Monday, August 21, 2006



Helgin var bara ágæt, rólegur laugardagur heimavið, strákarnir vildu bara vera heima að leika. Við sátum með Atla á svölunum um kvöldið og drukkum vín og bjór. Líklega of mikið því, heilsan var ekki nógu góð á sunnudeginum.
Við fórum þó, með Atla með okkur niður í bæ og settumst á Barbarossa, stað í miðjum garði á People´s square og borðuðum hádegismat. Á eftir röltum við um garðinn og strákarnir fjórir prófuðu klessubíla og önnur leiktæki.
Strákarnir voru bara sáttir við að fara í skólann í morgun. Ég fór líka í skólann á eftir strákunum, á fund hjá foreldrafélaginu sem bauð nýja foreldra velkomna. Stjórn félagsins fór yfir dagskrána og þar má meðal annars finna kvöldverð á miðjum vetri sem foreldrafélagið býður kennurum til og þakkar þannig fyrir þeirra störf. Mér skilst að það sé mikið fjör þetta kvöld. Þetta finnst mér góð hugmynd, að hitta kennarana í öðru umhverfi og skemmta sér með þeim. Einnig verður sérstakt prógramm fyrir þá sem eru nýfluttir til borgarinnar, þeir fá góð ráð og farið verður yfir þær tilfinningasveiflur sem geta fylgt því að flytja á nýjan og framandi stað. Svo verða kaffimorgnar og miklu fleiri viðburðir á skólaárinu. Ég tók að mér að sjá um hæfileikasýningu barnanna sem verður í apríl. Þá sýna börnin ýmis atriði, mér skilst að hálfur skólinn hafi troðið upp síðasta vetur.
Ég kíkti á Stirni í hádegismatnum og leist nú ekki alveg á það sem ég sá. Á borðinu hjá börnunum er boðið upp á drykki, kókómjólk og sykursafa. Það fyrsta sem ég sá Stirni gera var að þamba heila kókómjólk og svo snerti hann ekki á matnum. Þetta hefur hann greinilega verið að gera síðustu daga og kemur svo sársvangur heim úr skólanum. Maturinn var nú heldur ekki upp á marga fiska, pínulítill skammtur, tveir bitar af pylsu, hrísgrjón, einn biti af grænmeti sem var svo lítið að ég greindi það ekki og einn melónubiti. Ég ræddi málið við eina mömmuna í Stirnis bekk, við vorum frekar svekktar yfir þessum mat. Við vorum sammála um að það ætti ekki að bjóða uppá kókómjók fyrir matinn og bara ekki yfirleitt með matnum. Við ætlum að ræða við aðra foreldra og athuga hvort það náist ekki samstaða um að fjarlægja sykurdrykkina af borðinu og hafa bara vatn á borðinu. Þá myndu börnin kannski borða matinn sinn.
Ég fór síðan í hádegismat með Lethe og Mihiri, Lethe er kínversk, mamma í Stirnis bekk, hún er gift Ástrala og Mihiri er indversk og á dóttur í fyrsta bekk. Það var voða gaman að borða með þeim, indælar konur. Eftir matinn fórum við á markað sem selur barnaföt og leikföng og þar fékk ég málningarsvuntur og stígvél á strákana.
Bræðurnir komu svo heim úr skólanum og höfðu frá mörgu að segja, þeir berjast um orðið. Þeir voru glaðir og svangir að venju.
Dalla

1 comment:

Anonymous said...

Mikið skil ég þetta með neglurnar. Ekki beint það sem maður heillast af - löng nögl á litla putta - eða kókain nöglin Jakkk. Annars er skólinn að hefjast einnig hér á kalda klaka og rigningin tíður gestur. bestu kv.