Sunday, February 25, 2007

Stirnir hjarnaði við og kom með okkur í ferðalag til Hangzhou, við erum ég, Hugi, Hekla, Magnús, Boggi og Örn. Kjartan sat heima, bæði vegna plássleysis í bílnum og hann notaði tækifærið til að vinna.
Við leigðum semsagt bíl og bílstjóra til að flytja okkur til Hangzhou sem er í tveggja til þriggja tíma fjarlægð frá Shanghai. Við ætluðum að leggja í hann á mánudag en frestuðum ferðinni vegna þess að bíllinn sem var til boða var ómögulegur, kínverskur, gamall Jinbei, bílbeltalaus með bensínlykt. Allt gekk vel á þriðjudag, við fengum þægilegan bíl með beltum.
Garrison bílstjóri (ég veit ekki hvaðan þetta nafn er komið) keyrði okkur og stýrði líka för. Hann valdi hótel fyrir okkur sem var þriggja stjörnu af kínverskum standard, enginn lúxus og það þurfti að hlaupa um í sturtunni til að blotna. Strákarnir voru hæstánægðir með hótelið og vildu helst vera bara þar, þeir hlupu um gangana og hoppuðu í rúmunum, við fengum enga kvörtun vegna óláta, kínverjar eru mjög skilningsríkir gagnvart krakkalátum. Kínversk börn eru reyndar mjög prúð, kannski hafa þeir aldrei séð svona fjöruga stráka og eru orðlausir. Við þurftum nú líka að byrsta okkur stundum við drengina, það er engin afslöppun að ferðast með þennan hóp.
Við byrjuðum á því að skoða fallegt vatn í Hangzhou, þar var múgur og margmenni á göngu við vatnið. Okkur leið eins og fræga fólkinu, þegar við stoppuðum varð umferðaröngþveiti í kringum okkur, allir vildu horfa á strákana og snerta þá eða taka myndir. Líklega voru þetta ferðamenn, kannski úr sveitum sem hafa sjaldan séð útlendinga, hvað þá útlensk börn. Það lá við á tímabili að við hröktumst út í vatnið, fólk þrengdi að okkur.



Hérna er eitthvað að gerast...



Strákar á vatnsbakkanum

Við leigðum okkur bát fyrir siglingu. Bátsmaðurinn ætlaði reyndar að setja okkur í land eftir heldur stuttan túr, við heimtuðum meira fyrir peninginn og sátum sem fastast.





Um kvöldið báðum við Garrison um að aka okkur á veitingastað. Hann vildi endilega ganga með okkur í gegnum miðbæinn, kvöldmarkað þar sem margt glapti augað. Strákarnir voru uppveðraðir yfir allskonar leikföngum og candyfloss og stærðar sleikjóum. Við vorum hörð á því að þetta yrði ekki í boði fyrr en eftir kvöldmat.
Við borðuðum á kínverskum stað, kannski ekkert sérstaklega huggulegt, allt var opið út á staðnum svo við sátum í úlpunum. En reikningurinn var ekki hár, rúmlega þúsund krónur íslenskar fyrir okkur sjö.

Daginn eftir fórum við niður í morgunmat á hótelinu, þar var kínverskur matseðill, grjónavellingur, grjón gærdagsins þynnt með vatni og dumplings og brunnin egg. Strákarnir ojuðu mikið yfir þessu svo við vorum bara aumingjans útlendingar og leituðum uppi Starbucks. Kínversk kunningjakona mín sagði mér um daginn að stefnan væri sett á að opna 50.000 Starbucksstaði í Kína á næstu árum, það hljómar ótrúlega en þeir eru þónokkrir núþegar. Skrýtið hvernig er hægt að kenna heilli þjóð að drekka kaffi á nokkrum árum.



Svipurinn á Erni þegar hann var búinn að sjá morgunverðinn á hótelinu
Eftir morgunkaffið fórum við í Lingyin musterið. Kínverjar fara í musteri til að biðja um að óskir sínar rætist, flestar tengjast þær auði og heppni. Garrison sagði að árið yrði okkur gott við það að sækja musteri í upphafi þess. Strákarnir eru alveg búnir að sjá út hvað fólk gerir í musterum og báðu hverja einustu styttu um ósk, Stirnir óskaði sér sápukúlna en Hugi vildi ekki gefa upp hver óskin væri.













Þessi stytta af Sakyamuni er 24ra metra há, ein hæsta viðarstytta í Kína og hún er skreytt gulli.

Lingyin-musterið er eitt af 10 þekktustu musterum í Kína og þarna hefur verið musteri frá í kringum 300 eftir Krist. Nafn mustersins er hægt að þýða sem musteri hvíldar sálarinnar. Sagan segir að indverskur munkur hafi verið á ferð og hrifist af náttúrufegurð staðarins og ákveðið að dvelja þar. Á árunum 907 til 960 er talið að 3.000 munkar hafi dvalið í musterinu og þarna hafi verið níu byggingar.

Síðasta daginn í Hangzhou fórum við í skemmtigarð, þema garðsins er Song dynasty.



Þarna voru handverksmenn að störfum, þessi gerði sleikibrjóstsykur í formi dreka, geita eða annarra kvikinda eftir fyrirmyndum.





Það var hægt að kaupa sér salibunu í þessum burðarvagni. Undirleikari lék á lúður og vagninum var hent upp og niður svo farþeginn hoppaði upp.



Þessi fjórir biðu eftir viðskiptavinum.



Á göngunni um garðinn fundum við vatn þar sem á voru flotholt. Hugi rauk út að flotholtin og endasentist fram og til baka án þess að missa jafnvægið. Flotholtin steyptust næstum við þegar hann hoppaði á þau en hann þaut yfir við mikla aðdáum áhorfenda. Hann var í réttum skóbúnaði og endaði á þessu stönti.

Á meðan fékk Stirnir Garrison með sér í veiðiferð. Þeir leigðu veiðistöng og veiddu gullfiska í tjörn, fjórir komu með okkur heim og tóra ennþá hérna í stofunni.





Hugi var líka veiðikló



Hin veiðiklóin vildi ekki myndatökur




Dalla

No comments: