Það er eitthvað janúarandleysi í gangi þessa dagana, einhver doði sem ég reyni þó að rífa mig upp úr. Síðasta vika var sérstaklega listræn hjá undirritaðri. Ég fór með Christinu á Shanghai Museum og við skoðuðum gamla leirmuni, brons og klæðnað hinna ýmsu þjóðflokka. Svo fórum við í bókabúðagötuna og keyptum okkur erlendar bækur. Það er svo sniðugt hérna að hafa sérstakar götur fyrir ýmislegt, hérna rétt hjá okkur er til dæmis gatan sem selur eldhús og baðinnréttingar. Engin þörf á að þeytast bæjarhluta á milli þegar á að fara að endurnýja.
Sylvie bauð mér einn morguninn að slást í för með sér og fjórum frönskum frúm. Það er alltaf gaman að koma í franskan félagsskap, frakkarnir eru alltaf soldið spes en ég hef gaman af því að tala frönskuna. Við fórum að sjá skúlptúrasýningu, heljarmikla Auguste Rodin sýningu sem var mjög falleg. Hún var haldin í skúlptúramiðstöð sem leit út eins og gömul verksmiðja, mjög flott. Verst að það var eiginlega kaldara þarna inni en úti svo tærnar voru kaldar eftir að hafa rölt um sýningarsalina. Við horfðum líka á mynd um myndhöggvarann sem var mjög fróðleg.
Þessi óformlegi félagsskapur er duglegur að fara á listsýningar og ég ætla að reyna að slást í för með þeim þegar það skarast ekki á við kínverskutímana mína.
Við fórum aftur út við hjónin á föstudaginn, í þetta skipti til að hitta Noah Flesher, kennarann hans Stirnis og nokkra foreldra úr bekknum. Við fórum á uppáhaldsstað Noah, spænskan tapasstað en hann kjaftaði því að hann væri kominn með kærustu sem vinnur þarna á staðnum.
Þetta var mjög skemmtilegt kvöld, við veltumst um af hlátri en töluðum nú varla um börnin okkar. Enda er það nú ekki tilgangurinn að ræða þau og þeirra frammistöðu. Ég veit nú varla hver tilgangurinn er með þessum kvöldverðum en það er gaman að kynnast þessu fólki. Einn pabbinn er til dæmis umboðsmaður Tiger Woods í Asíu og konan hans fór á kostum þegar hún lýsti því þegar hún fer með mömmu og aðra fjölskyldumeðlimi Tigers í verslunarleiðangra í Shanghai. Hún fór víst einu sinni með þá gömlu í perlubúð og þegar eigandinn frétti hver sú gamla væri þá skellti hann bara búðinni í lás og opnaði peningaskápana til að sýna aðalgóssið. Hann fékk víst hálfa milljón dollara upp úr því.
Við fórum síðan á skemmtistað á eftir með einu frönsku pari og Atla og Ryan sem bættust í hópinn. Ég dansaði alveg í tíu mínútur en það er með því lengsta sem ég hef dansað í þessari borg.
Um helgina var okkur boðið í mat til Heklu, Magnúsar og sona. Þar urðu fagnaðarfundir með strákunum og okkur líka. Við fengum þennan fína grillmat og ég var leyst út með kjaftablöðum frá Íslandi. Við hittum líka Árna hjá þeim sem ætlar að flytja til borgarinnar í haust með sína fjölskyldu svo Íslendingahópurinn fer stækkandi.
Við erum að setja niður dagskrá með strákunum fyrir utan skólann. Stirnir er byrjaður á einskonar leikjanámskeiði eftir skóla á miðvikudögum. Hugi byrjar líka á námskeiði eftir skóla á sömu dögum en hann ætlar að læra um vélmennagerð með legó. Eitthvað svipað og við fengum innsýn í í sumar. Stirnir hafði líka áhuga á vélmennanámskeiðinu en hann er of ungur.
Við heimsóttum tónlistarskóla í síðustu viku því Hugi lýsti yfir miklum áhuga á tónlistarnámi. Þetta er voða sætur skóli í franska hverfinu, tengdur jazzklúbbi. Við fengum að koma inn í tíma hjá Nicola sem er með einskonar forskólakennslu. Börnin læra um rytma, nótur og fá að spila á hljóðfæri, kannski svolítið svipað og hjá Nönnu og Elfu í Kramhúsinu. Bræðurnir voru ansi fjörmiklir þarna í skólanum en náðu að einbeita sér í tímanum, kennarinn var hrifinn af því hvað Stirnir náði taktinum fljótt. Þeir ætla báðir að byrja á námskeiði í lok febrúar og bíða spenntir eftir því. Hugi segist vilja læra á gítar seinna meir.
Ég finn það þessa dagana að mig vantar meira prógramm, mér finnst kínverskunámið ganga hægt svo stundum er ég við það að missa móðinn. Ég ætla að hugsa um það að finna mér jafnvel annað námskeið. Ég heyri það á öðrum konum hérna að þetta er erfiður tími, einhversstaðar heyrði ég það að þetta væri niðursveiflan hjá expatanum, hvað kallast þetta á íslensku, fólk sem er sent burt frá föðurlandinu til búsetu vegna vinnu sinnar. Allt er svo nýtt og spennandi í byrjun en þegar nýjabrumið fer af heimkynnunum og allt sem var svo sniðugt og öðruvísi í byrjun verður bara pirrandi. Ég get kannski ekki sagt að ég sé eitthvað pirruð yfir Kína eða kínverjum, það er bara búið að vera grátt hérna að undanförnu sem hefur áhrif á sálarlífið.
Við Christina erum duglegar að hressa okkur við, höfum ekki um neitt annað að hugsa á daginn en um eigið rassgat. Í vikunni fórum við í göngu um franska hverfið, kíktum í búðir og skoðuðum mannlífið. Eftir hollan hádegismat enduðum við í fótanuddi áður en við fórum í skólann að hitta börnin. Við vorum endurnærðar,örugglega vegna þess að sólin skein þennan dag svo við gátum rekið nefið upp í sólina.
Hérna eru nokkrar myndir frá þessum degi, síðar nærbuxur sem hanga til þerris (þetta virðist vera mjög vinsæll undirfatnaður, það selja allar búðir föðurland núna og ég sé það í sundlauginni að margar konur klæðast því) og einn af þessum veitingastöðum í dyragætt sem selja gufusoðna dumplings og buns.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment