Monday, February 19, 2007

Þá er hið gullna ár svínsins gengið í garð. Það var þónokkuð sprengt á laugardaginn í kringum miðnætti en þetta náði ekki brjáluðu íslensku gamlárskvöldi. En hávaði er greinilega mikilvægur, heilu beltin af kínverjum voru lögð hérna út á stétt og svo var kveikt í og þetta var eins og stórskotahríð. Það flugu líka flugeldar hérna á milli blokkanna. Hreinsunardeildin kemur með kústana um leið svo þetta er allt mjög hreinlegt.



Við fórum í fjögurra ára afmæli Arnar á laugardaginn. Við sátum lengi og sníktum kvöldmat líka. Eftir matinn var dansað við Prodigy og fleira, gott partí!

Á fimmtudaginn, síðasta skóladag fyrir frí var samkoma í skólanum í tilefni af nýárinu. Börnin sungu á kínversku. Stirnir söng höfuð, herðar, hné og tær með sínum árgangi og stóð sig vel, söng hástöfum og gerði hreyfingarnar. Hugi söng lag um vorið en kínverska nýarið er líka kallað vorhátíð.





Á eftir fóru allir út á skólalóð þar sem dreki sveif um og ljón dönsuðu við trumbuslátt.











Stirnir er orðinn lasinn, honum hefur ekki orðið misdægurt síðan í ágúst. Enda bað hann mig um að hringja í Mr. Flesher til að láta vita af veikindunum. Hann var farinn að spyrja hvenær hann yrði veikur, næst segi ég honum, þegar við förum í frí því hann var einmitt lasinn síðast í fríi, í Qingdao. Vonandi hristir hann þetta fljótt af sér, hann er með háan hita og honum gengur illa að halda vökva niðri.
Dalla

No comments: