Sunday, February 17, 2008

Á mánudaginn fyrir tæpri viku fórum við Kjartan í hina hefðbundnu mæðraskoðun og sónarskoðun sem hefur verið gerð á tveggja vikna fresti upp á síðkastið. Allt leit vel út í mæðraskoðun, ég var komin rúmar 38 vikur á leið og heilsan mín góð.
Á eftir lá leiðin inn ganginn í sónarinn hjá Huldu. Ég lagðist á bekkinn og skoðunin hófst og okkur Kjartani tókst illa að sjá hvað var verið að skoða á skjánum og Hulda var óvenju þögul. Eftir góða stund sagði Hulda að hún sæi varla vökvann í kviðarholinu á barninu, hann virtist hafa horfið að mestu. Þessvegna þekktum við Kjartan líklega ekki myndirnar af barninu, við erum vön því að sjá útþanda vömb og og vökva í kringum líffærin. Hulda skoðaði lengur og benti okkur á mjóa rönd af vökva í kviðnum sem virtist vera eina merkið um allan vökvann sem hafði verið þarna í rúma fjóra mánuði.
Við vorum öll hissa á þessari framvindu mála, Hulda ekki síður en við. Ég fór í hjartsláttarrit til að fylgjast með líðan barnsins og Hulda ráðfærði sig við barnalækna á meðan. Þeir sögðu að þetta gæti varla verið annað en gott merki að vökvinn væri að fara. Við Kjartan meðtókum varla þessar fréttir, tókum því með fyrirvara að vökvinn myndi bara fara og heilsa barnsins yrði góð. En það var ekkert hægt að rannsaka meira á þessu stigi og ég fór heim. Mamma átti afmæli þennan dag og hún sagði að þetta væri besta afmælisgjöf sem hún hefði nokkurntíma fengið.
Á miðvikudagskvöld byrjaði ég að fá verki og þegar verkirnir voru orðnir örir og langir ákváðum við að fara niður á fæðingardeild, við vildum hafa varann á því það þurfti að fylgjast með hjartslætti barnsins í gegnum alla fæðinguna. Mér til nokkurra vonbrigða hættu verkirnir eftir að við komum niðureftir en útvíkkun var þó komin í fjóra eftir einungis verki í rúma tvo tíma.
Okkur var boðið að gista og sjá hvort þetta færi ekki aftur í gang hjá mér. Um morguninn var ekkert að gerast og þegar ég hitti lækni um hálftíuleytið vildi hún senda okkur heim. Ég klæddi mig og Kjartan fór með farangurinn út í bíl. Ég fór fram á vakt til að sækja skýrsluna mína og ræða við lækninn. Þá stakk ljósmóðirin upp á því að athuga aftur með útvíkkunina áður en ég færi. Þá kom í ljós að útvíkkun var konin í rúma fimm og leghálsinn mjúkur og teygjanlegur. Læknirinn kom inn og spurði hvort ég vildi að við ýttum við því að koma fæðingunni í gang og ég var sko til í það, vildi klára þetta sem fyrst. Svo ég hringdi í Kjartan til að segja honum að koma aftur inn með farangurinn og belgurinn var sprengdur og legvatnið fór að leka.
Hríðarnar létu standa á sér svo það var sett upp hríðaraukandi lyf í æð hjá mér. Hríðarnar byrjuðu svo að koma um tólfleytið og urðu strax örar og sterkar, lá við að það liði yfir mig rétt áður en ég byrjaði að rembast. Ég byrjaði að rembast kl. eitt og Kjartan og ljósmóðirin hjálpuðu mér, Kjartan rétti mér súrefnisgrímu og djús milli rembinga og ljósmóðirin hvatti mig áfram og ráðlagði með stellingar.
Rétt áður en kollurinn kom í heiminn var kallað í barnalækninn sem kom strax. Eyja Kjartansdóttir fæddist kl. 13:27, 14. febrúar og grét strax hraustlega. Ljósmóðirin skildi strax á milli okkar og ég fékk hana upp á bringuna. Barnalæknirinn leit á hana og sagði að hún virtist svo spræk að hún mætti vera hjá mér smástund og hann myndi bíða fyrir utan. Hún fékk að vera hjá okkur í 15 mínútur áður en hún fór yfir á vökudeild í rannsóknir.
Við Kjartan röltum svo yfir til að kíkja á hana og ráðfæra okkur við læknana. Eyja andaði vel frá byrjun og leit út eins og heilbrigt barn fyrir utan að húðin á kviðnum á henni er einu númeri of stór eins og einn læknirinn orðaði það. Fljótlega kom hjartalæknir til að óma hjartað og niðurstaðan úr þeirri skoðun var að hjartað liti fullkomlega eðlilega út, vökvinn sem hafði verið þar í janúar var horfinn og hjartavöðvinn sem hafði líka verið þykkur í janúar var orðinn eðlilegur.
Það voru gerðar ýmsar blóðprufur til að athuga með lifrar og nýrnastarfsemi og allt kom eðlilega út. Eyja var á vökudeildinni fyrstu nóttina og fastandi en á föstudagsmorgni var gerð ómskoðun á kviðnum þar sem allt kom líka vel út, enginn vökvi í kviðnum og líffærin líta eðlilega út.
Eftir lungnamyndatöku í hádeginu fékk Eyja að koma niður til mín á sængurkvennagang í leyfi og við byrjuðum að fikra okkur áfram með brjóstagjöfina. Vorum báðar hálf klaufskar í byrjun en það er allt á góðri leið núna.
Núna sit ég á sunnudagskvöldi og við erum komnar heim til Kjartans og stóru bræðranna sem finnst litla systir vera rosalega sæt. Þessi vika er búin að vera svakalegur rússibani á jákvæðan hátt, við vorum alveg hætt að þora að vona að þetta gæti gerst að vökvinn gæti horfið svona án skýringa. Læknarnir segja að svona sé þetta stundum að engin skýring finnist og þeir ætla heldur ekki að leita að henni lengur fyrst ástandið batnaði.
Við getum ekki verið annað en yfir okkur hamingjusöm með niðurstöðuna, litla heilbrigða og fallega stelpu eftir þá erfiðustu meðgöngu sem hægt er að ímynda sér.
Mig langar til að þakka stuðning vina og fjölskyldu á meðgöngunni, ég er svo sannarlega búin að finna hvað það er mikilvægt að njóta stuðnings og taka á móti fallegum hugsunum frá ykkur.
Ég set inn fleiri myndir fljótlega og fréttir af fjölskyldunni,
Dalla

1 comment:

Anonymous said...

Bravo pour tout! Quel soulagement et quel bonheur!
La petite est adorable. Nous lui souhaitons le meilleur avenir possible - et aux parents et frères aussi bien sûr.
Grosses bises,
Catherine et Kristinn