Monday, December 04, 2006


Desember ætlar að vera skemmtilegur mánuður, félagslífið verður fjörugt í Shanghæ eins og í Reykjavík. Að morgni fyrsta des fór ég í morgunkaffi hjá Fionu írsku, mömmu í Hugabekk. Þar var mikið spjallað, við erum m.a. að skipuleggja jólaveislu í bekknum í næstu viku. Á sama tíma verða tvær stelpur kvaddar sem flytja burt í jólafríinu, m.a. Tyrel dóttir Fionu. Þá jafnast kynjahlutföllin aðeins í bekknum, núna eru 9 stelpur og 6 strákar.

Fiona skutlaði mér að kaupa jólakort en ég var nú svo bjartsýn að ætla að láta Huga og Stirni föndra kortin þetta árið en það gekk ekki upp. Stirnir vildi bara teikna myndir af nöktum fjölskyldumeðlimum á kortin sem mér finnst ekki passa handa eldri frænkum og öðrum vinum.
Eftir kortakaupin gekk ég í átt að lestarstöð og á gangbrautarljósum var hnippt í mig, þá var Yongjia þar stödd. Mér finnst frekar fyndið að hitta vini óvænt í svona stórri borg, ég smellti mynd af henni í tilefni fundarins.

Á laugardag voru Litlu jól Íslendingafélagsins haldin á heimili Önnu formanns. Þarna voru rúmlega 20 landar, 5 börn þar á meðal. Það myndaðist fín stemmning og maturinn var virkilega góður, hangikjöt, hamborgarhryggur og meðlæti. Krakkarnir úðuðu í sig kleinum sem Anna steikti og hlupu um. Það kom í ljós að barnafólkið hafði mesta úthaldið, kannski vegna þess að okkur er sjaldan boðið í partý. Börnin voru ennþá í fullu fjöri um eittleytið þegar við héldum heim á leið, Stirnir var sá eini sem blundaði í sófanum fyrir brottför. Að íslenskum sið var mesta fjörið í eldhúsinu þar sem sköpuðust heitar umræður um expata, maka þeirra og skatta og tryggingamál.


Kraftakallarnir Stirnir, Örn , Boggi og Hugi.

Kjartan og HeklaHlaðborðið
Stjórnin, Dalla ritari, Lára gjaldkeri og Anna formaður.

Í bænum eru félagar frá gamla vinnustaðnum mínum , eða núverandi vinnustað því ég fékk bara launalaust leyfi. Jónbi og Kristján eru hérna til að hitta fyrirtæki í bransanum.
Ég lóðsaði þá um í gær, sunnudag. Þá langaði til að versla og við fórum saman á feikmarkaðinn til að byrja með. Þeir lýstu því yfir að þeir kynnu ekki að prútta svo ég tók það að mér fyrir þá. Þegar fyrstu tölur voru nefndar kom ég með móttilboð sem var yfirleitt minna en einn tíundi af verðinu. Jónbi og Kristján fölnuðu og blánuðu og héldu að ég væri snarvitlaus að bjóða svona lágt. Upphaflega verðið var kannski ekki svo hátt í upphafi og helmingurinn af því fannst þeim ásættanlegt verð. En ég var hörð og yfirleitt endaði það á því að ég borgaði 10 prósent af uppsettu verði. Ég tilkynnti sölufólkinu að ég væri Shanghæbúi, þekkti verðið svo það þýddi ekkert að væla. Þeir gerðu a.m.k. nokkuð góð kaup.
Ég sló svo um mig og pantaði hádegismatinn á kínversku og prúttaði einu sinni á kínversku líka.
Reyndar vorum við öll uppgefin eftir þetta prútt, það tekur á að standa í þessu stappi. Maður er feginn að fara bara í búðir á eftir þar sem ekki er hægt að prútta.
Í gærkvöldi fórum við Kjartan út að borða með Kristjáni á flottan stað og hittum svo Jónba og Jaqueline sem rekur framleiðslufyrirtæki hérna. Myndin er af okkur Jaqueline.


1 comment:

Anonymous said...

Gaman að þessu. Frábær minning og vonandi kem ég aftur sem allra fyrst. Takk fyrir okkur enn og aftur.