Thursday, February 08, 2007

Síðustu vikuna hefur verið sýnishorn af vori hérna, hitinn fór yfir 20 gráður á mánudaginn sem var indælt. Verst að fólk nýtur ekki góða veðursins heldur hefur áhyggjur af hlýnandi verðurfari, þetta sé nú ekki eðlilegt svona á miðjum vetri. Ég naut bara veðursins, reyndi að ferðast sem mest fótgangandi og fækkaði klæðum en almennt gerði fólk það ekki, var bara áfram í dúnúlpunum.
Síðasta föstudag hitti ég Láru og Önnu í hádegismat, við kjöftuðum frá okkur allt vit, það var mjög gaman.
Ég fór á djammið með nokkrum mömmum um kvöldið, Daisy passaði að venju og Stirnir var ánægður með það. Hann lýsti yfir ást sinni á henni og bræddi hana alveg. Hún spurði hann hvað hann vildi í afmælisgjöf, hún myndi færa honum það sem hann vildi. Hann notaði tækifærið og bað um kanínu sem Daisy fannst nú lítið mál að redda.
Ég fór á klúbb og hitti nokkrar mömmur, franskar í meirihluta. Það var mjög gaman að setjast með þeim yfir kokteilum og kjafta. Svo kom hljómsveit á sviðið sem spilaði salsa og við skelltum okkur á dansgólfið. Ég tók semsagt ráðið um það að dansa meira hátíðlega.
Síðustu helgi var sól og blíða og við fórum út úr bænum og hittum Heklu, Magnús og syni. Við skoðuðum stóran garð þar sem var m.a. manngerð strönd, klifurgrindur og hoppueitthvað sem leit út eins og stór brjóst. Strákarnir og fullorðnir skemmtu sér vel og við borðuðum nesti úti, kanilsnúða frá Heklu, og flatkökur og lakkrís frá tengdamömmu.









Hérna er inngangurinn í dýrasta klósett Kína, það kostaði 5 milljónir RMB að byggja það, 602.000 dollara. Þetta er manngerður hellir og og inni á klósettunum er umhverfið eins og í dropasteinshelli.

Við fórum á Litla lambið, hot pot staðinn okkar í vikunni, við vorum alls níu saman. Atli og Yongjia, Ryan frá CCP, Paul frá Epic og Noah frá CCP Íslandi. Það er komin hefð fyrir því að fara í hvísluleik þar. Við sitjum alltaf við hringborð og svo er hvíslað hringinn, skemmtilegast að hvísla íslenskum orðum eins og kakkalakki og rassgat er líka vinsælt hjá bræðrunum. Við fengum okkur allskonar kjöt sem er sett í þunnum sneiðum ofan í súpuna og veitt upp aftur augnabliki síðar og er þá tilbúið. Við fengum okkur líka rækjur á teini, þær voru margar ennþá lifandi en voru lostæti eftir smástund í súpunni.

Menningarreisan okkar Christinu þessa vikuna var á Bund, við ána Huangpu en þar eru margar sögufrægar gamlar byggingar sem við skoðuðum bæði úti og inni. Við fórum inn í Peacehótelið og ýmsa banka sem eru þarna í röðum. Við borðuðum hádegisverð á stað með útsýni út á ána.









Kínverjar elska KFC, það er á hverju horni hérna og auglýst líka úti í miðri á.

Síðasti kínverskutíminn fyrir fríið vegna nýársins var í dag. Við lærðum að bláar myndir eru kallaðar gular myndir í Kína, kennaranum fannst þetta greinilega nauðsynleg vitneskja. Hún sagði líka að ef eiginmaður er kokkálaður er talað um að hann sé með græna hattinn, ég veit ekki hvaðan það kemur.
Ég fór líka í viðtal við framleiðslufyrirtæki í dag. Skrifstofan var í gömlu húsi og í innganginum var ekkert merki frá fyrirtækinu, bara nærbuxur á snúru. Ég trúði því varla að þarna væri fyrirtæki en þarna var það á þriðju hæð. Ég er nú ekki búin að ráða mig í vinnu en þeir ætla að hafa mig á skrá ef eitthvað kemur upp, maðurinn sem ég talaði við sagðist hafa ráðið manneskju eins og mig í síðustu viku. Það væri kannski fróðlegt að fara í verkefni öðru hvoru og kynnast bransanum hérna í Shanghai.
Dalla

No comments: