til skólagöngu. Það er talið að 40.000 börn í Shanghai gangi ekki í skóla vegna fátæktar fjölskyldunnar. Skólarnir innheimta skólagjöld og þó þetta séu smápeningar í okkar augum geta fjölskyldur með undir 3.000 íkr í mánaðarinnkomu ekki séð af þeim peningum. Þar kemur Shanghai Sunrise til hjálpar.
Börnin í fyrsta bekk ætla að vinna sér inn peninga með því að aðstoða heima hjá sér, vinna ýmis smáverk og fá þannig vasapeninga sem renna til Shanghai Sunrise. Í lok verkefnisins fá börnin jafnvel að hitta börnin eða barnið sem þau styrkja til skólagöngu. Hugi tekur þátt í þessu og hann fer út með ruslið og les fyrir bróður sinn.
Í dag var vacky hairday í skólanum. Ég keypti ofursprey í hárið og þeir fóru bræðurnir með lokk upp í loftið af stað í morgun.
Ég fór inn í Stirnisbekk í morgun með tröllasögur og föndur. Krakkarnir voru öll flott um hárið og Mr. Flesher var með hártopp úr appelsínugulu garni og pípuhreinsara á víð og dreif til skrauts.
Stirnir var calendar helper dagsins. Þá segir hann: Í dag er föstudagur, í gær var fimmtudagur og á morgun er laugardagur! Svo syngja börnin um daga vikunnar. Þarna er Stirnir með Ms. Yuko sem er aðstoðarkennari.
Jina, Natasha, Naomi, Hanae og Mr. Flesher
Ian, Lucas og Danie
Undirrituð að störfum með límbyssuna
Eftir föndrið með fiðrildunum en bekkurinn er kallaður fiðrildabekkur fór ég í hádegismat með Lethe. Við fengum okkur mat frá héraði í Kína, Sichuan en þar er borðaður sterkur matur. Við borðuðum kjúkling með bambussprotum og chilipipar og tofu, mjög ljúffengt.
Svo prófaði ég nýjan hlut, við fórum á hárgreiðslustofu og létum þvo á okkur hárið. Það er algengt að gera þetta hérna en þá er hárið þvegið í stólnum, sjampó og smá vatn sett í þar og nuddað vel og lengi. Svo er hárið skolað í vaskinum og blásið á eftir. Þetta kostar svo mikið sem 10 RMB eða innan við 100 íkr. Þetta er kallað þurr þvottur, gan xi og sama orðið er notað yfir þurrhreinsun á fötum.
Þetta er sjálfsmynd af mér og hárgreiðsludömunni sem var nú ekki ánægð með myndatökuna.
Dalla
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
2 comments:
hæhæ,
nú þegar við vitum hvar ykkur er að finna á netinu munum við fylgjast spennt með lífinu í kína!
inga hanna, þórir, bríet og rebekka
Hæ,
gaman að heyra frá ykkur!
Bestu kveðjur í Vesturbæinn,
Dalla og strákar
Post a Comment