Sunday, April 22, 2007

Afsakið hlé kæru lesendur! Takk fyrir góðar kveðjur. Nú tek ég upp þráðinn þar sem frá var horfið, vil endilega eiga ferðasöguna til Beijing hérna.
Afmælisdagurinn hans Stirnis, 27. mars var viðburðaríkur. Við, ég, mamma og pabbi fórum upp í skóla um morguninn til að aðstoða á samverudegi Pre-K bekkjanna í öllum skólum SCIS. Börn frá hinum campusunum í Pudong og Hongqiao komu í heimsókn og þeim var öllum skipt upp í hópa og leidd á milli stöðva þar sem þau dönsuðu, fóru í jóga, föndruðu eða hlustuðu á upplestur úr bókum hjá undirritaðri. Við hittum aftur Mrs. Moore sem kenndi Stirni á sumarnámskeiðinu síðasta sumar. Hún sagðist hafa orðið mjög hissa að heyra Stirni opna munninn og tala ensku eins og ekkert væri. Hún man eftir honum alveg mállausum auðvitað. Ég las mig næstum hása og hélt á bókunum þannig að börnin sæu myndirnar. Ég fann það út að það er ekki auðvelt að vera kennari og halda athygli hóps barna á þessum aldri.
Í lok dags fóru allir út í reiptog. Börnin kepptu á milli hópa og foreldrar kepptu við kennara sem endaði með tapi foreldra.



Stirnir bauð svo upp á smákökur í tilefni dagsins.





Sama dag kvaddi Hugi Johan vin sinn sem flutti til Yokohama í Japan. Það var haldin smá kveðjuveisla inni í bekknum og börnin lásu upp kveðju til Johans hvert fyrir sig. Hugi sagðist þekkja húsið hans og draugastigann þar úúú!



Síðari hluti dags fór í að pakka niður á Hongqiao lu því Daisy mætti snemma daginn eftir með bíl og fjóra litla en knáa flutningamenn. Daisy var á háa c-inu í flutningunum, rak alla áfram harðri hendi. Við héldum þó ró okkar og allt komst yfir einhvernveginn.



Þegar Daisy og flutningaliðið var horfið á braut náðum við að raða heilmikið inn í skápa í nýja húsinu. Mamma sá um að taka niður eldhúsið og setti það upp aftur hérna. Eftir hádegið prófuðum við veitingastað hérna í næstu götu sem er íslamskur og borðuðum þetta fína lambalæri með grænmeti.
Síðdegis skiptum við liði, ég og mamma fórum að sækja strákana í skólann en pabbi og Kjartan tóku annan bíl og hittu okkur á lestarstöðinni. Þetta varð smá stress vegna þess að gatnamótunum við skólann hafði verið lokað, byggingarkrani var við það að detta niður við hús í byggingu. Við rétt mjökuðumst áfram í leigubílnum. En þetta tókst og við náðum á lestarstöðina í tíma. Í biðsalnum gerði Stirnir sér dælt við ungan mann sem var að horfa á mynd í fartölvunni sinni og Hugi tók svo við af honum.



Þeir verða seint þekktir fyrir feimni þessir bræður!

Ég hélt ég hefði keypt tvo klefa fyrir okkur í lestinni en svo var ekki, við fengum bara einn fjögurra manna klefa öll sex. Strákarnir hoppuðu á milli kojanna og voru frekar glaðir með að eiga að sofa í lest. Kvöldverður var borinn fram í klefanum og allt var hreint og fínt. Við vorum reyndar svo þreytt eftir flutninga og leigubílastress að við vorum öll komin í koju klukkan níu og sofnuð fljótlega eftir það.



Við komum til Beijing kl. sjö að morgni daginn eftir og Barry leiðsögumaður og bílstjóri tók á móti okkur á lestarstöðinni. Hann keyrði okkur upp á hótel og við náðum að fara í sturtu á herbergjunum áður en við héldum út í skoðunarferð.
Við byrjuðum í Lama musteri, mjög fallegt musteri og áhugaverð saga þess.
Þarna er 26 metra há stytta úr viði sem var dreginn frá Tíbet til Beijing, það tók 3 ár að koma trénu á áfangastað. Frekar fyndið að sjá skjöld frá Heimsmetabókinni um að þetta sér stærsta stytta gerð úr einu tré. Bræðrunum fannst þetta merkilegt enda hefur Heimsmetabókin verið skoðuð mikið á þessu heimili.





Þarna reynir pabbi að kasta peningi í himnaríki, efsta hluta bronsstyttu.



Einhverjir hittu í himnaríki.









Ekki taka mynd svipurinn hans Stirnis. Svo þegar er búið að taka myndina segir hann: "Hentu myndinni, hentu myndinni!"

Þvínæst áttum við að skoða Hutong en það eru gamlar götur Beijing, gamla hverfið sem er sífellt verið að skera af til að byggja ný hús. Göturnar eru þröngar sú þrengsta aðeins 40 sentimetra breið og nánast engin bílaumferð leyfð þar svo við settumst upp í hjólavagna, rikshaw og vorum dregin þannig um. Við fengum sérstakan leiðsögumann til að fylgja okkur því aðeins nokkur fyrirtæki mega lóðsa ferðamenn um hverfið.
Stirnir var ekki sáttur við hraða síns reiðhjólamanns og kallaði í sífellu: "Go faster, faster, like a rocket!" Kallgreyið komst nú ekkert hraðar þrátt fyrir hvatningarópin. Stirnir prófaði líka kínverskuna og kallaði kuai, kuai!



Við skoðuðum ópíumstrætið og húsagarða þar sem við heimsóttum eina fjölskyldu. Þar bjuggu eldri hjón í níu herbergjum og þau borga innan við þrjú þúsund íslenskar krónur í leigu. Maðurinn vann hjá olíufyrirtæki og leigan hefur ekki hækkað í þrjátíu ár. Við spjölluðum heilmikið við hann og við Kjartan reyndum aðeins á kínverskukunnáttuna. Manninum fannst mamma svo hraustleg og gat sér til að hún væri fimmtug, ég læt nú ekkert upp hér hvað hún er gömul en hún er aðeins eldri en fimmtug.





Þessar myndir áttu nú að vera samsettar.



Þessi týpa hjólaði með ferðamenn um þröngu göturnar.

Síðdegis borðuðum við Pekingönd með Barry, hann reyndar afsakaði sig og borðaði aðallega grjón, hann sagðist stundum borða öndina nokkrum sinnum í viku með kúnnunum sínum. En öndin var frábær og grænmetið líka sem var borið fram á undan. Öndin er borðuð inni í litlum pönnukökum með sósu og grænmeti. Strákarnir fengu að naga bein eftir að kokkarnir voru búnir að skera öndina niður og voru alsælir með það, þeir kunna vel að meta önd.

Daginn eftir byrjuðum við á því að skoða Torg hins himneska friðar. Barry sagði okkur að ekki væri vitað hversu margir hefðu dáið á þessu torgi en hann sjálfur var viðstaddur mótmælin 1989. Hann seldi vatn á torginu og sagðist hafa unnið sér inn heil mánaðarlaun á nokkrum klukkutímum. Það er mikil gæsla á torginu, einhverskonar herlögreglumenn sem gæta þess. Barry sagðist einhverntíma hafa verið þarna þegar áróðursblöð fóru að flúga um. Lögreglumennirnir hlupu á eftir þeim til að ná þeim og líka nokkur fjöldi ferðamanna sem voru þá líka lögreglumenn í dulbúningi.
Ég var með videomyndavélina mína og myndaði yfir torgið eins og margir ferðamenn. Allt í einu var ég umkringd þremur lögreglumönnum sem vildu skoða það sem ég myndaði. Ég varð við þeirri ósk en var óneitanlega stressuð með þá þrjá yfir mér. Þeir sögðu Barry að ég hefði myndað þar sem var verið að stöðva konu og kíkja í poka hjá henni til að leita að áróðri eða sprengiefni líklega. Þvínæst var ég beðin um að taka yfir þetta myndskeið. Ég spólaði til baka og tók yfir, tókst nú ekki í fyrstu tilraun en ég spólaði aftur og þeir virtust ánægðir. Þannig að ég er ennþá með myndefnið sem er nú ekki merkilegt svosem. Þeir gæta þarna flaggstangar, tveir lögreglumenn. Það er nú víst bara vegna þess að fyrir tveimur árum lagði einhver frá sér skjalatösku með sprengiefni við hana og sprengdi upp.



Flaggstangargæsla



Með Barry fyrir framan hliðið inn í Forboðnu borgina



Stirnir orðinn kínverji?




Hugi varð við ósk stúlku sem bað um að hann sæti fyrir á mynd með sér

Við gengum í gegnum Forboðnu borgina og skoðuðum okkur um í köldu veðri. Við skoðuðum djásn keisara og hin ýmsu hús en með því að telja drekana á þakskegginu var hægt að sjá hversu mikilvæg húsin voru.






Meira Beijing á morgun, Dalla

1 comment:

Anonymous said...

Gaman að sjá myndirnar, Strákarnir hafa ekkert breyst og eru glaðir að sjá.
Diana vinkona Stirnis biður voða vel að heilsa honum :til hamingju með afmælið!!
Bjarmi bður að heilsa Huga og spyr hvenær þið komið heim.
Kær kveðja Brynja og Stefano.