Sunday, February 10, 2008

Þá eru feðgarnir búnir að vera rúma viku á Íslandi þó okkur finnist þeir búnir að vera hérna miklu lengur, það er svo mikið fjör í kringum bræðurna.
Ferðalagið gekk vel hjá þeim, þeir náðu eiginlega síðasta flugi frá Shanghæ þann daginn, flugvellinum var lokað í nokkra klukkutíma eftir að vél Virgin til London fór í loftið. Snjórinn og kuldinn ræður víst enn ríkjum í borginni, suma daga er kaldara þar en hér.
Strax fyrsta daginn fóru bræðurnir tvisvar út að leika í Mosó með sleða. Síðdegis vildu þeir fara til ömmu Catherine og vitja kofans í garðinum sem var smíðaður síðasta sumar.



Bubbi vinur Huga kom yfir í heimsókn en þeir hittust vinirnir í Garðastrætinu og umferð stöðvaðist víst vegna þess að fagnaðarlætin voru svo mikil hjá vinunum. Þeir fóru svo í það Hugi, Stirnir og Bubbi að tæma búningakistuna hjá ömmu og máta allskonar búninga, gleraugu, hárkollur og skó.
Við fórum í bíó á sunnudaginn fjölskyldan en það gerum við aldrei í Kína. Okkur var svo boðið í pizzu til Þiðriks, Bjarkar og Unnar Marenar. Unnur fékk þá bræður sofandi í heimsókn í sumar daginn eftir komuna til Íslands en í þetta skipti héldust bræðurnir vakandi til að verða sjö svo það var mikið leikið.
Á mánudagsmorgun fórum við öll af stað um áttaleytið. Ekkert erfitt að vakna snemma, bræðurnir voru búnir að vera vakandi í fjóra tíma. Hugi mætti í gamla bekkinn sinn 3. I hjá Ingunni og hitti gamla félaga sem biðu spenntir eftir Kínabúanum. Það var eins og hann hefði aldrei farið og var hæstánægður í skólanum. Ég heimsótti bekkinn eftir hádegi og við Hugi sögðum frá Kína og áramótunum og sátum fyrir svörum. Hugi gaf öllum rottu í tilefni árs rottunnar sem voru vel þegnar. Hugi ákvað að fara í Skýjaborgir, frístundaheimilið eftir skóla því vinirnir fara þangað. Hann var líka svo heppinn að það var að byrja skólasund svo hann fer í sund daglega eftir skóla.
Stirnir fór í gamla leikskólann sinn Dvergastein og er nú í umsjón Hönnu, Siggu og Svövu á elstu deildinni Trölladyngju. Hann gekk þar inn eins og hann hefði aldrei farið og er alsæll. Ég heimsótti líka krakkana í Trölladyngju í vikunni og Stirnir hjálpaði mér að segja frá Kína.

Bræðurnir eru svo glaðir hérna, þeir raða í sig íslenskum mat, slátri og rófustöppu, hákarli, abt mjólk, bollum á bolludaginn og saltkjöti og baunum á sprengidag. Amma Ragnheiður sér um að nóg sé til af mat á heimilinu því ég held að matarlystin hafi tvöfaldast við að koma hingað.
Stirnir sagði einn morguninn þegar hann leit útum gluggann með ömmu sinni en þá hafði kyngt niður snjó um nóttina: Ég ætla aldrei að fara aftur til Kína!
Á föstudagskvöldið bauð Amma Catherine bræðrunum á beinagrindarsýningu í Borgarleikhúsinu, á dagskrá Vetrarhátíðar. Þetta var mikil ævintýraferð í vonda veðrinu. Við hjónin fórum á þorrablót CCP og borðuðum vel og hittum CCP vini.
Við fórum svo aftur í bíó í gær, þá var Ástríkur á dagskrá. Í dag var það svo sýningin um Gosa í Borgarleikhúsinu sem okkur fannst mjög skemmtileg.

Nú eru vonandi ekki margir dagar eftir af meðgöngunni, bræðurnir spyrja daglega hvort barnið komi í dag. Einn morguninn hafði hellst niður vatn við náttborðið þeirra og Hugi vissi að það gæti lekið úr mér áður en barnið kæmi. Hann var sannfærður um að nú kæmi barnið þann daginn.
En allt er með kyrrum kjörum. Ég fékk verki á sprengidag í tvo tíma en þeir voru nú hvorki sárir né reglulegir. Því miður duttu þeir svo bara niður áður en ég borðaði baunirnar.

Dalla

1 comment:

Penny said...

Viltu selja nýru þína? eða Ert þú að leita að tækifæri til að selja nýru fyrir peninga vegna fjárhagsbrests og þú veist ekki hvað þú átt að gera, hafðu þá samband við okkur í dag og við munum bjóða þér góða upphæð fyrir nýru þína. Ég heiti (læknir Elvis Whyte) er með fræðingafræðingur á sjúkrahúsinu okkar og ég sérhæfði mig í nýrnastarfsemi og við glímum líka við að kaupa og ígræðslu nýrna með framfærslu samsvarandi gjafa. Hafðu samband við tölvupóst: doctorelviswhyte@gmail.com eða whatsapp okkur +2347083629144 fyrir frekari upplýsingar