Wednesday, January 10, 2007

Mig langar til að setja inn síðustu myndirnar frá ferðinni, síðasta daginn okkar á Samui, við fórum í siglingu út í eyjar. Þar var okkur hent í sjóinn til að snorkla. Við fórum öll útí, og við Kjartan og Hugi kíktum niður á fjörugt fiskalífið. Stirnir dólaði bara hjá okkur í björgunarvesti.


Snorkl-staðurinnStirnir spurði hvort þessi eyja flyti á sjónum, það er satt, það lítur út fyrir að hún fljóti.

Þvínæst var siglt að fallegri eyju þar sem er fallegt lón. Við klifum upp mikla stiga í hlíðinni og niður aftur hinu megin. Harðsperrur í lærunum sögðu allsvakalega til sín daginn eftir stigaklifrið, ég staulaðist um.
Lónið uppi á eyjunni


Á næstu eyju borðuðum við hádegismat og svo rérum við út á kanóum. Við rérum í kringum eyju sem var mjög gaman. Það voru klettar úti í sjó í kringum eyjuna og við rérum á milli þeirra sumsstaðar.


Eyjan sem við rérum í kringum er í bakgrunni


Um kvöldið sendum við aftur upp ljós með óskum fyrir nýja árið. Hugi óskar sér af innlifun með lokuð augun. Þegar nýja árið gekk í garð sagði hann, jæja, þá er árið búið nú getum við farið aftur heim til Íslands! Þeir hugsa mikið heim til Íslands þessa dagana. Stirnir segist alltaf vera á Íslandi þegar hann dreymir, á Dvergasteini, leikskólanum hans. Þar dreymir hann Lillu og aðra góða vini segir hann.
Þetta var frábær dagur og góður endir á Thailandsdvölinni.

Núna í þessari viku tók hversdagsleikinn við, bræðurnir fóru í skólann á mánudaginn og ég í kínverskuna í gær. Ég hélt ég væri búin að gleyma öllu en það var nú ekki svo slæmt. Við byrjuðum á upprifjun sem var mjög gott, því miður hef ég ekki getað æft mig nógu mikið í tali og þessvegna gleymast hlutirnir.
Í dag var Hugi heima vegna höfuðverkjar í morgun. Hann hresstist þegar leið á morguninn og hann verkstýrði mér í smíði kassa sem á er loftnet og ljósapera áföst. Í þennan kassa ætlar hann að ná eldingum sem mynda þá orku inni kassanum sem hann ætlar m.a. að nota til að komast upp til stjarnanna. Þetta var mikil smíði hjá okkur og hann var ánægður með árangurinn. Kassinn er núna úti á svölum og hann vonast eftir þrumum og eldingum í nótt.
Ég fór í gegnum herbergi bræðranna í vikunni og setti ýmislegt dót í poka, margt brotið eða smádrasl sem fyllir herbergið. Áður en ég komst með pokann út í rusl fór Hugi að frýnast ofan í hann. Það fór svo að hann dró margar fjársjóði þaðan upp og ég fékk skammarræðu fyrir að ætla að henda hinu og þessu. Mamma, sagði hann, veistu ekki að ég nota þetta þegar ég er að byggja!
Það er satt hjá honum, ég þarf að galdra nær daglega fram úr skápum byggingarefni, spotta, kassa og margt fleira sem fellur að hans óskum.
Við mæðginin fórum á kínverska spítalann í bólusetningar seinnipartinn, þeir áttu að fá endurnýjun á lifrarbólgu A og B. Hérna tíðkast ekki að bólusetja gegn lifrarbólgunni í einni sprautu heldur skipta þeir þessu niður svo við þurfum að koma aftur eftir mánuð. Ég þarf að finna stað til að láta bólusetja sjálfa mig, það gat ég ekki fengið gert á barnaspítalanum. Konurnar voru mjög hjálplegar í bólusetningadeildinni og töluðu fína ensku.
Eftir sprauturnar lá leiðin út á götu í leigubílaleit. Fyrir framan spítalann eru sniðugir sölumenn sem selja lítil leikföng og blöðrur handa börnum sem standa sig vel. Stirnir valdi sér lítinn hund sem getur dansað og gelt, hann minntist á það að hann minnti sig á Mola. Hugi valdi sér einhvern staut sem gefur frá sér tónlist og ljósasýningu. Sölumennirnir eru flinkir hérna því þarna eru líka blómasölumenn svo þarna er allt sem gesti vanhagar um. Ég sá það um daginn í götu fyrir utan fæðingarsjúkrahús, voru bara verslanir sem selja meðgöngufatnað og bleyjur, allt fyrir barnið. Sérstaklega hentugt fyrir pabba sem eru sendir út af örkinni í leiðangur eftir nauðsynjavörum.
Þegar við komum heim komu fram óskir um gæludýr frá þeim bræðrum. Huga langar í apa og Stirni langar í moldvörpu.
Dalla

No comments: