Við erum búin að vera án Kjartans í rúma viku, von á honum í dag. Hann fór til San Francisco með Atla og Horace og hitti þar fullt af CCP fólki. Stirnir sagði þegar hann vissi að Atli hefði farið með pabba hvort Yongjia (kærasta Atla) gæti ekki komið til okkar og gist hjá okkur, við gætum passað hana. Hún er svo mikil vinkona bræðranna að honum finnst að hún þurfi líka pössun eins og þeir.
Stirnir hefur verið fyrimyndarnemandi í bekknum sínum. Kennarinn er með stjörnukerfi, hvert barn er með 3 stjörnur og getur misst þær eina eða fleiri vegna óhlýðni eða slæmrar hegðunar. Þau byrja hvern dag með allar sínar stjörnur. Stirnir hefur ekki misst eina stjörnu allt skólaárið og ég var farin að halda að hann myndi bara halda því. En á miðvikudaginn fékk ég tölvupóst frá Mr. Flesher um það að Stirnir hefði misst eina stjörnu vegna þess að hann talaði svo mikið í hvíldartímanum, hann var áminntur þrisvar en lá greinilega mikið á hjarta og þagði ekki. Að lokum var hann settur við borð og sat þar og stjarnan féll.
Þegar þeir komu heim bræðurnir vildi ég ræða þetta mál við hann. Stirnir varð skömmustulegur yfir stjörnuhrapinu en Hugi kom fljótt til bjargar: "Mamma, ekki vera reið við hann, hann er bara fjögurra ára!" Ég var svosem ekkert reið en málið var látið niður falla og hann lofar góðri hegðun.
Ég er í góðu sambandi við kennara strákanna og Mr. Flesher sendir okkur oft myndir úr skólastarfinu og annað sniðugt. Honum fannst fyndið þegar Stirnir var að skoða bók með bekkjarfélögum í vikunni og benti á mynd og sagði:"This is a dinosaur toilet!" Ég veit ekki hvað var á myndinni en við erum búin að lesa ansi margar risaeðlubækur í vetur, strákarnir fara vikulega á bókasafnið í skólanum og iðulega eru það risaeðlubækur sem verða fyrir valinu þegar þeir velja sér bók til að taka með sér heim.
Í Stirnisbekk fá börnin að koma með leikfang eða annan hlut að heiman í svokallað Show and Tell. Jina kom með hundinn sinn á föstudaginn, hann Hong Hong og vakti það mikla lukku hjá börnunum.
Hugi var í íþróttatíma á fimmtudaginn og börnin áttu að sippa. Hann kom heim og sagðist ekki vera nógu góður í að sippa svo við drógum upp sippuband og hann byrjaði að æfa sig, fyrst inni, svo úti og svo aftur inni. Hann tók miklum framförum og sippaði fram að háttatíma og sofnaði með sippubandið í höndinni. Daginn eftir var hann stífur í bakinu eftir sippið og staulaðist fram úr rúminu en byrjaði strax að sippa meira og æfa sig.
Hver bekkur kemur fram einu sinni á föstudagssamkomum í salnum í skólanum. Þessar samkomur eru á tveggja vikna fresti í lok skóladags á föstudögum. Hljómsveit hússins Jiangsu blues band leikur undir samkomunni en það eru ýmis lög sungin, lag við að bjóða ný börn velkomin, kveðjulagið fyrir börnin sem eru að flytja burt og svo sérstakur afmælissöngur. Þá koma afmælisbörnin upp á svið. Svo er líka sérstakt danslag en þá er einhver hvattur til að dansa, kennari eða nemendur, þetta er svona seremónía, kallað er á viðkomandi og svo fer lagið í gang og þá er dansað "get down". Það er oft mikið fjör á þessum samkomum og foreldrar eru velkomnir á fjörið, ég hef alltaf komið og svo fæ ég far með skólabílnum heim með strákunum. Skólastjórinn spilar sjálfur á bassa í hljómsveitinni, tónlistarkennarinn á hljómborð og smábarnakennarinn á trommur.
Í næstu viku á Hugabekkur ásamt öðrum bekk að koma fram á sviðinu. Þau ætla að leika leikrit um Abiyoyo sem þau eru búin að vera að lesa, það fjallar um dreng og föður hans og fund þeirra við risann Abiyoyo. Hugi var búinn að segja mér frá því að hann ætti að gera "the funny part", ég veit nú ekki hver hann var. En ég fékk póst frá kennaranum hans á föstudaginn og þá hafði stúlkan sem átti að leika föðurinn þjáðst af sviðsskrekk og vildi hætta við. Þau prófuðu 5 krakka í hlutverkið og Hugi var kosinn bestur af krökkunum. Þannig að nú er hann kominn með hlutverk og á að koma með búning, frakka og hatt af pabba sínum svo hann líkist pabba. Huga finnst þetta lítið mál, hann segist eiga að segja nokkrar setningar og galdra með sprota sem hann bjó til í skólanum. Þetta sagði Ms. D kennarinn hans þegar hún sagði mér fréttirnar í tölvupósti:"It is so terrific that he now has such self-confidence in English."
