Tuesday, August 01, 2006



Þá er skólabúningurinn kominn í hús. Við gerðum okkur ferð mæðginin í dag til að sækja hann og fengum afhenta stuttermaboli og stuttbuxur fyrir sumarið og svo vetrarútgáfuna, síðbuxur og síðermaboli ásamt flíspeysu.
Stirni leist illa á það fyrirfram að þurfa að vera í búningi í skólanum, ég held að hann hafi haldið að þetta væri einhverskonar súpermanbúningur. Þegar hann mátaði hinsvegar búninginn vildi hann ekki úr honum. Hugi lýsti því yfir að bolurinn væri mjúkur og notalegur svo ég býst ekki við miklum vandræðum þegar hann þarf að skrýðast honum daglega.
Eina vandamálið er að buxurnar virðast tolla illa um bumbuna á bræðrunum eða réttara sagt bumbuleysið heldur þeim illa uppi. Stirnir missti buxurnar margoft niður um sig í dag, hann var nú líka að gera sér það að leik. Ég þarf að finna lausn á þessu, má ekki vera of flókið svo þeir geti leyst fljótt frá sér þegar þess þarf.
Hugi er að velta upp þeim áhyggjum þessa dagana að hann sér hræddur við að fara í skólann vegna lítillar kunnáttu í ensku. Það vefst nú ekki fyrir honum að gera sig skiljanlegan við Yongjia svo ég skil ekki þessar áhyggjur. Honum gekk líka mjög vel á sumarnámskeiðinu, það komu ekki upp nein tungumálavandamál þar. Kennararnir í skólanum eru þaulvanir því að taka á móti mállausum krökkum á enska tungu svo þetta eru óþarfa áhyggjur hjá honum.
Við erum búin að panta okkur ferð til Quingdao/Tsingtao á laugardaginn og ætlum að dvelja fram á sunnudag 13. ágúst. Við verðum á hóteli við strönd svo það verður strandlíf og skoðunar ferðir í bland.
Dalla