Tuesday, June 09, 2009

Síðustu metrarnir fyrir frí

Nú fer að nálgast sumarfrí hjá Huga og Stirni, bara rúm vika eftir af skóla. Þessar síðustu vikur einkennast af miklum veisluhöldum, afmæli, kveðjuveislur, leikjadagar í skólanum og samkomur ýmiskonar.

Stirnir bauð til leiklesturs ásamt bekknum sínum og tveimur fyrstu bekkjum. Hann las hlutverk tröllsins í Geitunum þremur og stóð sig með ágætum, röddin var hræðileg og hann hneig út af þegar geitapabbi mætti honum á sviðinu. Eftir leiklesturinn fylgdumst við Eyja með Huga á leikvellinum í pokahlaupi og vatnsblöðruslag sem var hluti af dagskrá leikjadagsins.

Þessi vika er tileinkuð þökkum til kennara, frekar amerískt því eins og Hugi benti á þá borgum við skólagjöld sem borga laun kennaranna sem eru að vinna vinnuna sína. En það er falleg hugsun að baki og í dag áttu börnin að færa kennurum blóm og áðan sátu bræðurnir og skrifuðu þakkarkort. Stirnir teiknaði fallegt hjarta og inni í því stóð stórum stöfum: I love you. Mrs. Wiser hans umsjónarkennari fær þennan glaðning á morgun. Hugi skrifaði utan á umslag til Ms. Library og í kortinu stóð þetta: Thank you for letting me borrow many books. Ms. Lala tónlistarkennari fékk þakkir fyrir að kenna honum að spila á blokkflautu og Mr. Blanck umsjónarkennari fékk þessi skilaboð: Thank you for teaching me so much!

Hugi bar upp þá bón í gær að hann fengi leyfi til að setja göt í eyrun, eða holur í eyrun eins og hann orðaði það. Ég var ekki spennt fyrir því og sagði að hann yrði alveg eins og stelpa með síða hárið og eyrnalokka í báðum eyrum en mótrök hans voru þau að sjóræningjar væru með eyrnalokka og ekki væru þeir stelpulegir. Í dag var hann hættur við allt saman, sagðist ætla að bíða þangað til hann yrði eldri. En hann var spenntur þegar hann kom heim úr skólanum því  hann var með boðskort í vasanum, afmæli og sleepover hjá Allie vinkonu sinni ásamt tveimur öðrum vinkonum. Hann segist eiga bara stelpuvini í skólanum og einu sinni áður var honum boðið í gistingu með  hóp stelpna en afmælisbarnið tók það upp hjá sjálfri sér að bjóða Huga og það fór þannig að mömmu afmælisbarnsins leist ekki á að hafa strák með í stelpuhópnum og það urðu mikil vonbrigði. En núna er ég búin að hringja og boða komu Huga til Allie á föstudagskvöld til laugardagsmorguns, allt klappað og klárt.

Eyja er farin að labba út um allt. Hún var í hláturskasti fyrstu dagana sem hún gekk um, hló út í eitt. Nú nýtir hún sér óspart að geta fært hluti á milli staða. Hún talar meiri kínversku en íslensku. Segir mamma og baba en bræðurna kallar hún gögö sem þýðir stóri bróðir á kínversku. Hún sest upp í rúminu á morgnana og þegar hún heyrir í strákunum bendir hún fram og segir gögö. Þegar hún kallar á Lí segir hún lai, lai, lai sem þýðir komdu. Hún segir  namm namm þegar hún borðar og elskar að dansa við tónlist. Við syngjum mikið saman og Hugi og Stirnir sitja hjá okkur og syngja með vísnabækur. Eyja þekkir myndirnar í bókunum og gerir hreyfingar þegar við á, klappar og sýnir fingur þegar við syngjum um þá. Hún vill leika lengi úti, fer í æfingatækin hérna fyrir utan hlið og við tökum á móti bræðrunum þar þegar þeir koma heim úr skólanum. Um helgina vorum við á tveimur stöðum þar sem voru rennibrautir og hún var óstöðvandi í þeim. Í síðustu viku fórum við í garð með lítilli vinkonu og þær prófuðu hringekjuna og munnurinn á Eyju var opinn allan tímann vegna gleði.

Fyrir nokkru skipulagði Íslendingafélagið lautarferð í garð fyrir utan borgina. Þar voru 7 fjölskyldur með börn á aldrinum 6 mánaða til níu ára. Hugi er elstur og hann er stoltur af því að vera elsta íslenska barnið í Sjanghæ. En eldri börnin sáust varla allan daginn, þau sulluðu í laug og léku á manngerðri strönd.

IMG_4529

Baddi, Eiríkur og Magnús.

IMG_4545

Ásta Magnúsdóttir situr í grasinu. Eyju líkaði vel að ganga í grasinu en hún öskraði upp yfir sig þegar hún steig í sandinn, linnti ekki látum fyrr en hún var tekin úr sandinum.

IMG_4551

Hluti hópsins

Í síðustu viku rak góður gestur frá Frakklandi inn nefið. Cedrick er frændi Kjartans, þeir eru systkinabörn. Hann höfðum við ekki hitt síðan við bjuggum í Nice 1991. Það var gaman að hitta hann og rifja upp kynnin, hann var bara unglingur þegar við sáum hann síðast en nú er hann tveggja barna faðir og var hér á viðskiptaferðalagi.

IMG_4581

Cedrick og frændsystkinin

Á sunnudaginn birtist Hilmar hjá okkur og fékk gistingu í gestaherberginu. Bræðurnir eru vanir að sofa þar saman en létu sig  hafa  það að fara upp í ris í kojurnar meðan Hilmar dvelur hjá okkur. Hilmar þekkja þeir vel frá Havaii ferðinni í fyrrasumar og Eyja heilsaði upp á hann við komuna.

IMG_4588

IMG_4591

Við kældum okkur með þýskum bjór á Paulaner

IMG_4601

Strákafjör

IMG_4606

Hugi fær far með Hilmari. Þarna sést nokkuð vel hvað hárið er orðið sítt, það nær langt niður á bak þegar það er blautt.

Dalla

1 comment:

Unknown said...

Ósköp er hún Eyja orðin mannaleg og sæt með þessar hvítu krullur. Og greinilegt að það er engin lognmolla að vera mamma í Kína. Gaman að fylgjast með (þó ég sé ekki dugleg að kommentera).