Hér er afmælisundirbúningur í fullum gangi, kakan komin í ofninn, já súkkulaðikakan.
Hugi hlakkar mikið til afmælisins, getur ekki beðið segir hann.
Ég fór í morgun í skóla strákanna til að fylgjast með hátíðahöldum í tilefni dags Sameinuðu þjóðanna. Börn frá tæplega 50 löndum ganga í skólann og í morgun klæddust börnin þjóðbúningum frá sínu landi eða fánalitunum. Huga og Stirni var troðið í vestin góðu frá Catherine enn eitt árið og voru myndarlegir að vanda. Ævar og Edda gengu með þeim með íslenska fánann og voru sportlega klædd í fánalitina. Þau stóðu sig vel og Hugi fór upp á svið til að segja nafnið á landinu sínu. Ég verð alltaf hálf meyr þennan dag, það er eitthvað hátíðlegt að sjá íslenska fánann þarna á meðal annarra. Þó þjóðarstoltið sé aðeins sært að þá hugsar maður heim á þessum degi og er stoltur af upprunanum. Ég set myndir frá deginum inn seinna.
Í gærkvöldi hlustuðum við á hádegisfréttur á RÚV. Þar var talað um að komandi kynslóðir og börnin þyrftu að borga skuldir okkar. Hugi greip þetta á lofti og spurði skelkaður hvort börnin á Íslandi þyrftu nú að fara að vinna. Hann sagði líka að ef við gætum ekki flutt aftur til Íslands þá vildi hann fara til Ameríku næst.
Eyja gerðist sjálfbjarga í gærkvöldi því ég hljóp frá henni í símann þegar ég var að gefa henni grautinn. Hún tók skálina með báðum höndum og reyndi að hella upp í sig sjálf. Það tókst nú ekki vel, það fór allt framan á hana og í stólinn en hún opnaði munninn upp á gátt ef eitthvað myndi hitta á réttan stað. Skálina missti hún ekki.
Hún byrjaði að klappa á mánudaginn og klappar mikið, er voða montin.
Stirnir var í skólamyndatöku í gær og ég átti leið í skólann og rakst á kennarann hans. Hún var í hláturskasti yfir svipbrigðunum hjá honum, sagði að hann hefði brosað svo breitt að það hefði verið eins og hann hefði fengið raflost. Hún reyndi að segja honum að slaka á en það gekk illa, það komu alltaf ný svakaleg svipbrigði.
Kíki á kökuna, spáin góð fyrir morgundaginn,
Dalla
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment