Sunday, January 14, 2007

Á föstudagskvöldið fórum við hjónin út að borða með Atla. Daisy passaði strákana og þegar ég fór af stað voru þau þrjú í hláturskasti á gólfinu að leika með vélmenni.



Það er ekki leiðinlegt að láta Daisy passa sig, hún leyfir bræðrunum að vaka frameftir kvöldi og lætur allt eftir þeim. Það gerir kannski ekki mikið til, hún passar þá ekki oft, hún tekur við ömmu og afa hlutverkinu í eftirlátsemi í fjarveru þeirra.
Við fórum á mjög flottan japanskan stað, teppanyaki en þá eldar kokkurinn við borðið. Við vorum flott á því og pöntuðum okkur matseðil með kobekjöti. Það er kjöt af nautum sem eru alin upp í myrkri, þau fá bjór út í fæðuna og eru nudduð, upp úr gini sagði Atli en ég á eftir að fá það staðfest. Við fengum heil 100 grömm hvert af kjötinu og þetta var meyrasta kjöt sem ég hef nokkurntíma smakkað, algjört lostæti.
Kokkurinn okkar var eldri maður frá Filippseyjum sem hafði búið út um allan heim, eldaði m.a. í Rússlandi og Líbanon. Núna er hann farinn að huga að því að setjast í helgan stein heima á Filippseyjum.
Á laugardaginn var Huga boðið í afmæli, það var dagskrá fyrir stóru krakkana þar svo Stirnir var ekki velkominn fyrr en í lok afmælisins. Það varð svolítið mál úr þessu, þeir eru svo samrýndir, Hugi vildi líka hafa Stirni með. En Hugi fór í afmælið og við hin þrjú fórum í göngutúr um franska hverfið.
Það er gaman að ganga þar um, ekki jafn mikil bílaumferð og annarsstaðar. Við kíktum við í nýju skrifstofuhúsnæði CCP sem verður tilbúið næstu daga. Það er á mjög skemmtilegum stað og í sama húsi er búið að opna vínbúð og innan tíðar á að opna þarna franskt brasserie. Það er spurning hvort Kjartan sýni sig eitthvað hérna heima eftir að skrifstofan flytur þangað.
Stirnir beygði stundum af á göngunni þegar hann hugsaði til Huga í afmælinu.

En tók gleði sína á ný þegar hann komst í fjörið í boltalandinu.
Hugi var alsæll í afmælinu, krakkarnir settu saman vélmenni og fóru svo að leika.
Dalla

No comments: