Hér er búin að vera ritstífla í gangi, sit við tölvuna löngum stundum en er bara að skoða fréttir og blogg á Íslandi. M.a.s. Lí sá í kínverska sjónvarpinu hvernig ástandið er þar og spurði mig hvort ekki væri í lagi með fyrirtæki mister (Kjartans).
En ég ætla að taka upp léttara hjal og segja frá Japansreisunni okkar í byrjun október. Spurning hvort við slökum aðeins á í ferðalögum á næstunni...
Ebba og Eyja á Yongjia lu, Ebba er að undirbúa sig undir hlutverk stóru systur í desember.
Hugi og Andrea
Pabbafjör í sófanum
Við fórum í flug síðdegis 30. september og flugum með Japan Air sem var einstaklega þægilegt flugfélag. Það var stjanað við mig og börnin, Kjartan sat annarsstaðar, vegna þess að miðinn hans var keyptur á öðrum tíma. Strákarnir voru ánægðir með að geta horft á mynd á svona stuttu flugi, tæpir 3 tímar. Eyja fékk afnot af körfu og lagði sig þar meðan ég borðaði matinn minn.
Stirnir og Eyja í körfunni
Ferðalagið inn í borgina var eiginlega ekki styttra en það sem við áttum að baki því við tókum lest og lentum því miður á lest sem stoppaði allsstaðar, alls 31 stöð. Leigubílar eru svo dýrir að það er út úr myndinni að nota þá svo við vorum mikið í lestarkerfinu næstu daga. Það er mjög flókið því þrjú fyrirtæki eiga kerfið og það tengist ekki alltaf vel. Kjartan sá um að lesa út úr þessu, ég elti hann í algjörri blindni og reyndi ekki að skilja þetta.
Við komum á hótelið okkar seint um kvöldið og komum okkur fyrir á því minnsta hótelherbergi sem ég hef gist í. Þarna voru tvö rúm, bæði 1,20 á breidd og lítið baðherbergi, reyndar með stóru baðkeri og fínu klósetti sem var rannsakað vel af bræðrunum. Þeir hituðu setuna og settust svo og gerðu stykkin sín og fengu svo volga bunu til að þrífa sig. Stirnir var sérstaklega hrifinn enda hefur hann þrjóskast við að læra að skeina sig sjálfur. Útsýnið út um hótelgluggann minnti mig á íbúð sem við bjuggum í í París en þar var útsýnið út í næsta vegg. Þar gátum við hallað okkur út til að kíkja upp í himininn til að meta veður en þarna sáum við varla í himin.
Við sváfum öll til tíu og misstum því af morgunmatnum. Löbbuðum svo út í hverfinu okkar, Asakusa og skoðuðum musteri. Hugi tók strax eftir því að innfæddir veittu honum litla eftirtekt og sagði: Í Kína er ég stjarna! Japanir virðast ekki vera jafn spenntir fyrir börnum og kínverjar. Þeir virtust oft vera ónæmir fyrir Eyjubrosi í lestinni, litu varla á hana þó hún reyndi mikið að ná sambandi við fólk. Ég tók þó eftir því að eldra fólkið var veikt fyrir henni og gaf sig að börnunum.
Við rákumst á geishuhóp
Hugi stjarna stillir sér upp
Kveikt á reykelsi
Bræðurnir hreyfa við reyknum svo hann fari í andlitið
Stirnir fékk að skjóta ör
Eyja í vagninum, það lá við að vagninn fengi meiri athygli en barnið enda eru japanir mjög smart í klæðaburði og hártísku
Kjartan finnur út úr kortinu
Þarna vorum við ánægð því við vorum búin að kaupa miðana í Disneyland í Shibyua hverfinu, mjög líflegt og flottur staður
Um kvöldið fórum við á Ninja veitingastað þar sem svartklæddar ninjur þjóna til borðs í einkaherbergjum. Á leið að borðinu galdraði ninjan niður brú yfir gat. Að lokinni ljúffengri máltíð, við borðuðum sushi, sashimi, steikur og fleira, kom master ninja og sýndi okkur töfrabrögð. Strákarnir voru ein augu.
Kvöldferð í metro
Kjartan í garðinum við Moriturninn í Roppongi hverfinu
Þarna erum við komin upp á turninn (52 hæðir) og sjáum yfir Tokyo
Hugi við þyrlupallinn
Stirnir við þyrlupallinn
Mæðgur hátt uppi
Byrjað að rökkva
Við skoðuðum listsýningu í Moriturninum, franska listakonan Annette Messager sýndi og strákarnir voru mjög hrifnir en líka pínu hneykslaðir yfir ljósmyndum af tippum.
Um kvöldið borðuðum við á mjög fínum stað sem bauð upp á kóreanskt grill, allt kjöt var svo mjúkt að það bráðnaði í munni, við borðuðum öll yfir okkur. Við fengum bara allsstaðar góðan mat, líka í Disneylandi og uppi í fjalli.
Eyja á heimleið eftir langan dag
Þriðji dagurinn var í Disneylandi og þá rifum við okkur upp snemma því við áttum rúmlega klukkutímaferð fyrir höndum. Við byrjuðum á því að ná okkur í fast pass miða í Big Thunder mountain og skoðuðum okkur um þangað til hann gilti. Það mátti ekki ná sér í fleiri fast pass miða fyrr en hinn tók gildi, frekar flókið en við spiluðum vel úr þessu og komumst í gegnum daginn án þess að bíða mikið í röð og náðum að fara í mest spennandi tækin. Feðgarnir fóru í Big Thunder mountain og voru ánægðir með ferðina og meðan við biðum eftir að komast að í Splash mountain skoðuðum við eyju Tom Sawyer og fórum í kanósiglinu.
Ég tók að mér að fara með bræðurna í Splash mountain og það tók töluvert á. Stirnir fór að hágráta þegar við vorum á leið inn í fjallið og sagðist ekki vilja fara og Hugi endurtók í sífellu: Ég get þetta ekki, ég get þetta ekki! En ég notaði allan minn sannfæringarkraft og tókst að draga þá með mér alla leið í bátana.
Þarna er túrinn að byrja og við bara brosmild
Þetta voru strákarnir búnir að sjá, fólkið fara lóðrétt niður fjallið
Það er skemmtilegur svipur á mörgum
Hugi er skelfingu lostinn, Stirnir stóískur og ég loka augunum og bíð þess sem koma skal
Nornir sópa fyrir utan draugasetrið
Eyja fékk að fara með þangað inn en hún var ekkert hrædd, ekki komin með vitið í þær tilfinningar. Hún fékk líka að fara í siglingu í ævintýraveröld og horfði mikið í kringum sig.
Stúlka situr fyrir í hringekju
Þegar við komum heim á hótel ætluðum við aldrei að geta sofnað, við þurftum svo mikið að tala um daginn. Stirni fannst allt skemmtilegt sem hét mountain, Big Thunder þar sem var keyrt í lest, Splash þar sem siglt var á bátum og Space sem er rússíbani í hálfrökkri. Huga fannst kanóinn skemmtilegastur og hann segist aldrei vilja fara aftur í Splash mountain.
Kjartan var búinn að vinna heimavinnuna sína og finna út að núna væri besti tíminn til að fara upp í fjöllin norðaustan við Tokyo. Haustlitirnir eru fallegir núna og veðrið milt.
Við vöknuðum í bítið og tókum lestina klukkan sjö út úr bænum og til Nikkofjalls. Þar tók við rúta sem keyrði okkur upp hlykkjóttan veg sem er kallaður stafrófsvegurinn því sagt er að öll japönsk tákn komi þar fram ef horft er á veginn úr lofti. Við fórum úr rútunni á leiðinni og skoðuðum Kegon fossinn og vatn þar sem feðgarnir fóru í siglingu á hjólabát.
Við settumst aftur upp í rútuna þremur tímum seinna og héldum hærra upp í fjöllin, upp í 1500 metra hæð. Þar fundum við hótelið okkar og fengum fjölskylduherbergi í japönskum stíl. Semsagt eitt lágt borð og fjögur stólbök en engin rúm. Þarna var lítið klósett og vaskur en engin baðaðstaða því á hótelinu var baðhús. Þetta er hverasvæði og pottarnir voru með hveravatni, við fundum kunnuglega lykt en húðin varð mjúk og fín eftir baðið. Böðum var skipt fyrir karla og konur og fyrst var sturta og svo fór fólk bert í pottinn.
Eyja í síðdegisbirtunni á hótelinu
Ný svipbrigði
og stutt í brosið
þarna finnst mér vera svipur frá Ömmu C
Við fórum í göngu í kringum vatn við hótelið og nutum kyrrðarinnar og fallegs umhverfis. Það er sérstaklega dýrmætt að komast svona út í náttúruna þegar maður býr í stórborg.
Það vantar eitthvað hérna
Ég stakk flíspeysunum niður og þær komu sér vel, samt var hitastigið um 18 gráður, okkur leið eins og í útilegu á Íslandi.
Hugi og Stirnir skoða hverasvæði
Þarna stungum við þreyttum fótum í almenningsfótabað í þorpinu
Heima á hóteli var kvöldverðurinn borinn á borð klukkan sex og okkur fannst við ekki alveg passa inn í því margir voru í baðsloppunum við matarborðið. Það var boðið upp á olíufondue eins og það var kallað, kjöti og öðru stungið í heita olíu í pottum á borðinu. Við fengum nákvæmar leiðbeiningar á blaði um hótelið við komuna, líklega best fyrir svona útlendinga sem kunna ekki reglurnar. Svona hljóðuðu leiðbeiningar um kvöldmatinn: You spit meat, vegetables, fishery products and please eat in spite of being in deep frying with salad oil. Because it becomes hot, when you eat, please take it off a skewer. Kjartan las þessa reglu ekki nógu vel og stakk heitum teininum í munninn og brenndi sig á vörinni, hann var of gráðugur. Ég flissaði mikið yfir merkinu sem hann bar á vörinni þar eftir. Hugi tók ástfóstri við Misosúpu og bað allsstaðar um hana, hann sagðist vera til í að borða hana alltaf í morgunmat.
Feðgarnir fóru svo í baðhúsið eftir kvöldmatinn og sofnuðu sætt rúmlega átta.
Fjör fyrir svefninn
Daginn eftir ætluðum við í göngu, Kjartan stóð fyrir því að venju og fyrirskipaði átta kílómetra labb milli fjalla. Við byrjuðum á mikilli uppgöngu og við blésum öll en misstum ekki móðinn. Hugi lýsti því oft yfir að þetta væri góð ferð og skemmtileg. Stirnir vildi snúa við þegar við vorum hálfnuð en varð viljugur þegar hann uppgötvaði að það væri styttra að halda áfram á áfangastað.
Upp í mót
Áð í skarði milli fjalla
Japanskir ellilífeyrisþegar heilsa upp á Eyju
Á leiðarenda eftir fjögurra tíma göngu vorum við þreytt og svöng og fengum góða steik að launum
Heilsuðum líka upp á belju í túni
Um kvöldið ákváðum við að fara í sloppunum í matinn og pössuðum vel inn í þar.
Fjölskyldumyndataka fyrir matinn
Hugi getur ekki verið kyrr og Eyja missti jafnvægið
Meðan við borðuðum matinn var búið um okkur, lagðar dýnur á gólfið. Við sváfum mjög vel þarna og enginn datt úr rúmi.
Síðasti dagurinn fór í ferðalag til baka. Um morguninn var rigning og tólf stiga hiti. Meðan við biðum eftir bíl til að skutla okkur á rútustoppið fyrir utan hótelið lék Hugi sér að því að hita termostatið á hitamæli á veggnum. Hann var rétt búinn að því þegar að bar mann sem leit á hitamælinn sem sýndi þá 20 gráður og hann rýndi betur og leit á okkur hissa á svip. Við héldum andliti en flissuðum mikið þegar hann fór.
Við vorum á ferðalagi frá hálftíu um morguninn til kl. 10 um kvöldið þegar við komum inn úr dyrunum á Yongjia lu. Allir þreyttir en ánægðir með ferðina.
Dalla
3 comments:
Frábærar myndir og skemmtileg ferðasaga.
Ég fékk hláturskast þegar ég skoðaði myndina af ykkur í Splash mountain. Aumingja Hugi virðist skelfingu lostinn.
Knús, Jóra
Hann var skelfingu lostinn. Takk fyrir skemmtileg komment.
Dalla
Post a Comment