Ég sjálf hef verið upptekin í vikunni líka, ég hitti Önnu forseta Íslendingafélagsins IShai tvo eftirmiðdaga, við vorum að spá í vefsíðu félagsins. Ég fór til hennar eftir kínverskuna, hún gaf mér hádegismat og svo settumst við við tölvuna. Það er gaman að hitta Önnu, við skemmtum okkur vel saman yfir þessu verkefni.
Ég hóaði saman foreldrum úr Hugabekk í morgunkaffi á kaffihúsi í vikunni. Það er mitt hlutverk sem "roomparent" að sjá um það. Mætingin var nú ekki góð, við sátum saman þrjár mömmur. En þessar tvær sem mættu ætla að sjá um næsta activity í bekknum og fá fleiri mömmur með sér. Morgunkaffið teygði úr sér því við fórum saman í matarinnkaup í Carrefour. Önnur mamman er nýflutt hingað frá Singapore og við hinar deildum reynslu okkar af matarinnkaupum með henni, hvaða mjólk er góð, hvaða jógúrt o.s.frv.
Ég hitti líka Lethe og Mihiri á hádegismat í vikunni, við fengum okkur hot pot, frá Sichuan, sterkan og góðan. Svo fórum við aftur í hárþvott á stofu og bættum við nuddi líka, mjög notalegt.
Við Christina frestuðum okkar vikulegu menningarreisu um borgina til föstudags. Hún kom yfir til mín og við gengum héðan upp í gegnum franska hverfið. Við kíktum í búðir og stoppuðum í hádegismat á tælenskum stað, fengum okkur vínglas með því það var að koma helgi.
Í gær laugardag fóru strákarnir í tónlistarskólann, Hugi byrjaði í síðustu viku og Stirnir fór í sinn fyrsta tíma í gær. Þetta er undirbúningur fyrir tónlistarnám, þau eru 7 saman í tímanum og kennt er bæði á ensku og kínversku, tveir kennarar.
Ég naut míns hvíldartíma á meðan og sat úti og las bók. Eftir tímann skoðuðu bræðurnir umhverfið, garðinn við skólann og klifruðu um allt. Ég spjallaði aðeins við kennarann þeirra um hvernig hefði gengið og hún var ánægð með einbeitinguna hjá þeim. Ben, sem vinnur þarna í skólanum var úti í garði með strákunum og elti þá um, hann var hræddur um að þeir meiddu sig í skoðunarleiðangrinum. Hann á engin börn og finnst þeir ansi uppátækjasamir. Ég er auðvitað hin rólegasta en mig grunar að Ben sé feginn þegar við yfirgefum svæðið.
Við fórum heim og biðum eftir heimsókn Magnúsar með Bogga og Örn. Magnús er búinn að vera grasekkill í viku eins og ég grasekkja. Þegar þeir komu fórum við beint í sund. Þar var mikið fjör að venju. Lífvörðurinn sem venjulega sinnir sínu starfi með bóklestri stóð upp til að áminna okkur um að leyfa fólki að synda á tveimur brautum, við tókum nefnilega alla laugina yfir. Eftir sundið fór Magnús með strákana í boltalandið á efri hæðinni og ég fór heim að elda mat. Þeir komu svo nokkurnveginn mátulega í lasagna, glorhungraðir eftir sundferðina. Strákarnir smella alltaf vel saman í leik og njóta þess að vera saman, það getur verið erfitt að slíta þá í sundur aftur. En það kom að kveðjustund eftir skemmtilega samveru og Hugi tók fram sippubandið þegar hann var búinn að kveðja strákana. Nokkrum mínútum síðar var hringt á bjöllunni hjá okkur, þá var það nágranninn niðri að biðja vægðar, hvort við gætum hætt að hoppa.
Dalla
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
2 comments:
Hugi getur sippað allan daginn í nýja húsinu ef að geðheilsa heimilsfólks leyfir ;-)
Knús frá Jóru
Geðheilsan er í góðu lagi þessa dagana, hann getur sippað að vild! Kossar, Dalla
Post a Comment